Íslensk eldfjöll
Jarðskjálftar í mars 2015

Jarðskjálftar í mars 2015

Rúmlega 2200 jarðskjálftar mældust með SIL mælakerfi Veðurstofu Íslands í mars, heldur fleiri en mánuðinn á undan. Skjálftum fækkaði við Bárðarbungu en fjölgaði í ganginum  milli mánaða. Stærsti skjálftinn var 3,5 að stærð og var hann á Reykjaneshrygg.

Reykjanesskagi

Yfir 50 skjálftar mældust við Krýsuvík þar af rúmlega 30 í skjálftahrinu, sem hófst að morgni 31. mars og stóð fram eftir degi. Stærsti skjálftinn  í hrinunni varð klukkan 11:03:55, 2,6 að stærð og var hann einnig stærsti skjálfti á skaganum í mars. Nokkrir smáskjálftar mældust vestar og austar á Reykjanesskaganum allir minni en þessi. Um miðjan dag þann 29. mars hófst smáskjálftahrina norður af Reykjanestá sem stóð fram eftir kvöldi. Á  annan tug skjálfta mældust í hrinunni.

Tæplega 80 jarðskjálftar mældust á Reykjaneshrygg.  Aðfaranótt 21. mars var skjálftahrina með tæplega 30 skjálftum við Eldeyjardrang. Stærsti skjálftinn þar var 3,2 að stærð kl. 02:44. Nokkrar smáhrinur urðu suðvestur af Geirfugladrangi og í einni slíkri þann 19. mars klukkan 15:25 mældist skjálfti af stærð 3,5 og var það jafnframt stærsti skjálftinn á Reykjaneshrygg í mars.

Suðurland

Tæplega 20 smáskjálftar mældust á niðurdælingarsvæði Orkuveitu Reykjavíkur við Húsmúla á Hellisheiði og nokkrir á Hengilssvæðinu. Um 40 smáskjálftar mældust í Ölfusi, flestir í Hjallahverfi, á Kross-sprungunni og við Ingólfsfjall.  Hátt í 50 skjálftar mældust, á þekktum sprungum víðsvegar á Suðurlandsundirlendinu,  þar af um tugur á Hestvatnssprungunni. Stærsti skjálftinn á Suðurlandi varð 7. mars skammt vestur af Árnesi, og var hann tvö stig.

Dagana 26. og 27. mars mældust fjórir skjálftar norðaustur af Heklu. Stærsti skjálftinn var 1,5 að stærð þann 26. mars klukkan 19:46. Skjálftarnir voru á tæplega 15 kílómetra dýpi. Þrír smáskjálftar mældust vestan við Heklu dagana 4. og 15. mars og einn sunnan við hana 11. mars.

Norðurland

Um 240 jarðskjálftar mældust úti fyrir Norðurlandi. Sjötíu skjálftar voru staðsettir í Öxarfirði, aðallega í þremur þyrpingum, vestur og suðvestur af Kópaskeri.  Stærsti skjálftinn á þessu svæði, 2,5 að stærð,  varð 4. mars klukkan 19:54 í nyrstu og vestustu þyrpingunni um 13 kílómetrum vestur af Kópaskeri.

Á svæðinu norðvestur af Öxarfirði og norður fyrir Grímsey (Grímseyjarbeltinu) mældust tæplega 60 skjálftar og svipaður fjöldi  í Eyjafjarðarál, úti fyrir mynni Eyjafjarðar. Stærstu skjálftar á báðum þessum svæðum voru rúmlega tvö stig. Tæplega 20 smáskjálftar voru staðsettir í þremur litlum þyrpingum á Skjálfanda, milli Flateyjar og Húsavíkur. Við Kröflu voru staðsettir hátt í 20 smáskjálftar og nokkrir á svæðinu austan Reykjahlíðar við Mývatn. Á annan tug skjálfta var staðsettur við Bæjarfjall á Þeistareykjasvæðinu og var stærsti skjálftinn þar um tvö stig.   

Stakur smáskjálfti átti upptök við Blönduhlíð í Skagafirði en þar mælast skjálftar annað slagið.

Mýrdalsjökull

Um 50 skjálftar mældust undir Mýrdalsjökli og er það svipaður fjöldi og næstu tvo mánuði þar á undan. Mesta virknin var innan Kötluöskjunnar og við sunnanverðan öskjubarminn, einkum síðari hluta mánaðarins. Allir skjálftar innan öskjunnar voru innan við tvö stig.  Á annan tug skjálfta voru staðsettir í vestanverðum jöklinum, við Goðaland. Stærsti skjálftinn í jöklinum varð á því svæði þann 1. mars klukkan 22:27, 2,4 að stærð. Nokkrir smáskjálftar mældust undir sunnanverðum Eyjafjallajökli.

Á annan tug skjálfta mældist á Torfajökulssvæðinu. Stærsti skjálftinn var 2,1 að stærð

Hálendi

Enn dregur úr fjölda og stærð jarðskjálfta við Bárðarbungu. Þennan mánuð mældust hátt í 300 skjálftar en 700 mánuðinn á undan. Enginn skjálfti náði fjórum stigum í mars. Stærsti  skjálftinn var 3,1 að stærð þann 13. mars klukkan 18:43. Um tugur djúpra skjálfta var staðsettur suðaustan Bárðarbungu þar sem kvikugangurinn beygir til norðausturs, allir um og innan við eitt stig.  Flestir skjálftanna urðu í smáhrinu þann 28. mars milli klukkan 13:36 og 13:40. Fleiri skjálftar mældust í kvikuganginum þennan mánuð, um 900,  miðað við 500 í febrúar. Stærstu skjálftarnir voru um tvö stig.

Um 60 skjálftar mældust við Tungnafellsjökul, allir litlir. Um tugur skjálfta voru staðsettir í nágrenni Skaftárkatla og varð  stærsti skjálftinn 16. mars klukkan 13:07, 2,7 að stærð, við vestari ketilinn.  Tæplega 20 smáskjálftar voru staðsettir við Grímsvötn og um tugur suðaustan vatnanna. Undir Öræfajökli mældust tæplega 20 skjálftar, síðari hluta mánaðarins.  Stærsti skjálftinn var af stærð 2,4 þann 21.mars  klukkan 00:10.

Tæplega 300 skjálftar mældust á svæðinu norðan Vatnajökuls, flestir við Herðubreið og Herðubreiðartögl. Stærsti skjálftinn var af stærð 2,9 við Herðubreið þann 4. mars klukkan 18:29.

Um 50 smáskjálftar mældust við Öskju. Flestir voru við austurbarm Öskju en nokkrir undir Öskjuvatni.   Um 20 smáskjálftar mældust norður af Upptyppingum og um 10 austur af Hlaupfelli.

Rétt innan við 20 skjálftar mældust í vestara gosbeltinu. Þrír skjálftar voru staðsettir undir Geitlandsjökli  og tveir austur af Jarlhettum þar sem stærri skjálftinn var tvö stig og var það stærsti skjálftinn á svæðinu í mánuðinum. Aðrir voru við Skjaldbreið, vestari Hagafellsjökul, Sandvatn og Hlöðufell. Auk þess voru tveir skjálftar  undir norðausturhorni Hofsjökuls og einn á Kili.

Jarðskjálftar í mars 2015 (pdf 0,3 Mb )




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica