Veðurstofa Íslands 90 ára
sól veður í skýjum - dimmt yfir landi og hafi
Frá Stórhöfða í Vestmannaeyjum.

Stórhöfði - mengunarmælingar

Veðurstofa Íslands 90 ára

Jóhanna M. Thorlacius 23.11.2010

Veðurstofa Íslands hefur umfangsmiklu hlutverki að gegna í vöktun og rannsóknum hvað varðar náttúruvá, loftslagsrannsóknir og rannsóknir á vatnafari. Eitt af mörgu sem þarf að sinna eru mengunarmælingar.

Þungmálmar í úrkomu og svifryki

Vikusýnum úrkomu til þungmálmagreininga hefur fyrst og fremst verið safnað á Stórhöfða í Vestmannaeyjum (frá 2001) en einnig í Reykjavík til samanburðar. Samhliða sérhæfðri þungmálmasöfnun eru alltaf gerðar hefðbundnar mælingar til að greina hlut sjávarýringar og áfoksefna. Eftirfarandi málmar eru efnagreindir (ng/ml):

Loftsöfnun út við sjó

Ljósmynd: Sigurður B. Finnson.

  • Fe járn
  • Cu kopar
  • Zn sink
  • Pb blý
  • Cd kadmíum
  • Hg kvikasilfur
  • Ni nikkel
  • Cr króm
  • As arsen
  • V vanadíum
  • Mn mangan
  • Al ál

Á Stórhöfða er einnig safnað hálfsmánaðarsýnum af svifryki sem ekki er kornastærðargreint og því getur drjúgur hluti þess verið staðbundinn, þ.e.a.s. ættaður af jökulsöndunum eða úr eyjunum sjálfum. Lesa má um uppruna þungmálma og eituráhrif á mengunarsíðum vefsins.

Þrávirk lífræn efni

Vaktað hefur verið síðan árið 1995 hvaða þrávirku lífrænu efni mælast í úrkomu og lofti á Stórhöfða í Vestmannaeyjum en þau eru fyrst og fremst álitin berast með lofthjúpnum að Íslandsströndum erlendis frá. Að auki eru þar nýrri safnanir á vegum kanadískra og tékkneskra aðila þar sem fyrst og fremst er verið að gera tilraunir með annars konar söfnunaraðferð.

Veðurstofan ber ábyrgð á sýnaröðinni frá 1995; hálfsmánaðarsýni þar til nýverið (nú mánaðarsýni). Sömu efni eru vöktuð í úrkomu (ng/l) og andrúmslofti (pg/m3):

Þrávirkum lífrænum efnum safnað

Ljósmynd: Elvar Ástráðsson

  • alfa-HCH, beta-HCH, gamma-HCH
  • p,p'-DDE
  • p,p'-DDD
  • o,p'-DDT ásamt p,p'-DDT
  • HCB
  • díeldrin
  • cis-klórdan, trans-klórdan, trans-nonaklór
  • PCB-28, -31, -52, -101, -105, -118
  • PCB-138, -153, -156, -180
  • toxafen-26, -50, -62

Á mengunarsíðum vefsins má lesa um um þrávirk lífræn efni, uppruna þeirra og áhrif, en þrávirknin stafar af klór í kolvetnunum.

Forsaga mengunarmælinganna

Árið 1972 markaði umhverfisráðstefna Sameinuðu þjóðanna í Stokkhólmi tímamót. Þar ræddu helstu ráðamenn heims þá tilgátu að mengandi efni gætu borist þúsundir kílómetra áður en þau bærust til jarðar og yllu skaða; vandamálið væri án landamæra og krefðist alþjóðlegrar samvinnu.

Undir verndarvæng Sameinuðu þjóðanna árið 1977 var hleypt af stokkunum samstarfsáætlun um eftirlit með og mat á tilfærslu loftmengunarefna langar leiðir í Evrópu, EMEP. Aðeins tveimur árum síðar var stigið stórt skref í átt til umhverfisverndar þegar bindandi alþjóðasamningur um loftmengun sem berst langar leiðir milli landa var gerður í Genf árið 1979. Samningsaðilar lögðu áherslu á að framfylgja EMEP.

Aðildarríki Genfarsamningsins voru 34, ásamt Evrópubandalaginu; samningurinn gekk í gildi árið 1983 og alls hafa um fimmtíu ríki fullgilt hann nú rúmum tveimur áratugum síðar. Ísland var eitt af löndunum sem skrifaði undir samninginn strax í upphafi og fullgilti hann eftir fjögur ár.

Veðurstofan hóf að senda gögn í EMEP árið 1980. Mælingar á þungmálmum hófust 1991 en söfnunarferlið var mikið endurbætt árið 1999. Efnagreiningar á þungmálmum hafa verið gerðar á norsku loftrannsóknastofnuninni NILU síðan 1998 og söfnunarbúnaðurinn er fenginn þaðan. Mælingar á þrávirkum lífrænum efnum hófust árið 1995 og efnagreiningar á þeim hafa verið gerðar á Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði frá upphafi.

Heildstæð endurskoðun stendur nú yfir (2010) á mengunarmælingum Veðurstofu Íslands.

Markmið evrópsku samstarfsáætlunarinnar

Samstarfsáætlunin EMEP safnar niðurstöðum mælinga á úrkomu- og loftsýnum. Mikilvægt er að söfnunarstöð sé dæmigerð fyrir stórt landsvæði og til að auka áreiðanleika og samræmi er mælt með stöðluðum söfnunarbúnaði og þátttöku hlutaðeigandi rannsóknastofa í samanburðarprófum. Innan EMEP er einnig safnað gögnum um losun loftmengandi efna og líkön þróuð sem lýsa dreifingu og flutningi mengandi efna í lofthjúpnum.

Gögn Veðurstofunnar eru send til EMEP. Einnig nýtast þau AMAP, sem er samningur um vöktun norðurslóða, og OSPAR, sem er samningur um vöktun norðausturhluta Atlantshafs. EMEP gefur út fjölda sérhæfðra skýrslna um loftmengun í Evrópu á hverju ári (sjá „publications t.v. á síðu).

Vöktun hnattrænna loftslagsbreytinga

Árið 1980 var sett á laggirnar Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) sem gerir úttektir og birtir niðurstöður, byggðar á faglegri ritrýni.

Rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (UNFCCC) var undirritaður af 156 ríkjum, auk Evrópusambandsins, árið 1992 í Ríó de Janeiro í Brasilíu og gekk í gildi eftir að 50 ríki, Ísland þar á meðal, höfðu staðfest hann tveimur árum síðar. Veigamiklir fundir aðildarríkjanna hafa verið haldnir reglulega, síðast í Kaupmannahöfn 2009 og væntanlega í Cancún í Mexíkó nú 2010 en þekktastur er fundurinn í Kyoto í Japan árið 1997 þar sem gerð var bókun um bindandi mörk einstakra aðildarríkja á losun gróðurhúsalofttegunda.

Þungmálmar í úrkomu og svifryki eru vissulega mengandi en hafa engin gróðurhúsaáhrif.

Sama gildir um þrávirk lífræn efni, þau eru skaðleg lífríkinu en hafa engin gróðurhúsaáhrif.

Umhverfisráðuneytið birtir aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum en Umhverfisstofnun safnar gögnum um útstreymi á Íslandi.

Á Stórhöfða fer fram merk söfnun loftsýna sem efnagreind eru m.t.t. gróðurhúsalofttegunda á vegum bandarísku loftrannsóknastofnunarinnar NOAA.

Fleiri greinar

Lesa má fleiri greinar, sem skrifaðar hafa verið í tilefni af 90 ára afmæli Veðurstofunnar.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica