Bárðarbunguskjálftarnir í þrívídd
tvær lotur frá öllum sjónarhornum
Sérfræðingar Veðurstofu Íslands treysta mikið á jarðskjálftamælingar til þess að meta stöðuna hverju sinni. Til þess að greina og túlka mælingarnar er framsetning gagnanna lykilatriði og ein mjög gagnleg leið er að skoða mælingar í þrívídd.
16. - 26. ágúst 2014
Í þessu myndbandi eru jarðskjálftar nærri Bárðarbungu skoðaðir í tímaröð og þrívídd á 10 daga tímabili. Sjónarhornið er þó nokkuð sérstakt en staðsetning á yfirborði er sýnd á landlíkani neðst í myndbandinu, í stað efst eins og venja er, til þess að auðveldara sé að átta sig á samhengi staðsetningar og dýpis skjálftanna. Gráu jafnhæðarfletirnir tákna ákveðið dýpi frá yfirborði sem er 0 km, 5 km og 10 km. Litakóði skjálftanna táknar dagafjölda frá 16. ágúst (dagur 0) sem almennt er talinn upphafsdagur núverandi atburðarásar. Stærð skjálfta er ekki sýnd en allir punktar eru af sömu stærð. Sömu skjálftar eru sýndir á landlíkaninu og í þrívíddinni svo hægt sé að átta sig betur á staðsetningu á yfirborði og dýpi. Athygli er vakin á því að hæð og dýpi eru ýkt fimmfalt til þess að draga betur fram landslag á yfirborði og ná fram betri aðgreiningu á dýpi skjálftanna.
Staðsetning, dýpi og aldur jarðskjálfta við Bárðarbungu 16. – 26. ágúst 2014.
Bogi B. Björnsson, sérfræðingur á Veðurstofunni, vann þetta myndband.
16. - 20. ágúst 2014
Í myndbandinu hér að neðan hafa mælingar, sem innihalda staðsetningu og dýpi jarðskjálftamiðja (litaðir punktar), verið teiknuð upp fyrir landsvæðið undir Bárðarbungu og hreyfimynd útbúin. Sjónarhornið byrjar líkt og horft sé á hefðbundið kort en breytist síðan til að sýna hvað er að gerast undir yfirborðinu. Litur punktanna táknar dagsetningu þeirra þannig að fyrst koma rauðir punktar, næst appelsínugulir, gulir, ljósgrænir og loks grænir. Tímabilið sem um ræðir er 16.-20. ágúst 2014.
Stærð jarðskjálfta kemur ekki fram en allir skjálftapunktar eru teiknaðir jafn stórir í myndbandinu. Sömu punktar eru sýndir undir yfirborðinu og ofan á yfirborðinu til að átta sig betur á samhengi staðsetningu og dýpis. Dýpi skjálftana er hægt að lesa út frá gráu flötunum á myndbandinu en þeir eru staðsettir á 0 km, 5 km og 10 km dýpi undir sjávarborði.
Athygli er vakin á því að hæð og dýpi eru ýkt fimmfalt til þess að draga betur fram landslag á yfirborði og ná fram betri aðgreiningu á dýpi skjálftanna. Þessi ýking sést best þegar borin er saman lengd og breidd svæðisins sem er u.þ.b. 100 km x 70 km m.v. dýpsta gráa flötin sem er á 10 km dýpi.
Staðsetning, dýpi og aldur jarðskjálfta við Bárðarbungu 16. – 20. ágúst 2014.
Bogi B. Björnsson, sérfræðingur á Veðurstofunni, vann þetta myndband.