Íslensk eldfjöll

Gos í Grímsvötnum

Fylgst með stöðu mála

30. maí 2011 - 15:00

Sameiginleg stöðuskýrsla Jarðvísindastofnunar og Veðurstofunnar (pdf 20 Kb) var gefin út kl. 14:00.

Á laugardagsmorgun klukkan 6:30 dró verulega úr óróa á Grímsfjalli og var hann með öllu horfinn klukkan 7. Frá því á fimmtudag hafði óróinn verið slitróttur. Í dag, mánudag 30. maí, var það staðfest af leiðangursmönnum í vorferð Jöklarannsóknarfélags Íslands að gosi í Grímsvötnum væri lokið.

Goslok eru því sett klukkan 7 að morgni laugardagsins 28. maí 2011.

26. maí 2011 - 17:30

Sameiginleg stöðuskýrsla Jarðvísindastofnunar og Veðurstofunnar var gefin út kl. 16:00 (pdf 35 Kb). Þetta er síðasta stöðukýrsla í bili nema ástæða þyki til.

Gosmökkur hefur ekki mælst á ratsjá síðan í fyrrinótt en flugmenn sáu hvítan gufustrók í rúmlega 2 km hæð kl. 13:47 í dag. Ekkert gjóskufall er nema í nágrenni eldstöðvarinnar; og lítið öskufjúk vegna úrkomu og lítils vinds. Mjög lítill ís virðist hafa bráðnað í gosinu svo Grímsvatnahlaup er ekki yfirvofandi.

Greinileg sprengivirkni sást inn undir íshömrunum sunnan stóra ketilsins/gjárinnar þar sem aðal virknin hefur verið í gosinu. Litlar breytingar hafa orðið síðan í gær. Kvikusprengingarnar hafa nær eingöngu áhrif á nágrenni eldstöðvarinnar.

26. maí 2011 - 14:30

Hópur manna gekk í átt að gosstöðvunum í gær. Geysimikil aska var vestan og sunnan Grímsvatna. Nokkrar mælingar á þykkt öskunnar þar sem jökullinn var alhulinn ösku sýndu 10 til 130 cm. Ljósmyndina tók Vilhjálmur Kjartansson, starfsmaður Veðurstofunnar, 25. maí 2011:öskuþaktar snjóhengjur

25. maí 2011 - 17:55

Sameiginleg stöðuskýrsla Jarðvísindastofnunar og Veðurstofunnar var gefin út kl. 16:00.

Klukkan tvö í nótt fór gosmökkurinn hæst í 12 km hæð en eftir kl. 02:20 hefur hann ekki sést á radar nema þegar gufustrókur náði 5 km hæð kl. 03:30. Sjónarvottar hafa greint frá litlum gufustrókum í dag.

Víða er aska sjáanleg úr flugi í skýjalögum í 5-7 km hæð vestur af gosstöðvunum og einnig sést öskumistur undir 3 km hæð suðvestur af eldstöðinni. Samkvæmt gervitunglamyndum var mikið öskumistur í lofti um landið austanvert og um hádegisbil lágu mörkin frá Ölfusárósum í suðri að Skaga í norðri. Gjóskufok var í suðurátt. Eftir hádegi í dag fór að sjást til gosstöðvanna við Grímsvötn en gosmökkurinn var afar lítill.

Í gærkvöldi var enn nokkur sprengivirkni á gosstöðvunum (sjá myndagrein). Virknin er bundin við þrjá til fjóra gíga. Gufumökkur rís upp frá gígunum sem er 200-300 m hár að jafnaði en nær nokkurra kílómetra hæð þegar sprengingar verða. Engin samfelldur mökkur liggur frá gosstöðvunum þar sem sprengivirknin nær ekki að viðhalda honum.

Samkvæmt eftirlitsflugi í gærkvöldi var gosið einangrað við tvö lítil gosop umlukin af litlum gjallkraga. Mælingar og athuganir sýna verulega minnkun á eldgosinu. Öskufall er núna einskorðað við nágrenni eldstöðvarinnar. Þessa mynd tók Árni Sigurðsson í flugi með Örnum í gærkvöldi.gosmökkur

25. maí 2011 - 10:15

Um kl. 21 í gærkvöldi fór gosmökkurinn í 7 km og um kl. 2 í nótt fór hæð hans í 12 km en datt síðan niður. Eldinga varð vart í bæði skiptin. Um kl. 4 sást um 5 km hár gufustrókur í eldstöðinni en eftir það hafa gufubólstrar verið í 100-300 m hæð. London VAAC (Volcanic Ash Advisory Centre) hefur verið tilkynnt að gosmökkur greinist ekki og að hans sé ekki vænst. Gosórói datt niður eftir kl. 9 í gærkvöldi og verulega eftir kl. 2 í nótt, en enn má sjá óróa á mæli á Grímsfjalli og í nágrenni við eldstöðina. Engir skjálftar eru í eldstöðinni.

24. maí 2011 - 17:40

Gosmökkurinn hefur að mestu verið undir 5 km hæð, en ekki hefur sést til hans vegna veðurs. Ský yfir Vatnajökli hafa verið í 5-7 km hæð og mökkurinn ekki náð upp fyrir skýjabakkann. Gosmökkurinn fór í 8 km kl. 14 en lækkaði fljótt aftur. Mökkinn rekur undan norðanvindinum sem er hvass á svæðinu. Samkvæmt viðtölum við veðurathugunarfólk, liggur dökkur og vel afmarkaður öskumökkur milli Lómagnúps og Mýrdalsjökuls (að Hjörleifshöfða). Mökkurinn er ekki mjög þykkur og er fjúkandi aska í bland.
Gosórói á jarðskjálftamælinum hefur verið nokkuð stöðugur og engir jarðskjálftar hafa mælst í eldstöðinni.  Sameiginleg stöðuskýrsla Jarðvísindastofnunar og Veðurstofunnar kl. 17.

24. maí 2011 - 12:20

Dregið hefur úr gosóróa síðasta sólarhringinn. Engir stórir skjálftar hafa mælst á svæðinu síðan í gosbyrjun. GPS landmælingatæki á Grímsfjalli hafði í gær sigið um 25 cm síðan gosið hófst en það er a.m.k. 60% meira heildarsig en í síðustu tveimur gosum í Grímsvötnum (1998 og 2004).

línurit

Myndin hér að ofan sýnir gosóróa á þremur tíðniböndum í Grímsfjalli 21.-24. maí 2011.

Veðurstofan er með færanlega veðursjá, staðsetta skammt frá Kirkjubæjarklaustri. Á mynd frá kl. 9:40 24 maí má greina gosmökkinn. Hann er þó ekki kröftugur og nær ekki 5 km hæð. Veðurstofan notar einnig LiDAR tæki til mælinga á gosmekkinum, sjá nýlega frétt.

23. maí 2011 - kl.18:45

Sameiginleg stöðuskýrsla Jarðvísindastofnunar og Veðurstofunnar var gefin út kl. 17:00.

Hæðin á mekkinum hefur verið í kring um 5 til 9 kílómetra síðustu tímana en hafa ber í huga að mjög hvöss norðanátt er á staðnum sem haft getur áhrif á hæðina. Meginmökkurinn fer til suðurs. Í 8 km og hærra er austanátt og fer þá sá hluti mökksins í vestur.

Mikið öskufall var frá Vík í Mýrdal og austur fyrir Öræfajökull. Mest öskufall hefur verið í nágrenni Kirkjubæjarklausturs. Öskuryks hefur orðið vart víða nema á norðvestanverðu landinu. Dregið hefur úr gosinu frá því í gær. Ekkert hraunrennsli var úr gígnum í morgun.

23. maí 2011 - kl. 16:45

Nýlega fékk Veðurstofan að láni Lidar frá National Centre for Atmospheric Science (NCAS) í Bretlandi. Lidar er mælitæki sem byggist á því að skjóta leysigeisla upp í loftið og mæla endurvarp hans. Tækið hafði verið sett upp undir Eyjafjöllum til að mæla fokösku en var flutt í gær til Keflavíkurflugvallar til að fylgjast með ösku yfir vellinum. Um kl. 20 í gærkvöldi fór tækið að sýna vaxandi öskumagn í lofti og hélst það fram eftir nóttu.

Veðurstofan á veðursjá sem staðsett er á Miðnesheiði, nærri Keflavíkurflugvelli. Aðalhlutverk veðursjárinnar er að fylgjast með úrkomu, en hún mælir endurkast frá vatnsdropum í lofthjúpnum. Það hefur sýnt sig að veðursjáin nýtist einnig ágætlega til að fylgjast með gosmekki en þá sér hún endurkast ýmissa gosagna í rökum mekkinum.

Í Eyjafjallajökulsgosinu kom í ljós að Veðursjáin var notadrjúgt tæki, en fjarlægðin til gosstöðvanna (sem var 160 km) dró nokkuð úr gæðum gagnanna. Vegna þessa var ákveðið að festa kaup í færanlegri X-band veðursjá og fá aðra að láni frá ítölsku almannavörnum meðan verið er að ganga frá kaupunum. Færanlega veðursjáin er nú staðsett nærri Kirkjubæjarklaustri eða í um 80km fjarlægð frá gosstöðvunum í Grímsvötnum. Starfsmenn VÍ fylgjast því þróun eldgossins með tveimur veðursjám.

23. maí 2011 - 14:45

Gosórói var hviðóttur s.l. nótt og er enn. Lengstu hviðurnar hafa staðið í u.þ.b. 40 mínútur. Jarðskjálftavirkni hefur verið lítil. Gosmökkur hefur verið í 8-10 km hæð það sem af er degi. GPS landmælingatæki sýna hreyfingu sem bendir til þess að gangi á kviku í kvikuhólfinu undir Grímsfjalli.

Austan og norðaustanáttir ríkja yfir landinu í dag og aska hefur borist til suðvesturs og suðurs í lægri lögum. Víða má búast við öskufalli, þó ef til vill síst á norðvesturhorni landsins. Vindur verður norðanstæðari þegar líður á daginn, fyrst í lægri lögum, en í efri lögum í kvöld og nótt. Kort sem sýnir dreifingu gosösku er í vinnslu og verður birt seinna í dag.

22. maí 2011

Gosið er mun öflugra en það sem var í Grímsvötnum 2004 og nokkuð öflugra en gosið í Eyjafjallajökli. Í dag hefur gosmökkurinn verið í um 10 km og svo aftur í 11 km. Ný færanleg veðursjá Veðurstofunnar sem flutt var í nágrenni Vatnajökuls sýnir þessa þróun. Staðfest er að gosið í Grímsvötnum er í sjálfri öskjunni nærri þeim stað sem gaus 2004. Síðast hljóp úr Grímsvötnum 31. október 2010, lítið vatn hefur safnast þar saman og þunnur ís er á öskjunni. Þegar gaus í Grímsvötnum 1998 og 2004 urðu jökulhlaup nokkru eftir að gos hófst. Ekki er talið að samsvarandi aðstæður séu uppi nú og því er ekki búist við jökulhlaupi.

Sameiginleg stöðuskýrsla Veðurstofu og Jarðvísindastofnunar var gefin út 22.05.2011 kl. 17. Heildarmat: Lítillega hefur dregið úr gosinu frá því það var í hámarki síðastliðna nótt þegar kvikuflæði kann að hafa náð yfir 10 þúsund tonnum á sekúndu. Kvikustreymi síðdegis er talið af stærðargráðunni 2-5 þúsund tonn á sekúndu. Ekkert hraunrennsli var úr gígnum í morgun.

21. maí 2011

Um klukkan 17:30 í dag tók að mælast aukinn órói með upptök í eða nálægt Grímsvötnum og gos er nú hafið. Úr flugvél sem var á leið frá Akureyri til Reykjavíkur og í 18 - 20.000 feta hæð sást mökkur en hann sést nú allt frá Egilsstöðum og til Selfoss.rticle



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica