Hættumatskort
Gildir frá: 18. Mars 2025. Gildir til 25. mars 2025 kl. 15:00, að öllu óbreyttu
Kortið sýnir mat á hættu sem er til staðar og hættu sem gæti skapast með litlum fyrirvara. Eingöngu er lagt mat á hættu innan þessara svæða, en hætta getur leynst utan þeirra.
Litur svæða endurspeglar heildarhættu innan þeirra. Sú hætta sem metin er hærri en önnur innan svæða, er feitletruð í listanum á kortinu. Hægt er að lesa um ferli og aðferðafræði hættumats hér.
Smelltu á myndina til að sjá hana stærri og til að hlaða henni niður í fullum gæðum.
Við hverju má búast í næsta eldgosi?
Líklegast er að kvika komi fyrst upp milli Sundhnúks og Stóra-Skógfells, líkt og í sex af síðustu sjö eldgosum frá árslokum 2023. Gossprungan gæti síðan breiðst út í norðaustur og/eða suðvestur átt yfir nokkra kílómetra. Slík eldgos gætu orðið með mjög litlum eða engum fyrirvara.
Hins vegar er ekkert í mæligögnum sem útilokar að eldgos geti átt sér stað nærri eða sunnan við Hagafell, líkt og var í tilfelli gossins í janúar 2024. Viðvörunartími fyrir eldgos sem hefst við Hagafell væri lengri, um það bil 1 til 5 klukkustundir. Lengri viðvörunartími fer eftir því hversu langt suður kvikan brýst áður en hún nær yfirborði. Um það bil 4,5 klukkustundir liðu frá fyrstu merkjum þann 14. janúar þar til gosið hófst. Aukning á jarðskjálftavirkni er líkleg ef kvikan fer þessa leið.
Helstu hættur í tilfelli eldgoss:
- Gossprungu opnun: Opnun gossprungu gæti verið mjög hraðvirkt ferli þar sem sprungan gæti náð nokkrum kílómetrum á innan við klukkustund. Miðað við fyrri atburði gæti áframhaldandi útbreiðsla gossprungna staðið yfir í 40 mínútur upp í 7 klukkustundir og náð lengd frá 1,5 upp í 6 km.
- Hraunflæði: Hraun gæti náð að Grindavíkurvegi eða Svartsengi innan 1,5 klst.
- Gasmengun: Sterkur upphafsfasi í óhagstæðri vindátt getur valdið hættu vegna gasmengunar í allt að 1 km radíus.
- Sprengivirkni: Getur myndast ef hraun fer yfir tjarnir eða kemst í snertingu við grunnvatn.
Ef eldgos verður nærri og/eða sunnan við Hagafell, myndu sömu hættur og taldar eru upp hér að ofan eiga við, en viðbótarhættur fela í sér:
- Hraunflæði: Hraun gæti náð að Nesvegi og Suðurstrandavegi innan 1,5 klukkustunda og mögulega lokað öllum flóttaleiðum frá Grindavík á um það bil 6 klukkustundum.
- Hraun til sjávar: Hraun gæti náð til sjávar austan Grindavíkur á 1,5 til 3 klukkustundum. Það gæti valdið staðbundinni hættu vegna snöggrar kælingar á hrauni. Í um 200 m radíus frá þeim stað þar sem hraun kæmist í snertingu við sjó, gætu myndast mjög hættulegar aðstæður.
- Sprunguhreyfingar: Kvikugangur suður fyrir Hagafell gæti valdið hreyfingum í Grindavík og mögulega haft áhrif á sprungufyllingar.
Kortið sýnir staðsetningu á fyrstu gosopnun (stjarna) og lengd gossprungu í þeim sjö eldgosum sem hafa orðið á Sundhnúksgígaröðinni frá desember 2023.