Greinar
brú á sandi
Heimsókn vatnamælinga NVE í ágúst 2011.

Heimsókn starfsmanna norsku vatns- og orkumálastofnunarinnar

Norges vassdrags- og energidirektorat, NVE

30.8.2011

Dagana 23.-25. ágúst 2011 heimsóttu nær allir starfsmenn vatnamælingadeildar norsku vatns- og orkumálastofnunarinnar, Norges vassdrags- og energidirektorat, Veðurstofu Íslands, eða tæplega þrjátíu manns. Árlega fer hópurinn í hvataferð þar sem blandað er saman faglegri dagskrá og skemmtun. Annað hvort ár er farið til útlanda og reynt að heimsækja systurstofnanir til að kynnast starfseminni. Hitt árið er farið á áhugaverða staði í Noregi. Þessar ferðir eru kostaðar af NVE.

Eftir hádegisverð með starfsbræðrum og -systrum á Bústaðavegi 9 kynntu fulltrúar beggja stofnana starfsemi sína. Búnaður og tæki voru skoðuð í áhaldageymslu á Grensásvegi 9.

Daginn eftir var lagt upp í tveggja daga ferðalag um Suðurland. Jón Ottó Gunnarsson var fararstjóri en Oddur Sigurðsson kynnti jarðsögu Íslands. Vatnshæðarmælirinn á Selfossi (vhm 64) var skoðaður og brýrnar við Múlakvísl.

Farið var að Sólheimajökli og Hjörleifshöfða. Við Ása Eldvatn (vhm 328) sýndu Snorri Zóphóníasson og Hilmar Björn Hróðmarsson úrval af mælitækjum. Kostur gafst á að fylgjast rennslismælingu þar sem notuð var River Ray straumsjá. Sýnt var hvernig hefðbundin kláfamæling er framkvæmd. Mælistöðin var skoðuð en í henni eru bæði þrýstiskynjari í ánni og loftbólukerfi. Að Hunkubökkum flutti Oddur erindi um jarðfræði, jökla og vatnafræði.

Að morgni þriðja dags var farið að vatnshæðarmæli í Skaftárdal (vhm 70), því næst að Eldgjá (inn að fossi) og loks í Landmannalaugar. Ekið var um Dómadal til baka til Reykjavíkur og staldrað við á tveimur stöðum þar sem sást til Heklu og hraun frá henni skoðuð. Veður var gott og skyggni til allra átta.

Almenn ánægja var með þessa heimsókn og tekið fram að hópurinn hafi upplifað margt á stuttum tíma. Morten Due, nýr yfirmaður vatnamælingasviðs, sagði að það hefði verið sérstök upplifun að aka um svæði þar sem jarðfræðin verður nánast til.

Erlend Moe, sem er að láta af störfum sem yfirmaður sviðsins, talaði um mikilvægi þess að halda áfram þeim góðu samskiptum sem hafa verið milli landanna frá 2008; sérfræðingar á sviði vatnamælinga á Norðurlöndum ættu mikið sameiginlegt og því væri það mikilvægt að treysta böndin.

Hér undir  eru ljósmyndir sem Jón Ottó Gunnarsson tók, sjá einnig í frétt.

Fundur á Bústaðavegi 9, þriðjudaginn 23. ágúst 2011:fundur

Miðvikudaginn 24. ágúst 2011 við Ása Eldvatn:
straumvatn

 Fimmtudaginn 25. ágúst 2011 í Eldgjá:í Eldgjá

Fimmtudaginn 25. ágúst 2011 í Landmannalaugum:í Landmannalaugum

Fimmtudaginn 25. ágúst 2011 í Landmannalaugum:í Landmannalaugum



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica