Afdráttarlaus skýrsla Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar


Verði ekki gripið til mikils samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda mun að meðaltali hlýna meira en um 1.5°C og jafnvel 2°C á öldinni, sem er yfir viðmiðum Parísarsamkomulagsins

Haukur Hauksson 9.8.2021

Í dag kemur út skýrsla sérfræðingahóps Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC).  Skýrslan er mjög viðamikil og fjallar um breytingar sem hafa átt sér stað í lofthjúpi, hafi, freðhvolfi, á landi og í lífríki.  Þessi skýrsla er fyrsti hluti 6. ritraðar IPCC um loftslagsbreytingar. Skýrslan er afrakstur vinnuhóps sem fjallar um náttúruvísindi og vísindalega þekkingu á breytingum á veðurfari og loftslagskerfinu. 

Meðal nýmæla í skýrslunni má nefna:

Skýrslan endurspeglar mikilvægar framfarir í vísindum frá því að 5. ritröð kom út 2013–2014. Skilningur á loftslagsbreytingum fyrri tíðar hefur aukist og að sama skapi eru framtíðarspár taldar öruggari.

  • Nú er enn greinilegra en fyrr að athafnir mannkyns eru meginorsök margvíslegra breytinga á loftslagi.
  • Nú liggja fyrir ýtarlegri gögn sem gefa til kynna að loftslagsbreytingar geri það að verkum að ýmsir aftakaatburðir verða algengari og afdrifaríkari, þ.m.t. ákafari rigning og meiri öfgar í hitabylgjum og þurrkum.
  • Mat á meðalhita jarðar er nú betra en fyrr og hefur það ásamt mjög heitum árum síðan 2011 hækkað mat á hlýnun jarðar.
  • Í þessari skýrslu  er kynnt besta mat hingað til á líklegri hlýnun og  hækkun sjávarstöðu í framtíðinni.
  • Í þessari nýjustu skýrslu IPCC er kynnt nýtt hugtak: loftslagstengdir áhrifavaldar (Climatic Impact Drivers; CID) sem hjálpa við að meta áhrif breytinga í eðlisþáttum loftlags (hita, úrkomu, þurrkum, snjó, vindi, strandflóðum o.þ.h.) á samfélög og vistkerfi.
  • Samkvæmt þróaðri reikningum en áður hafa verið tiltækir er áætlað að meira en helmings líkur séu á að hlýnun nái 1.5°C snemma á fjórða áratug þessarar aldar, sem er fyrr en gert var ráð fyrir í sérstakri skýrslu IPCC um 1.5 °C hlýnun sem kom út árið 2018.
  • Í þessari skýrslu er sérstök áhersla lögð á breytingar í hnattrænni hringrás vatns. Skýrslan sýnir að síðan 1950 hafa verið meiri öfgar í ákafri úrkomu og þurrkum og almennt meiri breytileiki í úrkomu víða á jörðinni. Skýrslan sýnir að við áframhaldandi hlýnun má gera ráð fyrir áframhaldandi breytingum á hnattrænni hringrás vatns  , þ.e. að almennt verði meiri uppgufun raka og meiri úrkoma þegar litið er til jarðarinnar allrar þó staðbundið geti þurrkar aukist.
  • Þessi skýrsla sýnir að mögulegt er að takast á við loftmengun og loftslagsbreytingar samtímis. Hraður samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda ásamt stífum vörnum gegn loftmengun bæta bæði loftslag og loftgæði.

Smelltu á myndina til að sjá hana stærri

Mynd a) Breytingar á hnattrænum hita metnar með fornveðurfarsgögnum (heildregin grá lína,1–2000) og á grundvelli mælinga (svört lína, 1850–2020), í báðum tilvikum reiknaðar sem vik frá meðalhita 1850–1900. Skyggða gráa svæðið sýnir óvissu. Lóðrétt súla vinstra megin sýnir meðalhita (mjög líklegt bil) fyrir um 6500 árum, en það var hlýjasta nokkurra alda skeið síðustu 100 þúsund ára.  Síðasta hlýskeið fyrir um 125 þúsund árum var hugsanlega hlýrra. Þessi fyrri hlýskeið stafa af hægfara breytingum á afstöðu sólar og jarðar.

Mynd b) Breytingar ársmeðalhita síðustu 170 árin (svört lína) sem vik frá meðalhita 1850–1900, borin saman við niðurstöður loftslagslíkana í CMIP6 verkefninu, en þar voru mörg loftslagslíkön látin herma breytingar í meðalhita. Myndin ber saman hermireikninga þar sem geislunarálag þróast í samræmi við aukin gróðurhúsaáhrif og náttúrulega þætti (brúnt svæði) og þar sem auknum gróðurhúsaáhrifum er sleppt (blágrænt). Heildregnar litaðar línur sýna meðaltal  líkanreikninga og skyggðu svæðin sýna bilið sem niðurstöður líkananna spanna.

Manneskjan leikur lykilhlutverk

Meginatriði skýrslunnar eru dregin saman í Ágripi fyrir stefnumótendur sem kemur út samhliða skýrslunni. Meðal þeirra og annarra atriða í meginmáli skýrslunnar má nefna:

  • Athafnir manna hafa ótvírætt hitað lofthjúpinn, haf- og landsvæði. Víðtækar og hraðar breytingar í lofthjúpi, hafi, freðhvolfi og í lífríki hafa átt sér stað. Þessar breytingar eru fordæmalausar þegar litið er til síðustu alda og árþúsunda.  
  • Síðustu fjóra áratugi hefur hver áratugur verið hlýrri en allir fyrri áratugir síðan samfelldar mælingar hófust (um 1850). Meðalhiti jarðar fyrstu tvo áratugi þessarar aldar var tæplega 1°C hærri en meðaltal áranna 1850–1900, eða 0.99 [með óvissubili 0.84 til 1.10] °C. Síðasti áratugur var svo enn heitari, eða 1.09 [0.95 til 1.20 ] °C að meðaltali. Til samanburðar má benda á að í Parísarsamkomulaginu skuldbinda aðildarþjóðir Sameinuðu þjóðanna sig til þess að halda hlýnun vel undir 2°C og kanna leiðir til að takmarka hlýnun við 1.5 °C.
  •  Athafnir manna hafa haft áhrif á veðurlag víða í heiminum, s.s. aukna úrkomu og breytingar á úrkomumynstri, þ.m.t. monsún rigningum. Þá eru þurrkar og hitabylgjur algengari og heitari á flestum landsvæðum. Auk þess hafa hitabeltislægðir breyst; fleiri ná nú að verða öflugir fellibylir og ákafari úrkoma fylgir þeim. Áhrif manna hafa líklega gert ýmsa aftakaatburði algengari, s.s. flóð, gróður- og skógarelda.
  •  Aukin gróðurhúsaáhrif verða til þess að varmi safnast upp í loftslagskerfinu. Af þessum varma fór 91% í að hita hafið, en 5% í hlýnun yfirborðs jarðar, 3% í bráðnun íss og einungis 1% fór í að hita andrúmsloftið. Aukin upptaka hafsins á CO2 úr lofthjúpnum sýrir hafið en nánast öruggt er að súrnun sjávar er af mannavöldum.
  •  Jöklar hopa um alla jörðu og stóru ísbreiðurnar á Suðurskautslandi og Grænlandi tapa massa.  Rýrnun ísbreiðanna og jökla utan heimskautasvæða hefur hert mikið á sér á síðustu 30 árum og hefur árlegt massatap margfaldast. Eftirfarandi tafla lýsir þessu nánar.

Tímabil Staður Massatap
(Gt á ári)
1992 -1999 Grænland 39 ± 25
2000 – 2009 Grænland 175 ± 27
2010 – 2019 Grænland 243 ± 28
1992 -1999 Suðurskautslandið 49 ± 31
2000 – 2009 Suðurskautslandið 70 ± 30
2010 – 2019 Suðurskautslandið 148 ± 33
19932 -2019 Allir jöklar utan stóru ísbreiðana 210 ± 50
2000 – 2009 Allir jöklar utan stóru ísbreiðana 240 ± 9
2010 – 2019 Allir jöklar utan stóru ísbreiðana 290 ± 10

Taflan sýnir að rýrnun Grænlandsjökuls hefur sexfaldast á síðustu þremur áratugum og einnig er mikil aukning í massatapi á Suðurskautslandi.

  • Massatap íss á suðurhveli hækkar sjávarborð við Ísland meira en massatap á Grænlandi. Meðalrýrnun allra jökla á jörðinni síðustu 30 árin samsvarar því að Hofsjökull og Langjökull hverfi árlega.
  • Hafísútbreiðsla á Norðurhveli hefur dregist mjög mikið saman. Þó margir ólíkir ferlar komi hér við sögu er ljóst að athafnir mannkyns hafa haft veruleg áhrif um allt freðhvolfið (þ.e. ísa- og snjóasvæði hnattarins). 
  •  Hnattrænt hækkaði sjávarstaða hraðar á síðustu öld en í a.m.k 3000 ár, að meðaltali um 0.2 [0.15 til 0.25] m milli 1901 til 2018. Hraði hækkunarinnar jókst eftir því sem leið á síðustu öld. Að meðaltali var árleg hækkun 1.3 [0.6 til 2.1] mm/ári frá 1901 til 1971 en jókst í 1.9 [0.8 til 2.9] mm/ári milli áranna 1971 til 2006 og jókst aftur í 3.7 [3.2 til 4.2] mm/ári frá 2006 til 2018. Áhrif athafna manna var mjög líklega leiðandi þáttur í þessum breytingum a.m.k. síðan 1971.

Í öllum sviðsmyndum um losun gróðurhúsalofttegunda sem IPCC lagði mat á heldur hnattræn hlýnun áfram að minnsta kosti fram að miðbiki aldarinnar.  


Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu

Efri mynd. Breytingar í hnattrænum meðalhita frá 1850 – 1900  á móti uppsafnaðri losun CO2 (svört lína) á sama tíma. Skyggða gráa svæðið sýnir mat á þeirri hlýnun sem uppsöfnuð losun CO2 er líkleg til að valda. Lituðu svæðin og línurnar sýna sambærilegar niðurstöður fyrir hlýnun og uppsafnaða losun frá 2020 til 2050, fyrir fimm sviðsmyndir um losun gróðurhúsalofftegunda.

Styrkur gróðurhúsaáhrifa er vex með losun og í nafni hverrar sviðsmyndar er tala sem lýsir því hversu mikið þau aukast. Þannig fylgja SSPS5-8.5  meiri gróðurhúsaáhrif og hlýnun en í sviðsmynd SSPS3-7.0 osfrv.  Lituðu svæðin sýna niðurstöður margra loftslagslíkana og litaðar línur sýna meðaltal líkana í hverri sviðsmynd. Myndin sýnir greinilega að hlýnun á tímabilinu  vex í hlutfalli við uppsafnaða losun.

Neðri mynd.  Uppsöfnuð losun CO2 frá 1850 til 2019 og losun hverrar sviðsmyndar á tímabilinu 2020 til 2050. Lárétti ásinn á myndinni er losun CO2 (sjá myndina fyrir ofan) en áratugir (2020, 2030 osfrv) eru merktir inn fyrir hverja sviðsmynd.

Draga þarf verulega úr losun til að ná viðmiðum Parísarsamkomulagsins

Verði ekki gripið til mikils samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda mun að meðaltali hlýna meira en um 1.5 °C og jafnvel 2 °C á öldinni.

  • Í þeirri sviðsmynd þar sem mest er losað nær meðalhlýnun 2 °C fyrir miðbik aldarinnar og gæti orðið á bilinu 3.3 til 5.7 °C í lok aldarinnar.
  • Í þeim sviðsmyndum þar sem gripið er til umfangsmikilla aðgerða til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hlýnar minna, og ólíklegra er að hlýnun fari yfir 2 °C.  Í þeirri sviðsmynd þar sem mest er dregið úr losun stöðvast hækkun hnattræns meðalhita eftir að hlýnun fer nokkuð yfir 1.5 °C. Meðalhitinn fellur svo aftur niður að 1.5 °C  (umfram meðalhitann 1850-1900) fyrir lok aldarinnar. 

Ýmsar raskanir munu verða á veðurlagi samfara hlýnun vegna áframhaldandi losunar gróðurhúsalofttegunda. Sem dæmi má nefna tíðari hitabylgjur og aftakaúrkomu, óvenjuháan sjávarhita, sterkari fellibylji og þurrka.

  • Það er nánast öruggt að hlýnun á landi verður meiri en yfir hafi, og að hlýnun á Norðurskautssvæðinu verður meiri en hnattræn hlýnun.
  • Mjög líklegt er að fyrir miðbik aldarinnar verði Norðuríshafið a.m.k. einu sinni íslaust að mestu að sumarlagi. Hlýnun mun einnig auka bráðnun sífrera og minnka árstíðabundna snjóþekju og rúmmál jökulíss.
  • Nánast öruggt er að sjávarstaða mun áfram hækka. Í þeirri sviðsmynd þar sem mest er losað eru efri mörk hækkunar um 1 m í lok aldarinnar en  1–2 m um miðbik næstu aldar.  Ekki er hægt að útiloka að hækkunin verði mun meiri, allt að 2 m í lok þessarar aldar og 5 m um miðbik þeirrar næstu, því mikil óvissa ríkir um stöðugleika ísbreiða á Grænlandi og Suðurskautslandinu.

  • Ónæg þekking er á hröðum og hugsanlega óafturkræfum breytingum og því er ekki hægt að útiloka breytingar innan loftslagskerfisins sem eru afdrifaríkar en ólíklegar t.d. í hafhringrás og massatapi íshvela.  Líkur á hruni á  ísbreiðum Suðurskautslandsins vaxa með tíma.
  • Mjög líklegt  er að það dragi úr styrk lóðréttrar hringrásar Atlantshafsins á 21. öldinni, en ekki er víst hversu mikið. Miðlungs vissa er fyrir því að hringrásin hrynji ekki, en slíkt myndi hafa mikil svæðisbundin áhrif á veðrakerfi og úrkomu, allt frá kólnun á sumum svæðum og meiri hlýnunar á öðrum og jafnvel til breytinga í monsún kerfum og monsúnúrkomu.
  • Ofangreindar breytingar á einstökum þáttum loftslagskerfisins geta haft afleiðingar á Íslandi. Meðal þess má nefna að hlýnun sífrera í fjöllum og hopi jökla fylgir aukin skriðuhætta, og einnig getur aukin ákefð úrkomu eða rigning í stað snjókomu að vetrarlagi aukið skriðuhættu.
  • Meðal ólíklegra en afdrifaríkra breytinga sem gætu haft mikil áhrif á Íslandi má nefna vaxandi óstöðugleika ísbreiðanna á Suðurskautslandi og Grænlandi, þar sem jöklarnir kelfa í sjó fram. Eins geta  breytingar á hafstraumum á Norður-Atlantshafi orðið afdrifaríkar hér á landi.

Umfang hlýnunar er í beinu hlutfalli við uppsafnaða losun CO2. Því þarf að stöðva losun CO2 svo hlýnun jarðar stöðvist, auk þess sem draga þarf úr losun annarra gróðurhúsalofttegunda.

  • Frá 1850 til 2019 nam losun CO2 með bruna jarðefnaeldsneytis samtals um 2390 +/- 420  GtCO2.  Því fer nærri að hlýnun sé í beinu hlutfalli við uppsafnaða losun. Þetta þýðir að hægt er að meta hversu mikið má losa af CO2  frá 2020 áður en hlýnun verður meiri en kveðið er á um í Parísarsamkomulaginu.  Svarið fer þó nokkuð eftir því hversu örugg við viljum vera að ekki sé farið yfir sé farið yfir 1.5°C eða 2°C mörkin.
  • Ef miða á við góðar líkur á að ekki sé farið yfir þau má losun frá 2020 ekki vera meiri en 300 GtCO2 svo takmarka megi  hlýnun við 1.5 °C en 900  GtCO2 fyrir 2°C hámarkið.  Ef við sættum okkur við helmingslíkur má losun frá 2020 ekki fara yfir  850 GtCO2 fyrir 1.5°C hlýnun og 1350 GtCO2 fyrir 2°C hlýnun. Árleg losun mannkyns er nú tæplega 40 GtCO2 svo einungis örfáir áratugir eru til stefnu.
  • Ljóst er að hlýnun vex með aukinni losun gróðurhúsalofttegunda, en með meiri hlýnun  aukast hnattrænar og svæðisbundnar breytingar á mörgum loftslagstengdum áhrifaþáttum einnig, hugsanlega með mjög skaðlegum afleiðingum, s.s. mun algengari hitabylgjum og aftakaúrkomu með mikilli áhættu fyrir samfélags- og vistkerfi, sérstaklega í þeim sviðsmyndum þar sem mest er losað.

Nánar um IPCC

Á vegum Sameinuðu þjóðanna starfar vísindanefnd sem fjallar um loftslagsbreytingar. Á ensku heitir nefndin Intergovernmental Panel on Climate Change, sem er skammstafað IPCC, en á íslensku er nefndin kölluð Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Nefndin hefur það hlutverk að taka saman vísindalegar, tæknilegar, félags- og efnahagslegar upplýsingar um loftslagsbreytingar af mannavöldum. Úttektir nefndarinnar fjalla um vísindalega þekkingu á loftslagsbreytingum af mannavöldum, um afleiðingar þessara breytinga og um aðlögun og viðbrögð til þess að sporna við þessum breytingum.

Úttektir milliríkjanefndarinnar eru gerðar á opinn og gagnsæjan hátt. IPCC stundar hvorki rannsóknir né eftirlit með veðurfari heldur eru samantektir nefndarinnar að mestu byggðar á faglegri ritrýni og á greinum sem birtar hafa verið í ritrýndum tímaritum. Ritraðir með úttektarskýrslum á vegum nefndarinnar komu út 1990, 1995, 2001, 2007, 2013–2014, en auk þess hafa verið gefnar út sérstakar skýrslur, t.d. um 1.5°C hlýnun árið 2018 og um Hafið og freðhvolfið (e: cryosphere) árið 2019.  Nú er verið að leggja lokahönd á 6. ritröð úttektarskýrslna (Assessment Report 6 eða AR6) og skilar vinnuhópur 1 af sér skýrslu sem kynnt verður á mánudag. 

Enskur titill skýrslunnar er: Climate Change 2021: The Physical Science Basis. Til aðgreiningar frá skýrslum annarra vinnuhópa (sem skila af sér síðar) er nafn þessarar skýrslu oft stytt í AR6-WG1.

Úttektir nefndarinnar eru unnar af þremur mismunandi vinnuhópum. Vinnuhópur 1 (WG1) fjallar um jarð- og náttúruvísindi og vísindalega þekkingu á veðurfari og loftslagsbreytingum. Vinnuhópur 2 (WG2) leggur mat á tjónnæmi (e. vulnerability) félags-, efnahags- og náttúrulegra kerfa, neikvæðar og jákvæðar afleiðingar loftslagsbreytinga og möguleika á aðlögun. Vinnuhópur 3 (WG3) leggur mat á leiðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og á aðrar leiðir til að koma í veg fyrir loftslagsbreytingar.

Milliríkjanefnd SÞ um loftslagsbreytingar hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 2007.


 


Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica