Íslensk eldfjöll
Hekla
Hekla. Myndin er tekin árið 2004.

Hvað nema þenslumælar?

Spennubreytingar í jarðskorpunni valda breytingum á rúmmáli bergsins. Það eru þessar rúmmálsbreytingar sem þenslumælar nema í berginu sem þeir eru í. Mælarnir eru ekki aðeins næmir fyrir hægfara breytingum, sem geta numið mánuðum og árum. Svörun þeirra er jöfn upp í tíðni sem nemur 20 sveiflum á sekúndu. Þannig virka þeir einnig eins og jarðskjálftamælar að öðru leyti en því að þeir nema ekki hreina skerhreyfingu (eins og í s-jarðskjálftabylgjum) þar sem henni fylgir ekki rúmmálsbreyting.

Mælingar frá Skálholti
Þenslumælingar í Skálholti
Mynd 2: Mælingar í Skálholti í apríl 1993. Þetta er dæmigerður mánuður og þenslubreytingar eru að mestu jarðföll og vegna loftþrýstingsbreytinga. Efsti ferillinn sýnir loftþrýstingsbreytingar í millibörum. Hinir ferlarnir sýna þenslubreytingar. Einingar eru nanóstrein og samþjöppun bergs við mæli er jákvæð breyting, þ.e. upp á línuritunum. Efsti ferill þenslumælinganna sýnir frumgögn þar sem glögglega má sjá dægursveiflu jarðfallanna. Þá er ferill þar sem jarðföll hafa verið hreinsuð burt. Þar má sjá skýra svörun jarðar við loftþrýstingsbreytingum. Á neðsta ferli hafa áhrif loftþrýstingsbreytinga að mestu verið fjarlægð. Sjá má að í mánuðinum eru breytingar, einkum í síðustu viku hans, sem ekki virðast vera vegna ytri afla.

Dæmi um jarðföll og loftþrýstingsáhrif má sjá á myndinni hér að ofan. Breytingar fyrir og samfara eldgosum í Heklu hafa gefið miklar upplýsingar um eðli gosa þar og skiptir miklu máli að mælingarnar eru samfelldar (sjá fróðleik um eldgos í Heklu 2000). Einnig hafa mælst breytingar sem verða þegar spenna losnar úr læðingi í jarðskjálftum og hafa þær mælingar haft gildi varðandi brotlausnir jarðskjálfta og önnur atriði eins og svörun vatnsleiðandi jarðlaga. Hins vegar hafa ótvíræðir forboðar jarðskjálfta ekki mælst.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica