Saga snjóathugana
SM4 hitamælistafur frá POLS Engineering sem rekinn er af Vegagerðinni á upptakasvæði snjóflóða í Súðavíkurhlíð.

Saga snjóathugana á Íslandi

Harpa Grímsdóttir 28.10.2011

Í desember árið 1974 fórust 12 manns í snjóflóðum í Neskaupstað. Á þeim tíma hafði enginn það hlutverk að fylgjast með snjóflóðahættu og snjóflóð voru ekki skráð á skipulagðan hátt. Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi alþingismaður, skráði þau flóð sem féllu þennan vetur í Neskaupstað og fylgdist með snjóalögum og má segja að það hafi verið fyrstu skipulögðu snjóathuganirnar á Íslandi. Haustið 1975 var ráðinn snjóathugunarmaður í Neskaupstað samkvæmt tillögu snjóflóðanefndar sem skipuð hafði verið af bæjarstjórn í kjölfar flóðanna. Gunnar Ólafsson var ráðinn til starfsins, sem fólst að mestu í snjódýptarmælingum á stikum í fjallinu, og einnig sá Gunnar um veðurathuganir en þær höfðu ekki farið fram í Neskaupstað áður. Snjóeftirlitsmenn hafa verið starfandi í Neskaupstað síðan þá að tveimur árum undanskildum.


svarthvít mynd, snjór í fjöru, bátur úti fyrir, leitarmenn

Leitarmenn að störfum í fjöruborðinu og úti í sjó í snjóflóðunum í Neskaupstað 1974. Ljósmynd: Friðþjófur Helgason (Morgunblaðið). Myndin er fengin af vef Norðfirðingafélagsins.

Í kjölfar snjóflóðanna í Neskaupstað var settur á laggirnar starfshópur Rannsóknaráðs ríkisins um snjóflóð sem skilaði af sér áliti árið 1976. Í álitinu er meðal annars mælst til þess að stofnaðar verði svæðisstöðvar þar sem snjóflóðahætta er mest og þar verði fylgst með ástandi og magni snævar, hengjumyndun, veðurfari, o. s. frv. Stöðvunum átti að vera stjórnað af  Almannavarnanefndum á svæðunum í samráði við sérfræðing Veðurstofunnar.  Svæðisstöðvarnar áttu einnig að gefa Almannavarnanefndum upplýsingar um ástandið og vara við yfirvofandi hættu. Þarna var því lögð fram tillaga um reglubundið snjóeftirlit og snjóflóðavakt en ekkert varð úr þessum tillögum næstu árin frekar en öðrum góðum tillögum þessa starfshóps. Almannavarnir gengust þó fyrir námskeiðum í því hvernig bregðast skyldi við snjóflóðum, námskeiðum í björgun og fræðslu um snjóflóð og fleiru sem snertir þessar mannskæðu náttúruhamfarir.

Fyrstu lögin um varnir gegn snjóflóðum voru aftur á móti ekki sett fyrr en 1985 í kjölfar snjóflóða á Patreksfirði og í Ólafsvík. Í þeim var tekið fram að það væri hlutverk Veðurstofu Íslands (VÍ) að afla gagna um snjóflóð og snjóflóðahættu og annast úrvinnslu úr þeim. Þá skyldi stofnunin annast mælingar á snjóalögum og rannsóknir á þeim, með sérstöku tilliti til snjóflóðahættu, og gefa út viðvaranir um hana.  Í sömu lögum er mælt fyrir um að í þeim sveitarfélögum þar sem snjóflóðahætta er skuli sveitarstjórn fela sérstökum starfsmanni að fylgjast með snjóalögum. Skyldi hann starfa eftir fyrirmælum frá VÍ, sem greiddi helming launa hans. Oftast völdust í þetta bæjarstarfsmenn, en þeir voru illa tækjum búnir og þetta var allt gert í dagvinnutíma, þegar þeir áttu þess utan að vera að sinna sína fasta starfi.  Fyrsti starfsmaðurinn á VÍ sem sinnti snjóflóðamálum sérstaklega var Hafliði Helgi Jónsson, veðurfræðingur, frá árinu 1981.

Oddur Pétursson snjóathugunarmaður dvaldi í Kanada árið 1991 til að kynna sér hvernig staðið væri að snjóflóðaeftirliti þar í landi. Eftir þessa ferð var farið að taka snjógryfjur og gera mælingar á skipulagðari hátt en áður og varð Oddur frumkvöðull hvað varðar tækni og skipulag snjóathugana hér á landi.

Eftir snjóflóðin miklu í Súðavík og á Flateyri, árið 1995, var gerð breyting á lögum um snjóflóðavarnir og þá var lögreglustjórum falið að ráða starfsmenn til að kanna og fylgjast með landfræðilegum og veðurfarslegum aðstæðum með tilliti til hættu af snjóflóðum og/eða skriðuföllum. Þeir skyldu starfa undir stjórn viðkomandi lögreglustjóra en athuganir þeirra skyldu gerðar í samræmi við vinnureglur og önnur fyrirmæli VÍ.

snjór og spýtnabrak, björgunarmenn

Björgunarmenn að störfum í snjóflóðinu á Flateyri 1995. Ljósmynd: Oddur Pétursson.

Með endurskoðun á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum frá 1997 varð það hlutverk VÍ að sjá um eftirlitsmannakerfið, í samráði við viðkomandi sveitarfélög.  Nánar var kveðið á um það samstarf í reglugerð frá 1998.

Hér á vefnum má skoða viðbúnað og rýmingaráætlanir, rýmingarreiti, hættumat, skíðasvæðahættumat, snjóflóðasögu og  varnarvirki; ásamt lista yfir lög og reglugerðir.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica