Frumniðurstöður rannsókna á berghlaupi í Öskju 21. júlí 2014
Jón Kristinn Helgason, Sveinn Brynjólfsson, Tómas Jóhannesson, Kristín S. Vogfjörð og Harpa Grímsdóttir; Veðurstofu Íslands. Ásta Rut Hjartardóttir, Þorsteinn Sæmundsson, Ármann Höskuldsson, Freysteinn Sigmundsson og Hannah Reynolds; Háskóla Íslands.
Að kvöldi 21. júlí 2014 féll stórt berghlaup úr Suðurbotnum í Öskju niður í Öskjuvatn. Hlaupið, sem er eitt stærsta berghlaup á sögulegum tíma á Íslandi, huldi að mestu Suðurbotnahraun og lagðist upp að Kvíslahrauni. Sjálfar eldstöðvar Suðurbotnahrauns eru þó fyrir utan berghlaupið. Hlaupið kom af stað flóðbylgju í vatninu sem skolaðist upp á bakkana í kringum vatnið og náði allt að 20-30 m hæð yfir vatnsborðinu og jafnvel hærra á stöku stað. Bylgjan gekk lengst um 400 m inn á flatlendið suðaustan við Víti. Svo heppilega vildi til að hlaupið varð síðla kvölds og enginn var nærri vatninu en annars hefði getað farið illa. Aðeins nokkrum klst. áður voru tugir ferðamanna niðri á vatnsbakkanum við Víti sem hefðu átt erfitt með að komast undan flóðbylgjunni.
Berghlaupið kom fram á jarðskjálftamælum Veðurstofunnar sem grunnur skjálftaórói og sýna gögnin að hlaupið fór af stað um kl. 23:24. Hreyfikrafturinn í skriðunni og hristingurinn sem hún olli, mynduðu jarðskjálftabylgjur sem breiddust út eftir yfirborði jarðar og ferðuðust yfir mest allt Ísland á rúmlega einni mínútu. Bylgjurnar sáust á stórum hluta jarðskjálftamælakerfis Veðurstofunnar; mjög vel á nálægum stöðvum en einungis lægstu tíðnirnar á fjarlægustu mælum.
Enginn sjónarvottur varð að hlaupinu, en björgunarsveitarmenn hjá Hálendisvakt Landsbjargar sáu hvítan mökk yfir Öskju kl. 23:27. Mökkurinn var gufubólstrar sem stigu upp við það að hlaupið afhjúpaði jarðhita sem áður var grunnt undir yfirborði jarðar á upptakasvæðinu. Einnig kann ryk, sem þyrlaðist upp við berghlaupið, að hafa komið við sögu.
Upptök berghlaupsins eru á um 800 m breiðu svæði í 350 m hæð yfir yfirborði Öskjuvatns.Líklegt er talið að um svokallaða „snörunarhreyfingu“ sé að ræða en það þýðir að skriðflötur berghlaupsins er íhvolfur. Rúmmál skriðunnar er gróflega metið 30-50 milljón m³ en það mat kann að breytast þegar frekari mælingar hafa verið gerðar, einkum á þeim hluta berghlaupsins sem er ofan í vatninu. Ef skriðflötur berghlaupsins nær undir botn vatnsins þá kann heildarrúmmál efnis sem hreyfðist að vera mun meira.
Yfirborð Öskjuvatns hækkaði um u.þ.b. 1-2 m við berghlaupið. Vatnsborðshækkunin verður mæld nákvæmlega enda gefur hún upplýsingar um rúmmál skriðunnar. Vart varð við uppstreymisbólstra í Víti eftir hlaupið og er talið líklegast að það sé vegna innstreymis vatns neðanjarðar eftir hækkunina í Öskjuvatni.
Askja samanstendur af þremur til fjórum öskjum og er Öskjuvatn í þeirri yngstu. Hún myndaðist á um þrjátíu árum eftir eldgos árið 1875. Fyrir þann tíma var Öskjuvatn ekki til og því eru öskjubarmarnir við vatnið jarðfræðilega mjög ungt svæði. Slíkar hlíðar eru óstöðugari en hlíðar í eldra landslagi sem komist hafa í ákveðið jafnvægi. Ljóst þykir af ummerkjum að berghlaup á borð við það sem féll í júlí 2014 hafa áður komið úr hlíðum Öskju þó menn hafi ekki orðið þeirra varir.
Það má því gera ráð fyrir því að fleiri berghlaup falli úr hlíðum Öskju á næstu árum, áratugum eða öldum. Af því leiðir að ákveðin hætta fylgir því að fara niður að Öskjuvatni. Sá sem er staddur við vatnið og verður var við hrun ætti að forða sér án tafar í átt frá vatninu og upp í hlíð. Það tekur flóðbylgju um 1-2 mínútur að ferðast yfir vatnið og hljóðið um 10 sek að berast þannig að fólk fær einungis skamman tíma til að forða sér ef stórt hrun verður handan vatnsins. Það þarf stórt berghlaup til að valda flóðbylgju af svipaðri stærð og í júlí 2014, en minni skriður gætu valdið minni flóðbylgju og smá hrun nánast engri, þótt því geti fylgt hávaði.
Eldri ljósmyndir af berghlaupssvæðinu gefa til kynna að hreyfing og gliðnun hafi verið byrjuð löngu áður en hlaupið féll. Hæg hreyfing virðist hafa verið í berginu sem hugsanlega hefur hert á sér sumarið 2014, en mikill snjór var í fjöllum og tiltölulega hlýtt veður áður en hlaupið féll. Leysingar gætu því hafa hert á skriðinu. Jarðskjálftagögn benda til þess að snögg hreyfing hafi átt sér stað um 40 mínútum fyrir hlaupið en kl. 23:24 hefur brotmörkum verið náð og bergið hlaupið fram.
Mikilvægt er að rannsaka berghlaupið vel með það fyrir augum að nýta niðurstöðurnar til að greina óstöðug svæði og vakta þau, bæði innan Öskju og á öðrum stöðum þar sem fólki getur stafað hætta af berghlaupum. Á næstu vikum og mánuðum verður unnið að frekari gagnaöflun og greiningu. Þá bætist við niðurstöður og þær verða nákvæmari. Hér að neðan eru ljósmyndir, kort og gröf sem sýna helstu niðurstöður mælinga sem liggja fyrir þegar tæpar tvær vikur eru liðnar frá hlaupinu (sérhver mynd er stækkanleg).
- Breidd brotsárs: 800 m
- Fallhæð: 350 m
- Úthlaupslengd ofan vatnsborðs: ~1000 m
- Rúmmál: ~30-50 millj. m³
- Tími sem hlaupið er talið hafa tekið: 20 sekúndur samkvæmt jarðskjálftamælingum
- Tími sem flóðbylgjan var að berast yfir vatnið: 1–2 mínútur
Frumniðurstöður rannsókna á berghlaupi í Öskju 21. júlí 2014 má einnig fá sem pdf-skjal (2,2 Mb).
Myndir með skýringum
Til dreifingar
Þessa grein, Frumniðurstöður rannsókna á berghlaupi í Öskju 21. júlí 2014, má einnig lesa eða sækja sem minnisblað á pdf-formi.