Íslensk eldfjöll
Jarðskjálftar á Íslandi í janúar 2015
Jarðskjálftar á Íslandi í janúar 2015

Jarðskjálftar í janúar 2015

Tæplega 3100 jarðskjálftar mældust með SIL mælakerfi Veðurstofunnar í janúar þar af yfir 1600 við Bárðarbungu og rúmlega 400 í kvikuganginum. Stærsti skjálftinn var M5,1, við Bárðarbungu, og var það sá eini sem var yfir fimm stigum í mánuðinum. Undir lok mánaðarins varð jarðskjálfti sunnan Hafnarfjarðar sem fannst í nágrenninu.

Reykjanesskagi

Að kvöldi 29. janúar (kl. 19:47) varð skjálfti, um þrír að stærð, við Grindarskörð, sunnan Hafnarfjarðar. Skjálftinn fannst í Hafnarfirði, Garðabæ og Kópavogi. Rúmlega 20 eftirskjálftar fylgdu í kjölfarið. Ríflega 20 jarðskjálftar mældust við suðvestanvert Kleifarvatn, allir síðari hluta mánaðarins. Stærsti skjálftinn var um tvö stig. Um 25 skjálftar voru staðsettir austan Vífilsfells, flestir í smáhrinu sem varð þann 22. janúar. Allir skjálftarnir voru innan við 1,5 að stærð.

Smáskjálftahrinur urðu um fjóra kílómetra vestur af Reykjanestá að kvöldi 16. janúar og um 10 kílómetra suðvestur af Geirfugladrangi skömmu eftir miðnætti þann 4. janúar. Um tugur skjálfta mældist á hvorum stað. Tæplega 40 skjálftar voru staðsettir skammt norðan við Geirfugladrang dagana 29. og 30. janúar. Stærsti skjálftinn varð 30. janúar kl. 02:43, 3,2 að stærð.

Suðurland 

Um tugur skjálfta mældist við Húsmúla á Hellisheiði og álíka fjöldi við Hveradali í smáhrinu sem varð að morgni 31. janúar. Allir skjálftarnir voru um og innan við tvö stig. Rúmur tugur mældist austar á Hengilssvæðinu, sá stærsti 2,6 að stærð varð skammt austan við Kattatjarnir. Tæplega 30 smáskjálftar mældust í Ölfusi. og um 40 víðs vegar á Suðurlandsundirlendi. Tveir smáskjálftar voru staðsettir í nágrenni Heklu, 18. og 22. janúar.

Norðurland

Tæplegalega 200 skjálftar mældust úti fyrir Norðurlandi í janúar þar af tæpur helmingur í Öxarfirði. Tæplega 40 skjálftar urðu í Grímseyjarbeltinu og á annan tug úti fyrir mynni Eyjafjarðar. Um 10 smáskjálftar voru staðsettir undir vestanverðum Skjálfanda. Stærsti skjálftinn varð 2. janúar kl. 02:32 um 20 kílómetrum suðaustan Grímseyjar, 2,4 að stærð. Um 20 smáskjálftar mældust við Kröflu og austan byggðarinnar í Reykjahlíð og rúmur tugur við Bæjarfjall á Þeistareykjasvæðinu.

Mýrdalsjökull

Um 50 skjálftar voru staðsettir undir Mýrdalsjökli, þar af um 40 innan Kötluöskjunnar. Um  helmingur virkninnar innan öskjunnar var smáskjálftar í henni sunnanverðri. Fáeinir náðu tveimur stigum og varð sá stærsti  24. janúar kl. 23:20, 2,1 að stærð, með upptök um tveimur kílómetrum norðaustan við sigketil númer 6. Um tugur smáskjálfta mældist í vestanverðum jöklinum. Einn skjálfti varð við Goðabungu 21. janúar klukkan 16:06, 2,3 að stærð og var það jafnframt stærsti skjálftinn í jöklinum. Einn smáskjálfti mældist undir Eyjafjallajökli.

Á Torfajökulssvæðinu var skjálftahrina um 2-3 kílómetrum vestur af Landmannalaugum um morguninn þann 17. janúar. Í allt mældust yfir 20 skjálftar í hrinunni og stærsti skjálftinn mældist 2,5 (Mlw) kl. 10:28. Brotlausn skjálftans sýndi sniðgengishreyfingu.

Hálendi

Yfir 1600 skjálftar mældust við Bárðarbungu og rúmlega 400 í kvikuganginum undir og norður af Dyngjujökli.  Einn skjálfti náði fimm stigum og varð hann við norðaustanverða Bárðarbungu 8. janúar kl. 18:47, M5,1 að stærð. Yfir 100 skjálftar voru stærri en fjögur stig. Allir skjálftarnir í kvikuganginum voru undir tveimur stigum utan einn sem var 3,7 að stærð og varð um miðjan fyrsta dag  ársins, klukkan 14:31.

Um tugur skjálfta mældist við eystri Skaftárketilinn. Stærsti skjálftinn varð um hádegisbil þann 14. janúar, 2,4 að stærð. Nokkrir smærri skjálftar urðu vestar á Lokahrygg og fáeinir smáskjálftar við Grímsfjall. Tveir smáskjálftar mældust við öskjubarm Öræfajökuls og nokkrir við Ærfjall sem er milli Hrútárjökuls og Fallsjökuls.

Um 100 jarðskjálftar mældust við Tungnafellsjökul. Smáhrina hófst við norðanverðan jökulinn, um miðja nótt þann 13. janúar, og stóð hún fram eftir kvöldi þess dags. Tæplega 30 skjálftar mældust í hrinunni, stærsti 2,5 að stærð. Önnur smáhrina varð við suðaustanverðan jökulinn 23. og 24. janúar með um 20 skjálftum.

Tæplega 20 skjálftar mældust við austanvert Öskjuvatn, allir innan við tvö stig.  Þann 15.janúar frá kl. 03:37 til um 03:50 mældust nokkrir djúpir skjálftar norðaustur af Öskju. Hátt í 200 skjálftar mældust við Herðubreið og Herðubreiðartögl, allir um og innan við tvö stig. 

Rúmlega 20 jarðskjálftar voru staðsettir við Sandfell, sunnan Langjökuls, flestir í fyrstu og síðustu viku mánaðarins. Stærsti skjálftinn þar varð 2. janúar kl. 00:28, 2,7 að stærð. Nokkrir skjálftar mældust við Skjaldbreið, Þórisjökul og Geitlandsjökul, stærstu rúm tvö stig.

Þann 16. janúar kl. 08:49 mældist skjálfti um tveir að stærð með upptök um þremur kílómetrum vestur af Blöndulóni. Einnig mældist skjálfti við Djúpagilsvatn milli Hofsár og Austari-Jökulsár í Skagafirði. Hann var 1,5 að stærð.

Jarðskjálftar í janúar 2015 (pdf 0,3 Mb)



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica