Snjóflóð í Skeggjabrekkudal norðan við Ólafsfjörð vorið 2013.

Snjóflóðin í Skeggjabrekkudal

Snjóflóð norðan við Ólafsfjörð 30. apríl 2013

Tómas Jóhannesson 29.5.2013

Mjög stórt snjóflóð féll í Skeggjabrekkudal norðan við Ólafsfjörð þann 30. apríl 2013. Flóðið féll úr gili nokkru innan við munna Héðinsfjarðarganga og náði niður í ána sem rennur eftir Skeggjabrekkudal.

Annað stórt flóð féll úr næsta gili fyrir utan en það náði ekki eins langt niður á jafnsléttu. Flóðin hafa verið blaut þegar neðar dró og gripu þau með sér mikinn snjó á leið sinni niður hlíðina.

Innra flóðið

Í gilkjaftinum gróf stærra flóðið sig meira en 10 m lóðrétt niður í snjóinn sem fyrir var og skildi eftir sig háa snjókanta beggja vegna farvegarins ekki ósvipað og þegar fjallvegur er ruddur með öflugum snjóruðningstækjum. Flóðið klofnaði upp í nokkra arma þegar það kom niður á jafnsléttu og mynduðust sérkennilegar hrannir sem breyttu um stefnu og hlóðust upp í turna sem náðu e.t.v. 8-10 m hæð. Flóðtungan var um 350 m breið og um 450 m löng í rennslisstefnuna og um 6,5 hektarar að flatarmáli. Rúmmál flóðsins nam nokkrum hundruðum þúsunda m³ en erfitt var að meta það af nákvæmni þar sem dýpt flóðtungunnar var mjög breytileg.

Séð úr lofti
Snjóflóðstungan 2. maí 2013. Flugmynd: Ingimar Eydal.

Myndir teknar 2. maí 2013 segja meira en mörg orð um hversu hrikalegt þetta snjóflóð var. Myndir á vettvangi tók Tómas Jóhannesson:


Yfirlitsmynd af snjóflóðstungunni, tekin skammt innan gilmunnans.


Innsti hluti hrannarinnar þar sem rakur snjórinn hefur hlaðist upp í þykka hrauka.


Armur úr tunginni sem teygir sig yfir farveg árinnar sem liðast eftir botni Skeggjabrekkudals.


Séð yfir flóðtunguna upp í gilið í hlíð Skeggjabrekkudals sem flóðið féll úr. Sjá má brotlínu flóðsins uppi undir fjallsbrún. Flóðið gróf sig meira en 10 m lóðrétt niður í snjóinn í gilkjaftinum.


Skriðflötur flóðsins á úthlaupssvæðinu var víða sléttur þar sem hraukar höfðu slitnað frá flóðtungunni ofan við, skriðið tugi metra og skilið eftir traðir sem heflaðar voru niður í snjóþekjuna. Ljósmyndirnar tók Tómas Jóhannesson.

Ytra flóðið

Tunga ytra flóðsins var ekki eins stór en þó hátt í 300 m breið og tæpir 5 hektarar að flatarmáli. Hún var mjög aurug eftir að hafa skafið jarðveg úr innri gilbarminum og út úr henni gengu 30-50 m langar greinar, undarlega kassalaga, 4 m háar og 5-10 m breiðar. Mesta dýpt í ytra flóðinu var líklega 6-10 metrar um miðbik tungunnar en víða um 3 m. Snjóathugunarmaður á Ólafsfirði tók þessa mynd:


Aurug tunga ytra flóðsins. Í baksýn er innra flóðið sem nær lengra niður. Ljósmynd: Ari Sigþór Eðvaldsson.

Eldri flóð

Í apríl 2010 féllu með skömmu millibili flóð úr báðum þessum giljum. Þá náði tungan úr ytra gilinu yfir ána á löngum kafla og var hátt í 500 m breið og nokkurra metra þykk. Flóðin 30. apríl 2013 ásamt eldri flóðunum frá 4.-11. apríl 2010 hafa verið kortlögð (Sveinn Brynjólfsson). Hér má sjá stærra kort.


Til baka


Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica