hólkur á stöng efst á grónum varnargarði, fjallshlíð í baksýn
Efra radarmastrið á varnargarðinum undir Skollahvilft.

Hraði snjóflóðs mældur

Við varnargarðinn undir Skollahvilft á Flateyri var hraði snjóflóðs mældur með radar

Tómas Jóhannesson 8.4.2009

Snjóflóð úr Skollahvilft féll á varnargarðinn ofan Flateyrar aðfaranótt 30. mars 2009. Flóðið rann niður með endilöngum garðinum og náði niður í lónið við veginn út á eyrina (sjá kort 1). Flóðið rann um 5 m lóðrétt upp á garðinn sem er 15-20 m hár. Fyrir áratug, í febrúar 1999, féll talsvert stærra snjóflóð á sama stað og það rann um 13 m upp á garðinn.

Hraði nýja flóðsins var mældur með Doppler radar sem staðsettur er á mastri ofarlega á varnargarðinum. Hraði þess mældist nokkru meiri en búist var við fyrir flóð sem er ekki stærra en þetta. Samkvæmt framleiðanda radarsins er líklegt að hraðfara eðlisléttur snjór hafi verið fremst í þessu flóði. Slíkur snjóflóðssnjór ferðast hraðar og kemur stundum á undan hinum eiginlega þétta kjarna sem er meginhlutinn af massa stærri snjóflóða.

Snjóflóð á Flateyri 30. mars 2009
kort með hæðalínum og útlínum flóðs þvert á þær
Kort 1. Útlína snjóflóðs sem féll kl. 02:22 þann 30. mars 2009 úr Skollahvilft á Flateyri. Tölurnar innan snjóflóðstungunnar sýna mælingar á þykkt snjóflóðsins (cm).

Kort af varnargarðinum (kort 2) sýnir staðsetningu radarsins og útlínur snjóflóða 1995, 1999 og 2000 en ljósmynd (sjá efst) sýnir efra radarmastrið. Tveir radarar eru á varnargarðinum en einungis sá efri var virkur þann 30. mars þegar flóðið féll. Radarinn mælir hraða snjóflóðsins með endurkasti rafsegulbylgna með svipuðum hætti og radar lögreglu mælir hraða bifreiða.

Snjóflóð á Flateyri og staðsetning radar-mastra
kort af fjallshlíð með útlínum snjóflóða og staðsetningu tveggja radara (stjörnur)
Kort 2. Staðsetning radarmastra (stjörnur) á varnargarði undir Skollahvilft á Flateyri. Einnig eru sýndar útlínur mannskaðaflóðsins 26. október 1995 og tveggja snjóflóða sem varnargarðarnir bægðu frá byggðinni 1999 og 2000.

Skráningu er þannig háttað að mæligögn eru stöðugt skráð á 3 s fresti í um 30 s langan "glugga" sem svo er vistaður ásamt mælingum næstu einnar og hálfrar mínútu í skráningartæki þegar radarinn telur sig hafa orðið varan við flóð.

Hámarkshraði snjóflóðsins mældist milli 50 og 60 m/s, eða um 200 km/klst, þegar það kom fyrst inn í sjónsvið radarsins í um 300 m fjarlægð frá garðinum. Á meðfylgjandi myndaröð má sjá að endurkast frá snjóflóðinu mældist tuttugu og einni sekúndu eftir að mæling radarsins hófst:

línurit sem sýna hraða

Á þessu andartaki er flóðið væntanlega nýkomið út úr gilkjaftinum í um 200 m h.y.s. og hraðasti hluti þess virðist vera á 50-60 m/s. Einhver hluti flóðsins fer hægar, e.t.v. snjórinn til hliðar við miðju flóðsins. Hver mynd í myndaröðinni sýnir hversu mikill hluti af endurkasti radarbylgnanna kemur frá snjó á þeim hraða sem tilgreindur er á lárétta ásnum.

Á næstu mynd, eftir 24 s, er fremsti hluti flóðsins kominn lengra og farinn að hægja á sér en endurkast er líklega áfram frá hraðfara hluta flóðsins ofar í hlíðinni. Á þriðju mynd, eftir 27 s, er ekki lengur um að ræða endurkast á hraðabilinu 50-60 m/s og hlutfallslega stærri hluti flóðsins fer nú hægar. Stór hluti flóðsins sem endurkast gefur ferðast nú á hraða á bilinu 25 til 40 m/s en einhver hluti virðist vera á 10-20 m/s.

Á myndunum sem eftir koma sést að einhver snjór er á ferðinni á hraðanum 10-20 m/s og slíkt endurkast deyr síðan út á um hálfri mínútu. Hið eiginlega hraðfara snjóflóð virðist því ekki hafa staðið í nema 5-10 sekúndur í sjónsviði radarsins.

Eins og fyrr segir mældist hraði þessa flóðs nokkru meiri en búist var við fyrir flóð sem er ekki stærra en þetta og líklegt að hraðfara eðlisléttur snjór hafi verið fremst í þessu flóði. Slíkur snjóflóðssnjór ferðast hraðar og kemur stundum á undan hinum eiginlega þétta kjarna sem er meginhlutinn af massa stærri snjóflóða.

Hraðamælingarnar á Flateyri eru hluti af rannsóknum til þess að meta áhrif varnargarða á flæði snjóflóða. Markmiðið er að bæta hönnun slíkra garða og öðlast betri skilning á örygginu sem þeir veita. Ofanflóðasjóður og fimmta rammaáætlun Evrópuráðsins fjármögnuðu mælitækin og rannsóknirnar. Radarinn á Flateyri er sk. „continuous wave radar“ og greinir hann ekki á milli endurkasts frá mismunandi hlutum snjóflóðsins. Allmiklu þróaðra tæki sem mælir hraða á mörgum stöðum í snjóflóði samtímis hefur verið hannað í Austurríki og er kallað „pulsed Doppler radar“.

Nánari upplýsingar um þetta verkefni má fá hjá tengilið á Veðurstofu Íslands.

Til baka


Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica