Ráðstefnur og fundir

Veðurstofa Íslands - rannsóknastofnunin

Opinn ársfundur Veðurstofu Íslands 2013

Ársfundur Veðurstofu Íslands var haldinn á Bústaðavegi 7 að morgni 4. apríl undir yfirskriftinni Veðurstofa Íslands - rannsóknastofnunin. Fundinn sóttu meðal annars fjölmargir gestir.

Dagskráin hófst með ávarpi umhverfis- og auðlindaráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, sem reifaði samvinnu ráðuneytis og nýrrar Veðurstofu á nýliðnum árum og góðan árangur þeirrar samvinnu.

Því næst lýsti Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofunnar, því hvað starfsemin hefur eflst undanfarin ár ræddi mikilvægi þess að stofnunin sé brú á milli rannsókna og hagnýtingar. Síðan voru flutt þrjú erindi um hluta af þeim fjölmörgu rannsóknum sem Veðurstofan ýmist leiðir eða tekur þátt í.

Rannsóknainnviðir Veðurstofu Íslands – efling innviða í jarðvísindum

Kristín S. Vogfjörð rannsóknastjóri kynnti uppbyggingu rannsóknainnviða Veðurstofunnar. Sú uppbygging stendur á grunni eftirlitskerfa stofnunarinnar og byggist á fjárfestingu innlendra og erlendra rannsóknasjóða og hagsmunaaðila í mælitækjum og gagnaþjónustu. Markmiðið er meðal annars Evrópunet rannsóknainnviða í jarðvísindum.

Snjór, snjóflóðahætta og samgöngur á norðurslóðum

Harpa Grímsdóttir, útibússtjóri Veðurstofunnar á Ísafirði, kynnti markmið verkefnisins SNAPS sem er samnorrænt verkefni um samgöngur á norðurslóðum og þau vandamál sem skapast vegna snævar. Vegirnir sem unnið er með á Íslandi eru Súðavíkurhlíð vegna snjóflóðahættu og Steingrímsfjarðarheiði vegna skafrennings. Helstu afurðir verkefnisins fram að þessu voru sýndar á myndskeiði.

ICEWIND - Rannsóknir á vindauðlindinni

Guðrún Nína Petersen, sérfræðingur í veðurfræðirannsóknum, kynnti samnorrænt rannsóknarverkefni þar sem þekkingu á sviði vindorku á köldum svæðum er miðlað og kannaðir þeir þættir sem hafa takmarkandi áhrif á vindorkunýtingu á Norðurlöndunum. Þó að vindur hafi verið nýttur frá rafvæðingu til að knýja litlar vindrafstöðvar þá hefur vindorka í raun verið lítið nýtt til raforkuframleiðslu á Íslandi.


Tilkynningin


Á þessari síðu er að finna ýmsa viðburði sem tengjast viðfangsefnum Veðurstofunnar.


Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica