Veðurstofa Íslands 90 ára
Skjöl frá 1920
Mynd af tveimur skjölum um upphaf veðurathugana á Veðurstofu Íslands. Gjöf frá Þjóðskjalasafni í tilefni af norræna skjaladeginum 13. nóvember 2010 og 90 ára afmæli Veðurstofu Íslands.

Norræni skjaladagurinn 13. nóv.

Veðurstofa Íslands 90 ára

Guðrún Pálsdóttir 17.11.2010

Norræni skjaladagurinn var haldinn laugardaginn 13. nóvember og var Þjóðskjalasafn Íslands með opið hús í frá kl. 11 til 15 í samstarfi við Veðurstofu Íslands sem hélt upp á 90 ára afmæli sitt á árinu.

Þema dagsins var Veður og loftslag undir slagorðinu Óveður í aðsigi?. Sýningin var vönduð og vel upp sett og verður sá hluti hennar sem birtist á vef Þjóðskjalasafns áfram aðgengilegur. Er þar fjölbreytt efni, m.a. frá Veðurstofunni.

Ólafur Ásgeirsson þjóðskjalavörður afhenti Árna Snorrasyni, forstjóra Veðurstofu Íslands, mynd af tveimur skjölum frá árinu 1919 og 1920 í tilefni af afmæli Veðurstofunnar og þátttöku hennar í norræna skjaladeginum (sjá mynd til hægri).

Eldra skjalið er frá Marineministeriet í Danmörku, dagsett 9. desember 1919, og þar kemur fram að veðurathuganir á Íslandi færast frá dönsku veðurstofunni til Íslendinga. Í yngra skjalinu, frá 27. janúar 1920, fer Stjórnarráðið þess á leit við forstöðumann Löggildingarstofu Íslands að stofan taki að sér veðurathuganir á Íslandi frá 1. janúar 1920. Í framhaldi af þessari skipan mála varð til á Löggildingarstofunni sérstök veðurfræðideild. Frá ársbyrjun 1925 var Löggildingarstofan lögð niður og veðurfræðideildin varð sérstök stofnun. Á miðju ári 1926 voru svo fyrstu lögin um Veðurstofu Íslands sett.

Björk Ingimundardóttir, sérfræðingur á Þjóðskjalasafni, flutti fyrirlesturinn Heimildir um veðurfar, náttúruvá og fleira og Guðrún Nína Petersen, veðurfræðingur á Veðurstofunni, flutti fyrirlestur sem hún kallaði Fljúgandi furðuhlutir og skemmtileg ský.

Sólskinsstundamælir
Sólskinsstundamælir
Ljósmynd: Benedikt Jónsson, Þjóðskjalasafni.

Sýningin í Þjóðskjalasafni var fjölbreytt. Sýnd voru nokkur veðurathugunartæki frá Veðurstofunni, meðal annars sólskinsstundamælir með blöðum og hitamælar í mælaskýli.

Á myndinni hér til hliðar má sjá sólskinsstundamæli og blöð frá Reykjavík árið 2009. Blöð hvers mánaðar eru bundin saman í búnt þar sem eitt blað þarf fyrir hvern dag. Sólin brennir raufar í blöðin og af þeim má lesa hvenær dagsins sólin skein og hversu lengi.

Sólskinstundamælar eru enn í notkun á fjórum veðurstöðvum á landinu.

Veðurathugunartæki
Veðurathugunartæki
Veðurathugunartæki frá Veðurstofu Íslands á sýningunni í Þjóðskjalasafni. Fremst er íslenskt hitamælaskýli. Ljósmynd: Benedikt Jónsson, Þjóðskjalasafni.

Einnig voru sýnd gömul veðurathugunarblöð sem varðveitt eru á Veðurstofunni og slík blöð í Þjóðskjalasafni og önnur tengd og áhugaverð skjöl sem varðveitt eru þar.

Skjöl um eldgos í Eyjafjallajökli 1821-1822
Eldgos í Eyjafjallajökli 1822
Sýnishorn af skjölum í Þjóðskjalasafni um eldgos í Eyjafjallajökli 1821-1822 á sýningunni. Ljósmynd: Guðrún Pálsdóttir.

Lesa má fleiri greinar, sem skrifaðar hafa verið í tilefni af 90 ára afmæli Veðurstofunnar.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica