Hekla
Hekla

Hekla

Hekla er staðsett á eystra gosbeltinu og rís allt að 1490 metra yfir sjávarmáli með um 60 km langan sprungusveim. Eldstöðin hefur verið mjög virk á nútíma (e. Holocene), en síðast gaus úr Heklu árið 2000. Vitað er um 100 eldgos í eldstöðinni í 9000 ár þar sem flæðigos og sprengigos eru áberandi. Hekla hefur gosið 23 sinnum á sögulegum tíma og er þriðja virkasta eldstöðvakerfi landsins.

Virkni Heklu hefur verið breytileg í tímans rás. Fyrir 9-7 þúsund árum gaus aðallega basískum hraungosum; tíminn frá 7-3 þúsund árum einkenndist af fáum stórum súrum sprengigosum (gasstyrkur súrrar kviku er hár sem veldur meiri sprengivirkni og gjóskumyndun); en síðustu 3 þúsund ár hafa blandgos (hraun og gjóska) verið ríkjandi.

Efnasamsetning gosefna í Heklugosum breytist er líður á gos, þ.e. gosefni sem koma upp í byrjun goss hafa ekki sömu samsetningu og efni sem upp koma í lokin. Hve súr upphafsfasinn er virðist fara eftir því hve langt er á milli gosa. Þetta veldur því að gjóskulög frá Heklu eru oft tvílit, súra efnið sem kemur fyrst upp er ljóst og myndar ljósan botn og efnið sem kemur upp í lok goss er dekkra og myndar dökkan topp. 

Gjóskulög úr Heklu eru auðþekkjanleg í jarðvegs- og setstafla og notuð sem leiðarlög m.a. við áætlun aldurs jarðmyndana.

Frekari upplýsingar um eldstöðvarkerfið Heklu má finna í vefsjá íslenskra eldfjalla.Jarðskjálftavirkni

GPS


Yfirlit yfir GPS kerfið má finna hér.

Athugið að upplýsingar sem Veðurstofan birtir á vefjum sínum í rauntíma eru óyfirfarnar. Túlkun og úrvinnsla slíkra gagna er á eigin ábyrgð. Sjá einnig skilmála Veðurstofunnar um notkun gagna.


Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica