Íslensk eldfjöll
Jarðskjálftalínurit
Mynd 1. Jarðskjálftalínurit frá stöðinni í Krísuvík 6. nóvember 2006.

Hvað er jarðskjálfti?

Jarðskjálftar verða þegar jarðskorpan, þ. e. hin brotgjarna skel jarðarkringlunnar, brotnar eða hrekkur til á gömlum brotflötum. Við höggið sem þá myndast verða til jarðskjálftabylgjur sem breiðast út frá brotfletinum og ferðast ýmist í gegnum hnöttinn eða eftir yfirborðinu.

Dæmi um fyrrnefndu bylgjurnar eru P- og S-bylgjur en dæmi um yfirborðsbylgjur eru Love- og Rayleigh-bylgjur. Þegar við finnum eða mælum jarðskjálfta er það vegna þessara jarðskjálftabylgna. Mismunandi bylgjur ferðast með mismunandi hraða og því er hægt að reikna út fjarlægðina frá skjálftamiðju að mælistað og staðsetja skjálftann.

Orkan er líka mismikil í mismunandi bylgjugerð. Þannig finnum við meira fyrir S-bylgjum og yfirborðsbylgjum en P-bylgjum. Stundum heyrum við til dæmis fólk segja: „Ég fann borðið titra áður en skjálftinn reið yfir.“ Titringurinn er þá tilkominn vegna P-bylgjunnar, sem fer hraðast yfir en er orkuminnst, en „skjálftinn ríður yfir” þegar S- og yfirborðsbylgjur ná fram til athugunarstaðar.

Ferlar jarðskjálftabylgna niður í jörðinni og á yfirborði jarðar

Mynd 2. Ferlar jarðskjálftabylgna niðri í jörðinni og á yfirborði jarðar. Hreyfing frá vinstri (örvar): A) P-bylgjur, hraðar langbylgjur - þynning og þétting, B) S-bylgjur, hraðar titrings- eða þverbylgjur, C) Love-yfirborðsbylgjur sem eru þverbylgjur og D) Rayleigh - yfirborðsbylgjur sem líkjast venjulegri ölduhreyfingu.

Heimild. Þorleifur Einarsson, 1991. Myndun og mótun lands. Mál og menning, Reykjavík.

Nánar má lesa um hvað veldur jarðskjálftum í annarri fróðleiksgrein.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica