Aflögunarmælingar sýna áframhaldandi landris og kvikusöfnun undir Svartsengi. Atburðarrásin heldur því áfram á svipaðan hátt og fyrir síðustu gos. Líkanreikningar sýna að magn kviku sem safnast hefur undir Svartsengi nálgast það magn sem kom upp í síðasta eldgosi.
Út frá greiningu fyrri atburða hafa vísindamenn metið sem svo að þegar jafn mikið magn af kviku hefur safnast undir Svartsengi og kom upp í síðasta eldgosi, aukast líkurnar á nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi.
Lesa meiraÁrið 2024 var óvenjukalt ef miðað er við hitafar þessarar aldar. Á landsvísu var hitinn 0,8 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020, og sá lægsti síðan 1998. Að tiltölu var kaldast inn til landsins á Norðurlandi, en hlýrra við suðurströndina. Sumarið var blautt á landinu öllu, en aðrir mánuðir ársins voru tiltölulega þurrir. Árið í heild var þurrara en í meðallagi á austan-, sunnan- og suðvestanverðu landinu, en blautara en í meðallagi á Norður- og Vesturlandi, þar sem vætutíð sumarsins var einna mest. Loftþrýstingur var óvenjulega lágur frá júní og út ágúst og einkenndist sumarið af lægðagangi og óhagstæðri tíð. Á öðrum árstímum var tiltölulega hægviðrasamt og loftþrýstingur og vindhraði voru í kringum meðallag þegar litið er á árið í heild.
Lesa meiraUppfært 20. janúar kl. 14:50
Órói sem mældist á jarðskjálftamælinum á Grímsfjalli og vatnshæð í Gígjukvísl hafa aftur náð svipuðum gildum og voru fyrir hlaup. Þar með er Grímsvatnahlaupinu, sem hófst fyrir um það bil 10 dögum, lokið. Skjálftavirkni í Grímsvötnum jókst ekki á meðan hlaupinu stóð en nokkrir skjálftar undir M2 mældust í síðustu viku. Þrýstiléttir vegna jökulhlaupsins hafði ekki í för með sér aukna virkni í Grímsvötnum meðan á hlaupinu stóð. Þess vegna hefur fluglitakóði fyrir Grímsvötn verið lækkaður aftur í grænan, eftir að hafa tímabundið verið hækkaður í gulan þegar hlaupið náði hámarki. Þótt jökulhlaupinu sé lokið heldur Veðurstofa Íslands áfram að fylgjast náið með virkni á svæðinu.
Lesa meiraUppfært 17. janúar kl: 11:20
Jarðskjálftavirkni heldur áfram að aukast við Grjótárvatn. Það sem af er janúar mánuði hafa tæplega 100 skjálftar yfir M1,0 að stærð mælst. Það er sambærilegt við fjölda skjálfta allan desember 2024 sem var mesti fjöldi skjálfta sem hefur mælst í einum mánuði á svæðinu. Í gærmorgun, 16. janúar, mældist skjálfti af stærð M3,2. Engar tilkynningar hafa borist til Veðurstofunnar um að skjálftinn hafi fundist í byggð en þó gætu íbúar á nærliggjandi svæðum hafa orðið hans varir. Þetta var stærsti skjálfti sem hefur mælst á svæðinu síðan virkni fór að aukast þarna í ágúst 2024, en þann 18. desember 2024 mældist skjálfti af stærð M3,1.
Lesa meira