Íslensk eldfjöll
Jarðskjálftar á Íslandi í júní 2015

Jarðskjálftar í júní 2015

Tæplega 2500 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL jarðskjálftamælakerfi Veðurstofu Íslands. Mesta skjálftavirknin er líkt og undanfarna mánuði við Bárðarbungu og í ganginum undir Dyngjujökli. Tvær skjálftahrinur urðu á Reykjaneshrygg og þar urðu einnig tveir stærstu skjálftar mánaðarins 3,9 að stærð.

Reykjanesskagi og –hryggur

Talsverð virkni var á Reykjaneshrygg en þar urðu tvær jarðskjálftahrinur í júní. Sú fyrri hófst upp úr miðnætti þann 11. Júní um fimm kílómetrum suðvestur af Eldey. Mesta virknin var þá um nóttina og fram eftir morgni en hrinan stóð yfir með hléum í nokkra daga í viðbót. Alls mældust um 200 skjálftar og var sá stærsti 3,9 að stærð. Hann varð klukkan 03:40 þann 11. júní. Síðari hrinan  hófst um klukkan 21 síðasta dag mánaðarins við Geirfuglasker sem er nokkrum kílómetrum sunnar á Reykjaneshryggnum en upptök fyrri hrinunnar urðu. Hrinan var snörpust fyrstu klukkutímana og um miðnætti höfðu hátt í 100 skjálftar mælst, stærsti um fjögur stig. Virknin hélt áfram næstu daga.

Hátt í 30 skjálftar, allir innan við tvö stig,  mældust við Reykjanestá og svæðinu þar norður af, einkum fyrri hluta mánaðarins. Á fjórða tug skjálfta var staðsettur við vestanvert Kleifarvatn, stærsti rúm tvö stig.  Nokkrir jarðskjálftar mældust í nágrenni Grindavíkur og undir Brennisteinsfjöllum. Um tugur smáskjálfta mældist við Vífilsfell, flestir að kvöldi 30. júní.

Suðurland

Rúmlega 50 skjálftar áttu upptök á Hengilssvæðinu. Á niðurdælingarsvæði Orkuveitu Reykjavíkur við Húsmúla á Hellisheiði mældust um 20 smáskjálftar, flestir dagana 5. og 6. júní.  Tæplega 20 smáskjálftar voru staðsettir  á Hengilssvæðinu og nokkrir við Nesjavelli. Um 50 skjálftar mældust einnig í Ölfusi  þar af um helmingur á Krosssprungunni sem hrökk 2008 aðrir í Þrengslum og Hjallahverfi. Allir skjálftarnir voru innan við tvö stig.

Á sjöunda tug skjálfta mældist á þekktum sprungum á Suðurlandsundirlendi. Þann 12. júní varð smáhrina við Mástungu norðaustan Árness og mældist stærsti skjálftinn 2,9 að stærð og var það jafnframt stærsti skjálftinn á Suðurlandi í mánuðinum.  Stakur grunnur smáskjálfti var staðsettur skammt vestan við Heklu þann 11. júní og tveir aðrir nokkrum kílómetrum norðaustan við fjallið. Stakur skjálfti, 2,3 að stærð, varð 29. júní kl. 12:50 um tvo kílómetra norðvestur af Surtsey.

Norðurland 

Um 200 skjálftar mældust í Tjörnesbrotabeltinu úti fyrir Norðurlandi, þar af um helmingur í Grímseyjarbeltinu og Öxarfirði. Þann 27. júní var á annan tug smáskjálfta staðsettur um sjö kílómetrum suðaustan við Flatey á Skjálfanda. Yfir 50 skjálftar mældust í Eyjafjarðarál, stærsti varð að kvöldi 22. júní, 2,7 að stærð. Nokkrir skjálftar urðu norður af Kolbeinsey, stærsti rúm tvö stig. Rúmlega 30 smáskjálftar mældust á svæðunum við Kröflu og Þeistareyki, heldur færri en mánuðinn á undan.

Mýrdalsjökull

Skjálftum fækkaði heldur milli mánaða undir Mýrdalsjökli, voru um 130 en um 200 mánuðinn á undan. Um helmingur skjálftanna varð innan Kötluöskjunnar. Nokkrir djúpir smáskjálftar mældust við austanverðan öskjubarminn, á svæði þar sem  djúpir skjálftar mælst af og til . Stærsti skjálftinn varð undir miðri öskjunni  3. júní klukkan 15:55, 2,1 að stærð og var það jafnframt stærsti skjálftinn í jöklinum í mánuðinum. Um 40 smáskjálftar mældust í vesturjöklinum, aðrir dreifðust um hann sunnanverðan. Nokkrir smáskjálftar urðu í sunnanverðum Eyjafjallajökli.  

Ríflega 50 skjálftar mældust á Torfajökulssvæðinu, litlu fleiri en í maí. Flestir voru við Torfajökul og Kaldaklofsjökul, aðrir dreifðari um svæðið. Stærsti skjálftinn á svæðinu varð 18. júní klukkan 19:11 og var hann 2,4 að stærð.

Hálendi

Skjálftum hefur heldur fækkað í ganginum undir Dyngjujökul frá síðasta mánuði. Þennan mánuð urðu þeir tæplega 600  miðað við 700 í maí. Allir skjálftarnir voru innan við tvö stig. Svipaður fjöldi skjálfta varð við öskju Bárðarbungu og mánuðinn á undan, tæplega 200. Flestir voru um og innan við eitt stig. Einn skjálfti var stærri en þrjú stig. Hann varð þann 10. júní klukkan 19:13, 3,3 að stærð, við norðurbrún Bárðarbunguöskjunnar og er það stærsti skjálfti á því svæði frá goslokum í Holuhrauni. Suðaustan Bárðarbungu, þar sem kvikugangurinn beygir til norðausturs, mældust rúmlega 40 smáskjálftar. Á svæði um tveimur kílómetrum sunnar mældust fáeinir djúpir skjálftar en á því svæði mælast slíkir skjálftar af og til.

Þann 14. júní kl. 19:45-19:55 mældist djúp hrina við Kverkfjöll á tæplega 25-30 kílómetra dýpi. Á þriðja tug smáskjálfta mældust við Grímsvötn og litlu færri undir Lokahrygg og við Skaftárkatlana. Undir sunnanverðum Vatnajökli mældust yfir 70 smáskjálftar frá Síðujökli í vestri og austur fyrir Öræfajökul. Nokkur smáskjálftavirkni var austan við Tungnafellsjökul, einkum síðari hluta mánaðarins og nokkrir um miðjan mánuð á Veiðivatnasvæðinu.

Á Dyngjufjallasvæðinu norðan Vatnajökuls mældust um 250 jarðskjálftar. Smáskjálftavirkni var við vestanverð Herðubreiðartögl, einkum dagana 9. og 10. júní. Að öðru leyti dreifðust skjálftarnir um svæðið. Stærsti skjálftinn varð við norðanverðan barm Öskju þann 4. júní, 2,2 að stærð.

Þann 6. og 7. júní mældust nokkrir jarðskjálftar með upptök milli Uxahryggja og Oksins í Borgarfirði. Þeir voru um og innan við eitt stig. Nokkrir tugir skjálfta mældust á þessu svæði í byrjun árs 1996.

Jarðskjálftar í júní 2015 (pdf 0,3Mb)




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica