Veðurstofa Íslands 90 ára
hafís
Hafís á Bitrufirði á Ströndum á útmánuðum 1968.

Hafís

Veðurstofa Íslands 90 ára

Guðrún Pálsdóttir 11.10.2010

Frá upphafi stofnunar Veðurstofu Íslands var reynt að fylgjast með hafís við strendur Íslands. Athugunarmenn á veðurathugunarstöðvum við ströndina sendu upplýsingar um hafís og einnig bárust hafísfregnir af og til frá skipum og flugvélum á leið milli Íslands og Grænlands. Sendi Veðurstofan út aðvaranir til sjófarenda ef ástæða var til.

Í tímaritinu Veðráttunni birtust frá upphafi (1924) í hverjum mánuði upplýsingar um hafís við strendur landsins. Á árunum 1953 til 1969 voru birtar sams konar skýrslur á ensku í tímaritinu Jökli.

Landhelgisgæslan fór að huga að hafís um leið og hún fékk flugvél til umráða og á hafísárunum 1965-1971 var farið í sérstök ískönnunarflug enda var hafís við Ísland á þessu tímabili meiri en menn höfðu kynnst áratugum saman og tepptust siglingar.

Árið 1968 var stofnuð hafísrannsóknadeild við Veðurstofuna og árið 1971 kom út fyrsta hafísskýrslan frá stofnuninni, Hafís við strendur Íslands (Sea ice off the Icelandic coasts). Náði hún yfir tímabilið október 1968 til september 1969. Voru þessar skýrslur gefnar út, samfellt en þó óreglulega, allt til september 1996.

Fljótlega eftir að vefur Veðurstofunnar fór í loftið árið 1996 birtust þar hafísfréttir og viðvaranir.

Veðurtunglamyndir fóru að berast til Veðurstofunnar árið 1967 og mátti stundum staðsetja hafísbrúnina með þeim þótt það væri ekki einfalt fyrst í stað.

Ísland gerði samstarfssamning við Veðurgervihnattastofnun Evrópu, EUMETSAT, árið 2006 og síðan hafa gögn frá gervihnöttum í auknum mæli verið notuð til vöktunar á andrúmslofti og á ýmsum veðurfyrirbærum á yfirborði jarðar. Sérstaklega var gætt að hafís og frá miðju ári 2008 hafa reglulega verið gefnar út upplýsingar um legu hans við landið. Er byggt á upplýsingum og myndum frá gervihnöttum, ásamt spá um rek hans miðað við vindáttarspár.

Ingibjörg Jónsdóttir hjá Jarðvísindastofnun hefur einnig unnið að hafísrannsóknum. Sjá ískort byggð á gervitunglamyndum.

Mikil vinna hefur verið lögð í þróun og á notkun gervitunglagagna í háupplausn til sjálfvirkrar greiningar á skýjafari og hafís og til að nema hitaskil í hafinu umhverfis Ísland.

Hafís
Hafis_20100115_1156
Unnin gervihnattamynd frá 15. janúar 2010 þar sem hafísröndin og dreifður hafís er sýndur. Gisinn ís er um 15 sml frá Hornbjargi, en hafístunga teygir sig suður í átt að Ströndum og hefur færst aðeins nær landi frá 14. janúar og er þarna um 14 sml frá landi. Hafístunga er svo um 21 sml frá Straumnesi. Takið eftir að einnig vottar fyrir mögulegum stökum jökum út frá Barða.

Á vef Veðurstofunnar eru birtar haf- og borgarístilkynningar og öðru hverju unnar gervihnattamyndir og kort frá Landhelgisgæslunni. Hafísröndin er sýnd, bæði á myndunum og kortunum, einnig ýmsar aðrar upplýsingar til að auðvelda fólki að átta sig á aðstæðum. Á síðunni eru líka tenglar á ískort annarra stofnana, innlendra og erlendra, og á síður með ýmsum fróðleik um hafís við strendur Íslands.

Fróðleikur um hafís

Upplýsingar um hafís fyrr á tímum er fyrst og fremst að finna í bók Þorvaldar Thoroddsen, Árferði á Íslandi í þúsund ár. Í bókinni er kafli um hafís frá landnámi til ársins 1915. Þar er meðal annars að finna upplýsingar um árið 1695 sem talið er vera mesta hafísár Íslandssögunnar. Samkvæmt annálum fór hafísinn suður með Austfjörðum og vestur með suðurströndinni, inn í Faxaflóa og norður fyrir Borgarfjörð, að minnsta kosti að Hítarárósi.

Sjá meira í greininni Um hafís fyrir Suðurlandi og einnig annan fróðleik um hafís.

Fleiri afmælisgreinar

Lesa má fleiri greinar, sem skrifaðar hafa verið í tilefni af 90 ára afmæli Veðurstofunnar.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica