Skriðurnar í Kinnarfellinu vorið 2013.

Skriðuföll í Kaldakinn

Fjórar stórar jarðvegsskriður á skömmum tíma vorið 2013

Jón Kristinn Helgason 11.7.2013

Dagana 28. maí til 5. júní 2013 féllu fjórar stórar jarðvegsskriður og fleiri smærri í Kaldakinn að austanverðu, sem ollu skemmdum bæði á jarðvegi, gróðri og akvegi. Þetta er við svokallaðan norðausturveg sem liggur frá þjóðvegi 1 í átt að Húsavík.

Neðan við Ytrihnjúk í norðanverðu Kinnarfelli hafði mikill snjór safnast fyrir á svæði sem er alla jafna fremur snjólétt og undir snjónum var ófrosin jörð. Óvenjumikill snjór var til fjalla á Norðurlandi eftir snjóþungan vetur auk þess sem vorið var kalt og því tók ekki að leysa að ráði fyrr en í lok maí. Síðustu dagana í maí ringdi mikið á svæðinu og í byrjun júní tóku við hlýindi og hvassviðri og urðu miklar leysingar. Úrkoma og leysingarvatn safnaðist fyrir í hlíðinni sem hefur snemma orðið vatnssósa. Við slíkar aðstæður getur jarðvegur orðið óstöðugur og skriðuhætta skapast, eins og gerðist í þessu tilfelli.

Stóru skriðurnar fjórar ollu miklu tjóni á skógrækt og ein þeirra tók þjóðveg 85 í sundur á um 30 metra kafla. Þjóðvegurinn liggur á milli Akureyrar og Húsavíkur. Upptökin voru í hjöllum í um það bil 200-250 m h.y.s. en ofan á hjöllunum lágu stórir snjóskaflar sem leysti hratt í hlýindunum. Einnig féllu smáskriður neðar í hlíðinni. Skriðurnar sem féllu úr Kinnarfellinu að austanverðu voru allar innan friðaðs lands sem nær frá Ystafelli í suðri og til norðurs út eftir fellinu.

Útlínur skriðufallanna
Skriðurnar teiknaðar inn á loftmynd. Sumar falla yfir þjóðveg 85. Stærra kort (pdf 2,6 Mb).

Starfsmenn Veðurstofu Íslands og Náttúrufræðistofnunar Íslands á Akureyri fóru nokkrum sinnum á vettvang, mældu skriðurnar og könnuðu aðstæður. Jarðvegurinn í hlíðinni var óstöðugur og var starfsmönnum Vegagerðarinnar ráðið frá því að hefja lagfæringu á veginum þangað til aðstæður bötnuðu. Vegurinn var því lokaður í 24 daga en hægt var að keyra veginn um Fljótsheiði og Aðaldal á meðan.

Ekki eru til sögulegar heimildir um skriðuföll á þessum stað í Kinninni en vitað er að stórar skriður hafa fallið annarsstaðar í dalnum. Við nánari athugun á aðstæðum í Kinnarfelli kom í ljós að þarna höfðu áður fallið skriður en frásagnir um þær hafa ekki ratað inn í heimildir.

Þriðja og stærsta skriðan

Stærsta skriðan féll aðfaranótt þriðjudagsins 4. júní og var sú þriðja í röðinni af stóru skriðunum. Hún var 200-250 m breið og átti upptök sín sunnan við jaðarinn á fyrstu skriðunni. Skriðan tók veginn í sundur á um 30 metra kafla og skemmdi veginn á um 100 m svæði og hljóp yfir í hlíðina hinum megin í dalnum. Í ítarefni má fá nánari lýsingu á skriðunum (pdf 0,2 Mb).

Stærsta skriðan

Skriðan frá 4. júní 2013 tók veginn í sundur. Vinstra megin á myndinni má sjá ummerki eftir skriðuna sem féll 28. maí. Ljósmynd: Sveinn Brynjólfsson, Veðurstofu Íslands.


Til baka


Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica