Snjóflóðasetrið á Ísafirði
Almennar upplýsingar
Snjóflóðasetur Veðurstofu Íslands er á Suðurgötu 12, 400 Ísafirði. Síminn er 450 3000.
Árlegur samráðsfundur snjóathugunarmanna og snjóflóðavaktar á Veðurstofunni í Reykjavík er mikilvægur liður í starfseminni.
Á vegum Veðurstofunnar og sveitarfélaga eru starfandi tuttugu snjóathugunarmenn víða um land og við upphaf snjóflóðavaktar, ár hvert, hittast þeir ásamt öðru ofanflóðastarfsfólki Veðurstofunnar á fundi þar sem rætt er um mál sem tengjast vöktun á snjóflóðum og skriðuföllum. Þar fá athugunarmenn einnig þjálfun og fræðslu.
Styrkur úr rannsóknasjóði Vegagerðarinnar 2012
Snjóflóðasetur Veðurstofu Íslands á Ísafirði hefur fengið styrk úr rannsóknasjóði Vegagerðarinnar vegna tilraunaverkefnis með snjóflóðasprengingar. Snjóflóðasetrið hefur frá árinu 2006 staðið að slíku tilraunaverkefni, eins og lesa má um í eftirtöldum fróðleiksgreinum:
- Um snjóflóðasprengingar
- Fleiri snjóflóðasprengingar
- Hraði snjóflóðs mældur
- Hraði tveggja snjóflóða mældur
Árið 2012 er ráðgert að halda áfram með tilraunasprengingar víðs vegar um landið í samvinnu við óformlegan hóp hagsmunaaðila sem stofnaður var í fyrra og samanstendur af fulltrúum frá Veðurstofu Íslands, skíðasvæðum, sveitarfélögum og Vegagerðinni. Jafnframt er stefnt að því að útbúa yfirlit yfir svæði þar sem snjóflóðasprengingar gætu komið að gagni í vegakerfinu. Kanna á þann möguleika að flytja inn sérhæfðan búnað til snjóflóðasprenginga.
Umfjöllun á ljósvakamiðlum
Nefna má, að í sjónvarpsþættinum Landanum á RÚV var fjallað um Snjóflóðasetur Veðurstofunnar sunnudagskvöldið 29. janúar 2012. Þátturinn var aðgengilegur í vefvarpi ruv.is um sinn. Umfjöllunin um snjóflóðasetrið heyrist á mínútum 6:50-12:45 í Landanum þetta kvöld.
Starf snjóathugunarmanna
Um tuttugu snjóathugunarmenn eru starfandi hjá Veðurstofunni, víðsvegar um landið, en einkum eru þeir í þéttbýli þar sem snjóflóðahætta er talin umtalsverð. Hlutverk þeirra er m.a. eftirfarandi:
- Að skrá öll snjóflóð sem falla í nágrenninu.
- Mæla upp öll stærri snjóflóð og öll snjóflóð sem ógna byggð, mannvirkjum eða fólki.
- Að fylgjast með snjódýpt í fjöllum. Víða eru snjódýptarstikur sem lesið er af með kíki. Þær eru með 30 cm breiðum röndum, ljósum og bláum á víxl. Því er hægt að reikna snjódýptina með því að telja bilin sem standa upp úr.
- Að fylgjast með snjóalögum, þ.e. stöðugleika snævar. Teknar eru snjógryfjur í fjallahæð og stöðugleiki snævarins metinn með ýmsum aðferðum.
- Að fylgjast með veðri.
- Að fylgjast með mælingum sjálfvirkra veðurathugunarstöðva og snjódýptarmæla í sínu nágrenni.
- Að annast reglubundinn rekstur sjálfvirkra úrkomumæla.
- Að taka þátt í viðhaldi snjóstika og mælitækja í nágrenni sínu.
Snjóathugunarmenn eru ráðgjafar snjóflóðavaktarinnar hvað varðar snjóflóðahættu og mögulegar rýmingar í þeirra heimabyggð. Einnig eru snjóathugunarmenn tengiliðir VÍ á sínu svæði varðandi aurskriðuhættu.
Starf snjóathugunarmanna hefur þróast mikið á síðustu 25 árum og er í stöðugri þróun. Áður fyrr handskrifuðu menn eða vélrituðu skýrslur um snjóflóð, og teiknuðu útlínur þeirra inn á ljósrit af kortum eða loftmyndum, en síðan var farið að fylla skýrslurnar út í tölvu. Nú notast menn við vefskráningarform fyrir snjóflóð. Notkun GPS tækja við mælingar á útlínum flóða o.fl. hefur aukist mikið. Mikilvægur hluti starfsins nú til dags er að fylgjast með veður- og snjódýptargögnum úr sjálfvirkum mælum og því er veraldarvefurinn orðið mjög mikilvægt tæki í starfi snjóathugunarmanna. Smám saman hefur verið horft meira á lagskiptingu snævar en áður var gert. Því eru gerðar meiri kröfur um að snjóathugunarmenn taki reglulega snjógryfjur og fylgist þannig með stöðugleika snævar.
Starf snjóathugunarmanns getur verið mjög krefjandi. Oft vinna menn úti við erfiðar vetraraðstæður og þurfa að taka afstöðu til snjóflóðahættu með litlar upplýsingar að leiðarljósi en þá er reynsla þeirra gulls í gildi. Ferðalögum um fjöll að vetrarlagi fylgir alltaf einhver áhætta en snjóathugunarmenn eru þjálfaðir í að meta aðstæður og að bjarga fólki úr snjóflóðum. Ráðleggingar þeirra eru mikilvægt innlegg í erfiðar ákvarðanir sem snjóflóðavakt Veðurstofunnar þarf að taka. Oft þurfa snjóathugunarmenn að útskýra ákvarðanir VÍ fyrir heimamönnum. Starfið er einnig bindandi, því alltaf þarf einhver að vera á vakt í viðkomandi byggðarlagi yfir veturinn.