Uppfært 17. janúar kl. 13:50
Frá því í gær hefur órói sem mælist á jarðskjálftastöðinni á Grímsfjalli farið hægt lækkandi. Fyrripart þriðjudagsins 15. janúar hækkaði óróinn nokkuð skarpt og náði hámarki aðfaranótt 16. janúar. Þessi hækkun í óróa tengist jökulhlaupinu sem nú stendur yfir og endurspeglar líklega aukningu í jarðhitavirkni vegna þrýstiléttis eftir að töluvert rúmmál vatns hefur farið úr Grímsvötnum.
Lesa meiraUppfært 17. janúar kl: 11:20
Jarðskjálftavirkni heldur áfram að aukast við Grjótárvatn. Það sem af er janúar mánuði hafa tæplega 100 skjálftar yfir M1,0 að stærð mælst. Það er sambærilegt við fjölda skjálfta allan desember 2024 sem var mesti fjöldi skjálfta sem hefur mælst í einum mánuði á svæðinu. Í gærmorgun, 16. janúar, mældist skjálfti af stærð M3,2. Engar tilkynningar hafa borist til Veðurstofunnar um að skjálftinn hafi fundist í byggð en þó gætu íbúar á nærliggjandi svæðum hafa orðið hans varir. Þetta var stærsti skjálfti sem hefur mælst á svæðinu síðan virkni fór að aukast þarna í ágúst 2024, en þann 18. desember 2024 mældist skjálfti af stærð M3,1.
Lesa meiraUppfært 14. janúar kl. 16:30
Eftir kl. 9 í morgun dró verulega úr ákafa jarðskjálftahrinunnar í Bárðarbungu og hafa fáir jarðskjálftar mælst síðan þá. Töluverður ákafi var í skjálftahrinunni. Þrátt fyrir minni virkni mælast enn skjálftar, og náið verður fylgst með áframhaldandi þróun.
Jarðskjálftahrinan hófst rétt upp úr klukkan 6 í morgun og náði hámarki klukkan 8:05 þegar stærsti skjálftinn, að stærð M5,1 mældist. Að auki hafa 17 skjálftar yfir M3 að stærð verið skráðir, þar af tveir um eða yfir M4 að stærð.
Lesa meiraAflögunargögn sýna að landris og kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram. Ef kvikusöfnun heldur áfram á svipuðum hraða munu 12 milljón rúmmetrar af kviku hafa safnast undir Svartsengi í lok janúar eða byrjun febrúar. Þá er talið, skv. líkanreikningum, að líkurnar á kvikuhlaupi og eldgosi fari að aukast. Líkönin byggja á áætluðu kvikuinnflæði á hverjum tíma en litlar breytingar á því innflæði geta haft áhrif á matið á mögulegum tímasetningum næsta eldgoss.
Eins og síðustu vikur hefur verið lítil jarðskjálftavirkni í
kringum Svartsengi.
Árið 2024 er hlýjasta ár síðan mælingar hófust og fyrsta
árið þar sem meðalhiti er 1.5 °C hærri en hann var fyrir iðnbyltingu.
Losun gróðurhúsalofttegunda er megin orsök mikils loft-
og sjávarhita, en aðrir þættir, s.s. El Nino veðurfarsveiflan lagði einnig til
óvenjumikils hita á síðasta ári.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu veðurfarsþjónustu Kópernikus (C3S) sem er stofnun á vegum Evrópusambandsins en er rekin af Reiknisetri
evrópskra veðurstofa (ECMWF). Vísindamenn á vegum stofnunarinnar hafa vaktað
veðurfarstengdar breytingar á árinu, m.a. óvenjulega mikla hita, sem birtust
m.a. í dægurhitametum, mánaðar- og ársmetum.