Veðurstofa Íslands 90 ára
Hús Veðurstofu Íslands
Veðurstofa Íslands, Bústaðavegi 9.

Veðurstofa Íslands 90 ára

Stutt ágrip af sögu

Barði Þorkelsson 13.2.2010

Nú fyrir skemmstu varð Veðurstofa Íslands 90 ára, en hún telst hafa tekið til starfa 1. janúar 1920. Hún var í fyrstu deild í annarri stofnun, Löggildingarstofunni, og hét Veðurfræðideild.

Löggildingarstofan hafði verið stofnuð 1918 og varð Þorkell Þorkelsson forstöðumaður hennar. Löggildingarstofan var lögð niður í árslok 1924 og varð Veðurfræðideildin að forminu til sjálfstæð stofnun frá ársbyrjun 1925 undir heitinu Veðurstofan. Með fyrstu lögum um stofnunina 1926 fékk hún nafnið Veðurstofa Íslands.

Helstu lögbundnu viðfangsefni Veðurstofunnar voru gagnasöfnun til rannsókna á loftslagi landsins, úrvinnsla úr veðurskýrslum frá veðurstöðvum og útgáfa veðurfarsskýrslna, söfnun daglegra veðurskeyta og útsending fregna um veðurútlit, söfnun frétta um hafís, eldgos og öskufall og eftirlit með landskjálftamælingum.

Starfsemi Veðurstofunnar stórefldist strax í kjölfar síðari heimsstyrjaldar. Þá tók Ísland að sér flugleiðsöguþjónustu á Norður-Atlantshafi, þ. á. m. veðurþjónustu vegna millilandaflugs. Flugveðurþjónustu var komið á laggirnar á Keflavíkurflugvelli vorið 1952, en mikilvægi vallarins fór stöðugt vaxandi.

Sólskinsstundamælir
Sólskinsmælir
Sólskinsmælistöð nr. 503 var rekin á Sigurðarstöðum á Melrakkasléttu á árunum 1988 - 2000. Sólskinsstundamælirinn minnir á spákúlu en þegar sólar nýtur við brennir hún göt á mæliblaðið sem eftirlitsmenn skipta um daglega. Þegar sól er lengst á lofti eru notuð löng og sveigð mæliblöð en í mesta skammdeginu eru þau stutt og bein. Myndin er tekin 14. júlí 1994 og blaðið því langt. Nokkrir sólskinsstundamælar eru enn í notkun. Ljósmynd: Elvar Ástráðsson.

Árið 1977 eignaðist Veðurstofan sína fyrstu fjarskiptatölvu og úrvinnslutölvu sjö árum síðar. Farið var að sinna mengunarmálum í ríkari mæli en áður. Hafísvöktun var efld. Starfsemi ofanflóða styrktist verulega nokkru eftir 1980 og mun meir eftir snjóflóðin miklu 1995. Mikil framför varð með tilkomu nýs kerfis jarðskjálftamæla um 1990. Stórstígar framfarir hafa orðið á sviði veðurþjónustu. Mælinga- og eftirlitskerfin hafa styrkst og upplýsingatækniþjónusta eflst. Rannsóknir á fagsviðum stofnunarinnar hafa vaxið verulega að umfangi, einkum vegna aukinnar sóknar í styrkfé, innlent sem erlent.

Veðurstofan var til húsa að Skólavörðustíg 3 allt til 1931, er hún flutti í Landssímahúsið við Austurvöll. Síðan flutti hún í hús Sjómannaskólans við Háteigsveg í árslok 1945. Í ársbyrjun 1950 fluttist öll starfsemi stofnunarinnar, er laut að daglegri veðurþjónustu, í gamla flugturninn á Reykjavíkurflugvelli og tólf árum seinna í þann nýja, en önnur starfsemi varð um kyrrt í Sjómannaskólahúsinu. Árið 1973 fluttist öll starfsemi Veðurstofunnar í Reykjavík að Bústaðavegi 9.

Starfsmenn Veðurfræðideildar Löggildingarstofunnar voru í upphafi fjórir. Tíu árum seinna hafði þeim fjölgað í sjö og hélst sá fjöldi í nær hálfan annan áratug. Síðan fjölgaði þeim í tæplega 30 árið 1946, 1965 voru þeir um 60 og um 80 árið 1990.

Veðurstöð í Kálfabotnum
Seydisfj123
Sjálfvirk veðurstöð var sett upp í Kálfabotnum fyrir ofan Seyðisfjörð í nóvember 2005 og er myndin tekin við það tækifæri. Leifur Örn Svavarsson jarðfræðingur og Emil Tómasson, snjóeftirlitsmaður á Seyðisfirði, ganga frá stöðinni. Starfsemi Veðurstofunnar byggist mikið á athugunarmönnum víðs vegar um land, sem og á almenningi sem hefur samband og lætur vita sé eitthvað óvenjulegt og/eða athyglisvert að gerast í náttúrunni. Ljósmynd: Sigvaldi Árnason.

Í ársbyrjun 2009 var starfsemi Veðurstofu Íslands og Vatnamælinga sameinuð í nýrri stofnun undir nafni hinnar fyrrnefndu. Vatnamælingar voru deild í Orkustofnun frá 1967 en höfðu áður verið í umsjón raforkumálastjóra allt frá 1947. Þær urðu fjárhagslega sjálfbær eining 1997 og loks sjálfstæð rekstrareining undir umhverfisráðuneytinu í ársbyrjun 2008. Helstu viðfangsefni Vatnamælinga hafa verið kerfisbundnar vatnamælingar, mælingar á jöklabúskap og kortlagning á ísalögum vatna, langtímarannsóknir á vatnsauðlindinni og gerð vatnafars- og flóðakorta. Fróðleiksmolar um ýmis verkefni stofnunarinnar hafa verið teknir saman.

Starfsstöðvar Veðurstofu Íslands í Reykjavík eru á Bústaðavegi 9 og Grensásvegi 9. Ennfremur rekur stofnunin útibú á Ísafirði þar sem einkum er fengist við ofanflóðaverkefni og gerðar eru veðurathuganir og fleiri mælingar í starfsstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Þá rekur stofnunin athugunarkerfi og mælistöðvar um allt land. Starfsmenn í Reykjavík eru nú um 110, sex á Ísafirði og sjö á Keflavíkurflugvelli. Þá eru ótaldir veðurathugunarmenn, snjóathugunarmenn, eftirlitsmenn vatnshæðarmæla og jarðeftirlitskerfa, um 160 að tölu.

Þegar Þorkell Þorkelsson lét af starfi veðurstofustjóra árið 1946, tók Teresía Guðmundsson við og stýrði stofnuninni til 1963. Síðan gegndu starfi veðurstofustjóra: Hlynur Sigtryggsson (1963-1989), Páll Bergþórsson (1989-1993) og Magnús Jónsson (1994-2008). Núverandi forstjóri, Árni Snorrason, tók við starfinu við sameininguna í ársbyrjun 2009.

Hér á vefnum má skoða stutta myndasýningu úr sögu Veðurstofu Íslands. Myndirnar sýna fjölbreytt starfssvið Veðurstofunnar. Elsta myndin er frá 1918 og þær yngstu frá 2010. Sýningin er sett upp í PowerPoint og tekur um 10 mín. að skoða allar myndirnar. Ef ekki er hægt að lesa skjalið þarf að niðurhala PowerPointViewer.exe frá Microsoft. Forritið er 25,8 MB.

Lesa má fleiri greinar í málaflokknum Veðurstofa Íslands 90 ára.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica