Íslensk eldfjöll
Jarðskjálftar frá júní 2000, eftirskjálftar
Jarðskjálftar frá júní 2000, eftirskjálftar.

Brotfletir stórskjálftanna frá júní 2000 kortlagðir með eftirskjálftum

Á einu virkasta skjálftasvæði landsins, Suðurlandsbrotabeltinu, hafa orðið allmargir stórir skjálftar á sögulegum tíma. Hrinur stórskjálfta verða hér um bil á hverri öld og hefjast þær jafnan austan til í brotabeltinu og færast vestur eftir. Tímabil milli skjálfta getur verið allt frá fáeinum dögum og upp í nokkur ár.

Í júní 2000 urðu tveir skjálftar af stærð 6,5 með tæplega fjögurra sólarhringa millibili. Sá fyrri varð 17. júní í Holtum en sá síðari 21. júní sunnan Hestvatns. Í kjölfar skjálftanna fylgdu þúsundir eftirskjálfta á sprungunum tveimur, auk þess sem skjálftavirkni á öllu SV-landi jókst mjög.

Með því að beita sérstakri staðsetningaraðferð má fá mun betri nákvæmni á staðsetningum skjálfta en fæst með venjubundinni úrvinnslu, eða allt að tuga metra nákvæmni. Aðferðin hefur verið notuð á eftirskjálfta sem raða sér upp á sprungufletina tvo og hægt hefur verið að nota skjálftadreifina til að kortleggja smáatriði í gerð þeirra. Svo nákvæmlega hafa stórar Suðurlandsskjálftasprungur ekki verið kortlagðar áður.

Sprungurnar tvær eru nokkuð ólíkar að gerð. Báðar hafa þær nærri norðlæga stefnu, líkt og eldri sprungur í Suðurlandsbrotabeltinu, sem kortlagðar hafa verið á yfirborði.

Holtasprungan er nærri lóðrétt og eftirskjálftavirknin sýnir nær samfelldan botn en ofar er hún brotin upp í þrjá búta sem hafa lítið eitt austlægari stefnu miðað við sprunguna alla.

Hestvatnssprungan er línulegri, um 4 km lengri og dýpkar hún til suðurs um nærri 3 km. Sunnan skjálftaupptakanna, sem eru nærri miðju sprungunnar, er sprungan lóðrétt en rétt norðan þeirra breytist hallinn í um 77° (til austurs). Þá ganga venslaðar sprungur til vesturs rétt sunnan upptakanna. Á þeim slóðum varð verulegt rask á yfirborði við þjóðveg 1.

Þversnið af Holtasprungunni 17. júní

Þversnið af Hestvatnsspurngunni frá 17. júní

Mynd 2. Þversnið af stóru sprungunum tveimur, séð frá austri. Holtasprungan (17. júní) er um 12,5 km löng og 10 km djúp. Hestvatnssprungan er um 16,5 km löng, 7 km djúp í nyrðri enda en dýpkar til suðurs, þar sem hún nær niður á ríflega 10 km dýpi.

Fjöldi annarra sprungna á Reykjanesskaga, Suðurlandi og allt norður að Langjökli urðu einnig virkar í kjölfar Suðurlandsskjálftanna 2000. Kortlagning á þeim sprungum, auk stóru sprungnanna tveggja, var hluti af Evrópusamstarfsverkefninu PREPARED sem Veðurstofan leiddi og er nú lokið en verkefnið var einnig styrkt af Rannsóknanámssjóði.

 

 





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica