Veðurstofa Íslands 90 ára
hitamælaskýli - snævi þakin jörð
Veðurstöðin að Írafossi í Grímsnesi.
1 2
næsta

Írafoss - brennisteinsmælingar

Veðurstofa Íslands 90 ára

Jóhanna M. Thorlacius 28.6.2010

Írafoss

Styrkur brennisteins í andrúmslofti olli súrri úrkomu víða í Evrópu á síðustu öld en hefur verið í rénun. Engu að síður er vöktuninni haldið áfram í velflestum löndum vegna þess að brennisteinn umfram sjávar-ýringu stafar af mannavöldum, beint eða óbeint.

Daglegum sýnum af úrkomu, andrúmslofti og svifryki hefur verið safnað á Írafossi í Grímsnesi síðan árið 1980 og þar áður á Rjúpnahæð frá 1972 í þeim tilgangi að vakta súra úrkomu. Mánaðarleg sýnataka hófst reyndar á Rjúpnahæð árið 1958.

Vatnsaflsvirkjanirnar í Grímsnesinu, svokallaðar Sogsstöðvar, eru á vel grónu landsvæði og þar er vakt alla daga ársins. Því er tilvalin bakgrunnsstöð mengunarmælinga á Írafossi og vélstjórar Landsvirkjunar taka sýni hvern einasta dag, bæði helgidaga sem virka daga; en starfsmaður Veðurstofunnar sækir sýnaskammt mánaðarlega. Brennisteinstvíoxíð, SO2, er mælt í andrúmslofti en súlfat, SO4, í úrkomu og svifryki ásamt fleiri efnum.

Á Íslandi hafa mánaðarsýni sýrustig ómengaðrar úrkomu en daglegar mælingar sýna að meðaltali væga súrnun því þær eru næmar á einstaka daga með súrri úrkomu sem annars þynnist út í mánaðarsýnum. Eins og annars staðar í Evrópu lækkaði styrkur brennisteins jafnt og þétt eftir að mælingar hófust vegna bættra mengunarvarna í iðnaði. Gögnin eru send í evrópskan gagnagrunn sem hýstur er hjá norsku loftrannsóknastofnuninni, NILU.

Forsaga mælinganna

Fyrsta net stöðva sem mældu efnasamsetningu úrkomu var sett upp í Svíþjóð árið 1947 en breiddist fljótt út og hlaut nafnið The European Air Chemistry Network, EACN.

Upphaf slíkra athugana hérlendis má rekja til jarðeðlisfræðiársins 1958. Í byrjun þess árs hóf Veðurstofa Íslands mánaðarlega sýnatöku úrkomu og andrúmslofts á Rjúpnahæð, eins og áður er getið. Mánaðarleg söfnun var einnig að Vegatungu í Biskupstungum 1960 til 1973.

Eftir að EACN stöðvanetið hafði verið starfrækt í um það bil áratug kom í ljós að úrkoma á mörgum stöðvanna var að súrna smátt og smátt. Grunur lék á að þetta tengdist súrnun áa og vatna í Skandinavíu þar sem fiskistofnar voru víða horfnir og skógar urðu fyrir skemmdum. Þetta var rætt innan Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, og innan Nordforsk, samstarfsstofnunar norrænu rannsóknarráðanna.

Að tilhlutan Rannsóknarráðs Íslands hóf Veðurstofan daglega sýnatöku á Rjúpnahæð í mars árið 1972. Mánaðarsýnin höfðu reynst gagnleg til að sýna fram á súrnun en þau gátu ekki gefið öruggar vísbendingar um uppruna. Því voru nú tekin sýni daglega til að unnt væri, með veðurfræðilegum aðferðum, að rekja feril loftsins og sjá hvaðan mengunin væri komin hverju sinni.

Sama ár markaði umhverfisráðstefna Sameinuðu þjóðanna í Stokkhólmi tímamót. Þar ræddu helstu ráðamenn heims þá tilgátu að mengandi efni gætu borist þúsundir kílómetra áður en þau bærust til jarðar og yllu skaða; vandamálið væri án landamæra og krefðist alþjóðlegrar samvinnu.

Undir verndarvæng Sameinuðu þjóðanna var EMEP hleypt af stokkunum árið 1977 en það er samstarfsáætlun um eftirlit með og mat á tilfærslu loftmengunarefna langar leiðir í Evrópu. Aðeins tveimur árum síðar var stigið stórt skref í átt til umhverfisverndar þegar bindandi alþjóðasamningur um loftmengun sem berst langar leiðir milli landa var gerður í Genf árið 1979. Samningsaðilar lögðu áherslu á að framfylgja EMEP.

Aðildarríki Genfarsamningsins voru 34 ásamt Evrópubandalaginu; samningurinn gekk í gildi árið 1983 og alls hafa um fimmtíu ríki fullgilt hann nú rúmum tveimur áratugum síðar. Ísland var eitt af löndunum sem skrifaði undir samninginn strax í upphafi og fullgilti hann eftir fjögur ár.

Árið 1980 var sett á laggirnar Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) sem gerir úttektir og birtir niðurstöður, byggðar á faglegri ritrýni.

Rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (UNFCCC) var undirritaður af 156 ríkjum auk Evrópusambandsins (EU) árið 1992 í Ríó de Janeiro í Brasilíu og gekk í gildi eftir að 50 ríki, Ísland þar á meðal, höfðu staðfest hann tveimur árum síðar. Á þriðja fundi aðildarríkjanna í Kyoto í Japan árið 1997 var gerð bókun um bindandi mörk einstakra aðildarríkja á losun gróðurhúsalofttegunda. Veigamiklir fundir aðildarríkjanna hafa verið haldnir reglulega, nú síðast í Kaupmannahöfn í desember 2009. Umhverfisstofnun fylgist með losun Íslands en Umhverfisráðuneytið birtir aðgerðaráætlanir.

EMEP samstarfsáætlunin

Starfsemi EMEP er þrenns konar: Að safna gögnum um losun loftmengandi efna, að safna niðurstöðum mælinga á úrkomu- og loftgæðum og að þróa líkön sem lýsa dreifingu og flutningi mengandi efna í lofthjúpnum. Mælingarnar sem Veðurstofan stendur fyrir falla undir annan þáttinn.

Mikilvægt er að EMEP söfnunarstöð sé dæmigerð fyrir stórt landsvæði með tilliti til loftgæða og úrkomu. Til að auka áreiðanleika og samræmi er mælt með einföldum, sterklegum og stöðluðum söfnunarbúnaði, einföldum söfnunaraðferðum og þátttöku hlutaðeigandi rannsóknastofa í stöðluðum samanburðarprófum frá EMEP.

Veðurstofan hefur frá upphafi séð um að senda upplýsingar um dagleg loft- og úrkomusýni frá Íslandi í gagnagrunn EMEP. Efnagreiningarnar hafa verið gerðar á Keldnaholti. Eins og fyrr segir snúast mælingarnar um brennisteinstvíoxíð, SO2, og súlfat, SO4, en áhuginn hefur beinst í auknum mæli að brennisteinsvetni, H2S, vegna þess að á því formi berst brennisteinn frá jarðvarmavirkjunum. Nýverið setti umhverfisráðherra reglugerð um leyfilegt magn brennisteinsvetnis í andrúmslofti.

Í janúar 2009 varð til ný Veðurstofa Íslands með sameiningu eldri Veðurstofu Íslands og Vatnamælinga. Nýja stofnunin hefur umfangsmeira hlutverk í vöktun og rannsóknum en forverar hennar hvað varðar náttúruvá, loftslagsrannsóknir og rannsóknir á vatnafari. Heildstæð endurskoðun stendur yfir á mengunarmælingunum og verður þeim fundinn sá staður og sá farvegur þar sem þær nýtast best.

Fleiri afmælisgreinar

Lesa má fleiri greinar, sem skrifaðar hafa verið í tilefni af 90 ára afmæli Veðurstofunnar.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica