Íslensk eldfjöll

Algengustu spurningar varðandi gosið í Eyjafjallajökli

Algengar spurningar og svör varðandi gosið í Eyjafjallajökli

Hvar er hægt að sjá spá um ösku í háloftunum vegna flugumferðar?

London VAAC, Volcanic Ash Advisory Centres í London, gefur út spár um ösku í háloftunum vegna flugumferðar. Spárnar eru uppfærðar nokkrum sinnum á sólarhring og eru sýndar á kortum.

Hvaða áhrif hefur öskufallið á dýr og gróður?

Öskufallið hefur slæm áhrif á dýr og fugla en getur haft góð áhrif á gróður ef lagið verður ekki þykkara en 10 cm og kemst ofan í svörðinn. Í Kastljósi RUV 20. apríl var viðtal við sérfræðing um áhrif goss á landeyðingu og gróður.

Er hætta á heilsutjóni vegna öskunnar?

Vegna eldgossins hafa nokkrar stofnanir þýtt og gefið út bækling sem heitir Hætta á heilsutjóni vegna gosösku - Leiðbeiningar fyrir almenning. Bæklingurinn er aðgengilegur á síðu Almannavarna.

Hvernig á að bregðast við öskufalli?

Vegna eldgossins hafa nokkrar stofnanir gefið út bækling sem heitir Öskufall: leiðbeiningar um viðbúnað fyrir, eftir og meðan á öskufalli stendur. Bæklingurinn er aðgengilegur m.a. á síðu Almannavarna.

Hví heyrast dynkir?

Kvikan úr Eyjafjallajökli er seigari en sú á Fimmvörðuhálsi og það eykur sprengivirkni og dynki.

Er gosinu örugglega lokið?
Ekki er hægt að segja til um það með fullri vissu hvort gosinu er lokið, hvort það mun halda áfram að gjósa með hléum, eða hve langt gosið getur orðið. Fyrri gos í þessari eldstöð sem vitað er um er annars vegar gos árið 1612 og gosið 1821 þegar gaus af og til í rúmt ár.

Hvernig gos er þetta?
Gosið er sprengigos undir jökli með óvenju miklu flúorinnihaldi. Askan er mjög fínkornuð og ísúr.

Varð breyting á eldgosinu?
Breytingin sem átti sér stað fimm dögum eftir að gosið hófst, var sú að kvikan komst síður í tæri við vatn (ís) og hraunkleprar fóru að kastast upp úr gígunum. Þessu fylgdi minni aska og öskustrókurinn steig ekki jafnhátt og áður. Sprengivirkni var þó til staðar enn um sinn.

Eru hættuleg efni í öskunni?
Já, í henni er flúor sem er hættulegt fyrir búfénað. Fíngerð aska getur einnig haft áhrif á heilsfar manna, t.d. öndunarfæri. Magnið mældist 850 mg/kg á glerjaðri ösku sem safnað var 19. apríl skv. efnagreiningu Jarðvísindastofnunar HÍ en í sýni frá 14. apríl mældist flúor aðeins 25-35 mg/kg. Talið er að vatnsgufa hafi skolað burtu flúor úr upphaflegu öskunni en þá var meira um gufubólstra.

Hversu fíngerð er askan?
Eitt sýni sem Umhverfisstofnun safnaði á Mýrdalssandi (50 km frá gosstaðnum) eftir öskufallið 14.-16. apríl var kornastærðagreint á Jarðvísindastofnun og er mjög fíngert. Einingin er míkrón (μm):
24% sýnisins er fínna en 10 μm (eins og svifryk)
33% er 10-50 μm
20% er 50-146 μm
23% er 146-294 μm

Hefur orðið öskufall á Íslandi?
Öskufall var mikið undir Eyjafjöllum eins og alþekkt er. Hvort ösku varð vart víðar má sjá í töflu með tilkynningum frá veðurathugunarmönnum um öskufall á veðurstöðvum. Telji fólk sig hafa orðið vart við ösku, má benda á leiðbeiningar um söfnun ösku (pdf 0,03 Mb). Einnig getur fólk nú skráð öskufall í sérstakt sniðmát: Skrá öskufall (með rauðu letri í gráa eldgosaborðanum).

Hvað er gosmökkurinn hár?
Hæst fór strókurinn í 33.000 fet (um 10 km) á fyrsta degi gossins. Mökkurinn sést nú örsjaldan á veðurratsjá sem þýðir að hann nær aðeins um eða undir 3 km hæð við eldstöðina.

Hve langt hefur mökkurinn borist?
Meldingar eru um að hann hafi borist yfir Bretlandseyjar og austur til Finnlands. Tilkynningar hafa borist frá Noregi. Veðurstofan birtir daglega spá um öskufall.

Hver er veðurspáin í nágrenni gosstöðvanna? Á láglendi?
Skoða má veðurspár fyrir nágrenni gosstöðvanna á veðursíðum vefsins. Spár fyrir stöðvar eru aðgengilegar, svo og vinda-, hita- og úrkomuspár, en notendur eru hvattir til að lesa jafnframt textaspár. Úr fellilista hægra megin á forsíðu má velja landshluta, t.d. Suðurland og Suðausturland. Athugið vel að veðurspár eru gerðar fyrir láglendi en ekki hálendi (nema það sé tekið sérstaklega fram).

Hvernig er veðrið í nágrenni gosstöðvanna? Á láglendi?
Fylgjast má með veðri í nágrenni gosstöðvanna á veðursíðum vefsins undir Veðurathuganir. Greiningarkortið af Íslandi sýnir veður á flestum veðurstöðvum og þar með stöðvum í kringum gosstöðvarnar. Mönnuðu stöðvarnar í nágrenninu gefa upp öskufall eða öskumistur á stöðvunum. Þetta eru Stórhöfði, Vatnsskarðshólar, Vík í Mýrdal og Kirkjubæjarklaustur. Listi yfir veðurtákn og skýringar á þeim er aðgengilegur. Athugið vel, að engar veðurstöðvar eru á hálendi í nágrenni eldstöðvarinnar.

Af hverju stöfuðu flóðin? Er flóðahætta viðvarandi?
Nokkur mjög snögg hlaup hafa orðið við eldgosið í Eyjafjallajökli. Þau sneggstu ryðjast fram sem flóðalda en standa stutt. Fyrsta hlaupið var stærst. Það fyllti nánast upp í hafið undir brúm á Markafljóti og er talið hafa verið í hámarki um 2000-3000 m3/sek. Nú hefur gosið haldist við eitt og sama gosop í nokkurn tíma og því ekki brætt mikinn ís til viðbótar. Þess vegna er ekki búist við að þau hlaup, sem eftir eiga að koma, verði eins stór og þau stærstu sem eru afstaðin. Fylgst er með flóðum kring um Kötlu og Eyjafjallajökul með síritum sem eru tengdir viðvörunarbjöllum í gegn um síma. Ekki er búist við að hlaup verði til vandræða nema breytingar verði á eldgosinu.

Hvernig fylgist Veðurstofan með gosinu?
Veðurstofan vaktar jarðhræringar, vatnafar og veður og gefur út viðvaranir. Mælakerfi Veðurstofunnar og annarra stofnana gefa mikilvægar upplýsingar sem eru nýttar til þess að vara við yfirvofandi vá, til dæmis ef fyrirboðar eru um hlaup. Veðurratsjá Veðurstofunnar á Miðnesheiði sýnir hæð gosstróks en þær upplýsingar eru mikilvægar til að spá fyrir um dreifingu gosösku. Veðurstofan er með sólarhringsvakt þar sem veðurfræðingur, jarðskjálftafræðingur og sérfræðingur á sviði vatnamælinga fylgjast með framvindu mála. Veðurstofan vinnur náið með Almannavörnum, Háskóla Íslands og bresku veðurstofunni þar sem London VAAC (Volcanic Ash Advisory Centre) er til staðar. Hún gefur út leiðbeinandi upplýsingar um ösku sem byggja á upplýsingum frá veðurratsjá Veðurstofunnar.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica