Íslensk eldfjöll
Eldgos á Fimmvörðuhálsi
Eldstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi.

Hraunflæðilíkan

Síðustu ár hafa margir unnið að því að búa til forrit til að spá fyrir um hættu af eldgosum. Af eldfjöllum stafar ýmis konar hætta og þær eru oft samtvinnaðar við önnur náttúrufyrirbrigði. Helstu hætturnar eru gustflóð, sem geta orðið þegar gosstrókur fellur saman, hraunflóð, öskufall, gjóskufall, jarðskjálftar, skriðuföll og flóð. Einnig getur gjóska sem nær uppí háloftin haft áhrif á veður svo mánuðum skiptir.

Hraunflóð er líklega best þekkta hættan en þó spilar margt inn í þegar spá á fyrir um hraunflóð. Samsetning kvikunnar hefur áhrif á seigju hennar og þar með hversu hratt hún flæðir. Einnig ber að hafa í huga að kvika hagar sér ekki eins og vatn sem flæðir því þar sem hún storknar hefur hún breytt landslaginu mjög mikið. Þar af leiðir að farvegur sem hraun leitar í verður ekki til staðar næst þegar gýs, jafnvel ekki þegar næsta spýja kemur. Til að líkja eftir flæði hrauns á sem bestan hátt þyrfti því að vera til staðar hæðarlíkan sem breytist um leið og hraunið flæðir um það.

Við háskólann í Barcelona hefur verið þróað forrit sem reiknar hraunflæði. Forritið vinnur á landlíkani og notar uppgefna hæðarleiðréttingu til að líkja eftir þykkt hraunsins, því þykktin getur haft áhrif á í hvaða farveg hraunið flæðir. Annað sem forritið þarf að fá uppgefið er hámarkslengd hraunflóðs. Að öðru leyti er ekki haft áhrif á magn hrauns sem er til staðar. Með því að nota mjög mikla vegalengd er gert ráð fyrir að enginn skortur sé á gosefni. Forritið gerir ráð fyrir að hraunið haldi áfram að renna á meðan núverandi myndeining er hærri en einhver af 8 næstu myndeiningum; sem sagt, að hraunið renni svo lengi sem straumurinn hefur einhverja dæld að leita í.

Gjóska sem spýtist upp í loftið í eldgosi verður fyrir miklum áhrifum af vindi vegna þess hversu létt hún er. Aska er fínni hluti gjóskunnar og getur hún því ferðast langar leiðir með vindum og jafnvel komist upp fyrir veðrahvolfið og þannig haft áhrif á veður til lengri tíma. Útbreiðsla gjóskunnar er því mjög háð hæð gosmakkarins. Myndun gjóskunnar er hins vegar háð samsetningu kvikunnar og vatnsmagni. Ef kvika kemst í snertingu við vatn, splundrast hún og mikil gjóska myndast.

Í hraungosi, eins og nú er í gangi á Fimmvörðuhálsi, er ekki mikil framleiðsla gjósku. Hún er hins vegar til staðar og hefur áhrif á ferli gossins. Gossprungan opnaðist á litlum flata eða sléttri hæð þar sem gil eru beggja vegna. Samkvæmt útreikningum hraunflæðilíkansins voru meiri líkur í upphafi gossins að hraunið rynni í Hvanngil en Hrunagil. Um nóttina þegar gosið hófst var mjög stíf austanátt sem átti þátt í því að hlaða upp gosefnum vestan við sprunguna. Það dugði til þess að hraunið rann í Hrunagil. Nokkrum dögum síðar tók hraunið þó að renna í Hvannárgil.

Líkan af mögulegu hraunflæði frá Fimmvörðuhálsi
líkan: kort með hraunstraumum
Líkur á hraunflæði miðað við landslag ásamt gjóskufalli miðað við veður í upphafi gossins á Fimmvörðuhálsi sem hófst 20. mars 2010. Reiknað með VORIS 25. mars 2010.

Þessi mynd sýnir líkur á hraunflæði miðað við landslag ásamt gjóskufalli miðað við veður í upphafi gossins. Þegar margar leiðir eru reiknaðar, eru líkurnar á hraunflæði í hverri myndeiningu hlutfall á milli fjölda leiða sem innihalda myndeininguna og heildarfjölda reiknaðra leiða. Kortið sýnir hvorki rúmmál hraunsins né þann tíma sem hraunið þarf til að ná ítrustu útbreiðslu. Einnig má skoða myndina stærri og með örnefnum; svo og sem pdf-skjal (hraunflæðilíkan 1,5 Mb).

Áhugasamir geta séð vind í háloftunum nokkra daga aftur í tímann, svo og háloftavindaspá næstu daga í 500 - 3000 m hæð (táknað FL017 - FL100).



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica