Samstarfsverkefni

Samstarfsverkefni

Veðurstofa Íslands á samstarf um og er í forystu fyrir innlendum og alþjóðlegum verkefnum á sviði loftslags-, jökla- og vatnafræðirannsókna.

Alþjóðaveðurfræðistofnunin
Alþjóðaveðurfræðistofnunin, The World Meteorological Organization (WMO), er ein af stofnunum Sameinuðu þjóðanna. Stofnunin tekur til sérhæfðra verkefna og fer með vald Sþ gagnvart ríkjum heims á sviði lofthjúps jarðar og samverkunar andrúmslofts við höf, loftslag og útbreiðslu vatnsauðlinda.
Alþjóðaveðurfræðistofnunin var stofnsett 1950. Fyrirrennari hennar var International Meteorological Organization (IMO), stofnuð 1873. Árið 1951 varð WMO að sérstakri stofnun innan Sameinuðu þjóðanna er sérhæfði sig í veðurfræði, nýtingu vatns og jarðeðlisfræði þessu tengdri.

Norrænt samstarf
Á sviði vatnafræði starfar Veðurstofa Íslands með hliðstæðum stofnunum annars staðar á Norðurlöndum. Forstöðumenn þessara stofnana hittast reglulega undir formerkjum CHIN (Chiefs of the Hydrological Institutes in the Nordic Countries) og ræða helstu verkefni og önnur málefni tengd vatnafræðilegum rannsóknum. Undir CHIN regnhlífinni eru starfandi samstarfshópar um ýmis vatnafræðileg verkefni og aðferðir, svo sem Landfræðileg upplýsingakerfi, rennslislykla, kerfisbundnar mælingar, vatnafræðilegar spár og gæðamál.
DMU, Danmarks Miljøundersøgelser, Danmörku
SYKE, Suomen Ympäristökeskus, Finnlandi
NVE, Norges Vassdrags- og Energiverk, Noregi
SMHI, Sveriges Meteorologiska och Hydrologiska Institut, Svíþjóð

Rannís
Rannsóknamiðstöð Íslands (Rannís) er ríkisstofnun sem heyrir undir menntamálaráðherra. Rannís veitir íslensku vísinda- og tæknisamfélagi aðstoð til framþróunar á innlendum og erlendum vettvangi. Rannís er ennfremur samstarfsvettvangur til undirbúnings og framkvæmdar opinberrar vísinda- og tæknistefnu.

Árið 2008 var fjölmennur hópur stofnana og fyrirtækja undir forystu vísindamanna hjá Veðurstofu Íslands valinn til þess að vinna að ítarlegri umsókn til Rannís um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á náttúru og samfélag í tengslum við Markáætlun á sviði vísinda og tækni. Þótt Verkefnið hafi ekki hlotið styrkt þegar úthlutað var á þessu ári, þróuðust í umsóknarferlinu tengsl milli stofnana, fyrirtækja og vísindamanna sem hægt er að byggja á áfram í rannsóknum á þessu sviði.

Samstarf fer fram og hefur farið fram um verkefnið Climate and Energy Systems (CES), fjögurra ára verkefni sem fór af stað 2007, verkefnið Veður og orka er lauk um áramót 2007/2008 og innan Arctic HYDRA áætlunarinnar, sem tengist fjölmörgum langtímarannsóknum á heimskautasvæðunum.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica