staðið við stiku í fjallshlíð
Snjóathugunarmenn sinna viðhaldi snjódýptarstiku í Skollahvilft.
1 2 3 4

Störf snjóathugunarmanna

Harpa Grímsdóttir 12.10.2011

Samráðsfundir snjóathugunarmanna og snjóflóðavaktar

Á vegum Veðurstofunnar og sveitarfélaga eru starfandi 20 snjóathugunarmenn víða um land og við upphaf snjóflóðavaktar, ár hvert, hittast þeir og annað ofanflóðastarfsfólk Veðurstofunnar á samráðsfundi þar sem rætt er um mál sem tengjast vöktun á snjóflóðum og skriðuföllum. Þar fá athugunarmenn einnig þjálfun og fræðslu.

Hér að neðan er sagt frá sögu snjóathugana í stuttu máli og starfi Odds Péturssonar, snjóathugunarmanns á Ísafirði, gerð sérstök skil.

Saga snjóathugana á Íslandi

Í desember árið 1974 fórust 12 manns í snjóflóðum í Neskaupstað. Á þeim tíma hafði enginn það hlutverk að fylgjast með snjóflóðahættu og snjóflóð voru ekki skráð á skipulagðan hátt. Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi alþingismaður, skráði þau flóð sem féllu þennan vetur í Neskaupstað og fylgdist með snjóalögum og má segja að það hafi verið fyrstu skipulögðu snjóathuganirnar á Íslandi. Haustið 1975 var ráðinn snjóathugunarmaður í Neskaupstað samkvæmt tillögu snjóflóðanefndar sem skipuð hafði verið af bæjarstjórn í kjölfar flóðanna. Gunnar Ólafsson var ráðinn til starfsins, sem fólst að mestu í snjódýptarmælingum á stikum í fjallinu, og einnig sá Gunnar um veðurathuganir en þær höfðu ekki farið fram í Neskaupstað áður. Snjóeftirlitsmenn hafa verið starfandi í Neskaupstað síðan þá að tveimur árum undanskildum.


svarthvít mynd, snjór í fjöru, bátur úti fyrir, leitarmenn

Leitarmenn að störfum í fjöruborðinu og úti í sjó í snjóflóðunum í Neskaupstað 1974. Ljósmynd: Friðþjófur Helgason (Morgunblaðið). Myndin er fengin af vef Norðfirðingafélagsins.

Í kjölfar snjóflóðanna í Neskaupstað var settur á laggirnar starfshópur Rannsóknaráðs ríkisins um snjóflóð sem skilaði af sér áliti árið 1976. Í álitinu er meðal annars mælst til þess að stofnaðar verði svæðisstöðvar þar sem snjóflóðahætta er mest og þar verði fylgst með ástandi og magni snævar, hengjumyndun, veðurfari, o. s. frv. Stöðvunum átti að vera stjórnað af  Almannavarnanefndum á svæðunum í samráði við sérfræðing Veðurstofunnar.  Svæðisstöðvarnar áttu einnig að gefa Almannavarnanefndum upplýsingar um ástandið og vara við yfirvofandi hættu. Þarna var því lögð fram tillaga um reglubundið snjóeftirlit og snjóflóðavakt en ekkert varð úr þessum tillögum næstu árin frekar en öðrum góðum tillögum þessa starfshóps. Almannavarnir gengust þó fyrir námskeiðum í því hvernig bregðast skyldi við snjóflóðum, námskeiðum í björgun og fræðslu um snjóflóð og fleiru sem snertir þessar mannskæðu náttúruhamfarir.

Fyrstu lögin um varnir gegn snjóflóðum voru aftur á móti ekki sett fyrr en 1985 í kjölfar snjóflóða á Patreksfirði og í Ólafsvík. Í þeim var tekið fram að það væri hlutverk Veðurstofu Íslands (VÍ) að afla gagna um snjóflóð og snjóflóðahættu og annast úrvinnslu úr þeim. Þá skyldi stofnunin annast mælingar á snjóalögum og rannsóknir á þeim, með sérstöku tilliti til snjóflóðahættu, og gefa út viðvaranir um hana.  Í sömu lögum er mælt fyrir um að í þeim sveitarfélögum þar sem snjóflóðahætta er skuli sveitarstjórn fela sérstökum starfsmanni að fylgjast með snjóalögum. Skyldi hann starfa eftir fyrirmælum frá VÍ, sem greiddi helming launa hans. Oftast völdust í þetta bæjarstarfsmenn, en þeir voru illa tækjum búnir og þetta var allt gert í dagvinnutíma, þegar þeir áttu þess utan að vera að sinna sína fasta starfi.  Fyrsti starfsmaðurinn á VÍ sem sinnti snjóflóðamálum sérstaklega var Hafliði Helgi Jónsson, veðurfræðingur, frá árinu 1981.

Eftir snjóflóðin miklu í Súðavík og á Flateyri, árið 1995, var gerð breyting á lögum um snjóflóðavarnir og þá var lögreglustjórum falið að ráða starfsmenn til að kanna og fylgjast með landfræðilegum og veðurfarslegum aðstæðum með tilliti til hættu af snjóflóðum og/eða skriðuföllum. Þeir skyldu starfa undir stjórn viðkomandi lögreglustjóra en athuganir þeirra skyldu gerðar í samræmi við vinnureglur og önnur fyrirmæli VÍ.

snjór og spýtnabrak, björgunarmenn

Björgunarmenn að störfum í snjóflóðinu á Flateyri 1995. Ljósmynd: Oddur Pétursson.

Með endurskoðun á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum frá 1997 varð það hlutverk VÍ að sjá um eftirlitsmannakerfið, í samráði við viðkomandi sveitarfélög.  Nánar var kveðið á um það samstarf í reglugerð frá 1998.

Starf snjóathugunarmanna

Nú eru 20 snjóathugunarmenn starfandi hjá Veðurstofunni, víðsvegar um landið, en einkum eru þeir í þéttbýli þar sem snjóflóðahætta er talin umtalsverð. Hlutverk þeirra er m.a. eftirfarandi:

  • Að skrá öll snjóflóð sem falla í nágrenninu.
  • Mæla upp öll stærri snjóflóð og öll snjóflóð sem ógna byggð, mannvirkjum eða fólki.
  • Að fylgjast með snjódýpt í fjöllum. Víða eru snjódýptarstikur sem lesið er af með kíki. Þær eru með 30 cm breiðum röndum, ljósum og bláum á víxl. Því er hægt að reikna snjódýptina með því að telja bilin sem standa upp úr.
  • Að fylgjast með snjóalögum, þ.e. stöðugleika snævar. Teknar eru snjógryfjur í fjallahæð og stöðugleiki snævarins metinn með ýmsum aðferðum.
  • Að fylgjast með veðri.
  • Að fylgjast með mælingum sjálfvirkra veðurathugunarstöðva og snjódýptarmæla í sínu nágrenni.
  • Að annast reglubundinn rekstur sjálfvirkra úrkomumæla.
  • Að taka þátt í viðhaldi snjóstika og mælitækja í nágrenni sínu.

Snjóathugunarmenn eru ráðgjafar snjóflóðavaktarinnar hvað varðar snjóflóðahættu og mögulegar rýmingar í þeirra heimabyggð. Einnig eru snjóathugunarmenn tengiliðir VÍ á sínu svæði varðandi aurskriðuhættu.

Starf snjóathugunarmanna hefur þróast mikið á síðustu 25 árum og er í stöðugri þróun. Áður fyrr handskrifuðu menn eða vélrituðu skýrslur um snjóflóð, og teiknuðu útlínur þeirra inn á ljósrit af kortum eða loftmyndum, en síðan var farið að fylla skýrslurnar út í tölvu. Nú notast menn við vefskráningarform fyrir snjóflóð. Notkun GPS tækja við mælingar á útlínum flóða o.fl. hefur aukist mikið. Mikilvægur hluti starfsins nú til dags er að fylgjast með veður- og snjódýptargögnum úr sjálfvirkum mælum og því er veraldarvefurinn orðið mjög mikilvægt tæki í starfi snjóathugunarmanna. Smám saman hefur verið horft meira á lagskiptingu snævar en áður var gert. Því eru gerðar meiri kröfur um að snjóathugunarmenn taki reglulega snjógryfjur og fylgist þannig með stöðugleika snævar.

Starf snjóathugunarmanns getur verið mjög krefjandi. Oft vinna menn úti við erfiðar vetraraðstæður og þurfa að taka afstöðu til snjóflóðahættu með litlar upplýsingar að leiðarljósi en þá er reynsla þeirra gulls í gildi. Ferðalögum um fjöll að vetrarlagi fylgir alltaf einhver áhætta en snjóathugunarmenn eru þjálfaðir í að meta aðstæður og að bjarga fólki úr snjóflóðum. Ráðleggingar þeirra eru mikilvægt innlegg í erfiðar ákvarðanir sem snjóflóðavakt Veðurstofunnar þarf að taka. Oft þurfa snjóathugunarmenn að útskýra ákvarðanir VÍ fyrir heimamönnum. Starfið er einnig bindandi, því alltaf þarf einhver að vera á vakt í viðkomandi byggðarlagi yfir veturinn.

Oddur Pétursson, snjóathugunarmaður á Ísafirði

Kanada 1991
í snjógryfju
Oddur Pétursson við störf í Rogers Pass. Myndina tók kanadískur samstarfsmaður.

Reyndasti snjóathugunarmaður landsins er Oddur Pétursson á Ísafirði, sem nýlega varð áttræður. Árið 1984 tók hann til starfa hjá Tæknideild Ísafjarðar og var þá falið að skrá snjóflóð, fylgjast með snjóalögum og gera úrkomumælingar. Starfið var þá lítið mótað og reynslan af slíku snjóeftirliti ekki mikil. Þetta ár féllu snjóflóð sem skemmdu hús í Holtahverfi á Ísafirði og í desember 1983 hafði flóð úr Bakkahyrnu í Hnífsdal valdið tjóni á húsum. Oddur skráði upplýsingar um þessi flóð og fleiri sem féllu á þessum tíma.
 
Eftir að lögin um varnir gegn snjóflóðum komu árið 1985 varð starfið fastmótaðra. Fram að þeim tíma höfðu flóð, sem ekki ollu tjóni, ekki verið skráð og lítið var um rannsóknir á snjóalögum. Oddur varð strax mjög virkur snjóathugunarmaður og átti þátt í að móta verklag við snjóathuganir hér á landi. Starf sitt vann Oddur í nánu samstarfi við nýtilkomna snjóflóðadeild á Veðurstofunni og var þar oft leiðandi í vinnubrögðum og túlkun á niðurstöðum.

Að sökkva sér í viðfangsefnið
í snjógryfju
Ljósmynd: Harpa Grímsdóttir.

Árið 1991 bauðst Oddi að fara í kynnis- og þjálfunarferð til Bandaríkjanna og Kanada. Hann dvaldi þar í tvo mánuði og vann við snjóflóðaeftirlit á þremur mismunandi stöðum þar sem fjallvegir liggja um mikil snjóflóðahættusvæði. Lengst dvaldist hann í Rogers Pass í Kanada en þar fara megin samgönguæðar milli vesturs og austurs um þröngt fjallaskarð þar sem snjóflóðahættan er mikil. Þarna voru margir snjóflóðasérfræðingar við störf og gott skipulag á öllu. Sérstakur herflokkur notaði fallbyssu til að skjóta niður snjóflóð eftir þörfum og til gamans má nefna að Oddur þurfti að ganga í kanadíska herinn með tilheyrandi pappírsvinnu til að geta verið með þeim að sprengja.

Eftir þessa ferð fór Oddur að taka snjógryfjur og gera mælingar á skipulagðari hátt en áður og var frumkvöðull hvað varðar tækni og skipulag snjóathugana hér á landi. Samkvæmt Oddi þyngdist veðráttan smám saman á seinni hluta síðustu aldar fram til 1995 og stærri og stærri snjóflóð féllu í hans umdæmi, sem á þeim tíma var Ísafjörður og Hnífsdalur. Árið 1996 varð Oddur starfsmaður Veðurstofunnar og eftir það sinnti hann eftirliti og skráningum fyrir Ísafjarðarbæ (Skutulsfjörð, Önundarfjörð, Dýrafjörð, Súgandafjörð) og fyrir Súðavík. Aðstoðarmenn hafa verið á Ísafirði, Súðavík og Flateyri. Árið 2006  tók Örn Ingólfsson við af Oddi sem aðalsnjóathugunarmaður á Ísafirði en Oddur hefur verið aðstoðarmaður síðan þá.

Lokaorð

Eftir því sem lengra líður frá snjóflóðaslysunum árið 1995 er hætta á að það fenni í sporin og snjóflóðaógnin gleymist. Mildir vetur undanfarin ár ýta undir þá tilhneigingu fólks en þá er mikilvægt að muna að snjólétt tímabil hafa komið áður, t.d. um miðja síðustu öld. Einnig er vert að hafa í huga að ekki þarf snjóþunga vetur til að aftakasnjóflóð falli eins og Flateyrarflóðið árið 1995 sannar. Þá féll eitt af stærstu, þekktu snjóflóðunum hér á landi, eftir einungis nokkurra daga ofankomu í október, en veturinn sem á eftir fylgdi var ekki sérlega snjóþungur. Því er mikilvægt að halda áfram að byggja upp og þróa öflugt snjóathuganakerfi. Snjóathuganir ásamt kerfisbundinni uppbyggingu varnarvirkja mun draga verulega úr snjóflóðahættu í byggð á Íslandi þótt aldrei verði hægt að útrýma henni.

Seydisfj123 Leifur Örn Svavarsson jarðfræðingur og Emil Tómasson, snjóeftirlitsmaður á Seyðisfirði, setja upp veðurstöð í Kálfabotnum fyrir ofan Seyðisfjörð, 11. nóvember 2005. Ljósmynd: Sigvaldi Árnason.

Til baka


Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica