Loftþrýstingur á Íslandi frá 1800

Trausti Jónsson 24.1.2007

Mikill munur er almennt á veðri í lægðum og hæðum, úrkoma er oftast fylgifiskur lægða en bjart veður fylgir fremur hæðum.

Meðalloftþrýstingur ársins segir nokkuð um hvort hefur betur, Íslandslægðin svonefnda, sem hefur aðsetur suðvestur af landinu, eða hæðin yfir austanverðu Grænlandi.

Mjög miklar og mikilvægar upplýsingar liggja í langtímaloftþrýstimælingum þótt túlkun sé ekki alltaf auðveld.

línurit
Mynd 1. Meðalloftþrýstingur ársins í Reykjavík/Stykkishólmi.

Mynd 1 sýnir meðalloftþrýsting ársins á Suðvesturlandi frá því snemma á 19. öld. Línuritið er mjög óreglulegt og hefur einkenni slembiþýðis úr máldreifingu. Það þýðir á mannamáli að þrýstingur næst meðaltalinu sé algengastur, en ár með meiri frávikum komi á tilviljanakenndu stangli allt tímabilið.

Sé hins vegar farið nánar í saumana á ferlinum má taka eftir að tímabilaskipti eru talsverð þó heildarleitni sé ekki marktæk (liggur aðeins niður á við).

Þrýstingur var ívið meiri á 19. öld en á þeirri 20., þrýstingur hafísáranna er einnig heldur meiri en tímans fyrir og eftir.

Þetta eru svipuð einkenni og koma fram á línuritinu sem sýndi hitamun Grímseyjar og Vestmannaeyja.

Aftur upp

NAO talan

Myndin sýnir einnig í stórum dráttum breytileika svokallaðrar NAO-tölu. NAO-talan mælir styrk vestanátta yfir Norður-Atlantshafi. Hún er há þegar þrýstimunur er mikill milli Íslands og Asóreyja, en lág ef munurinn er lítill. Munurinn er mikill sé þrýstingur á Íslandi lágur.

NAO-talan var mjög há á lágþrýstiskeiðunum sem merkt eru á myndinni og þeim skeiðum þar sem bláa (síaða línan) liggur neðarlega í myndinni.

Árin kringum 1990 skera sig talsvert úr, svo er lágt skeið viðloðandi fyrstu 20 ár 20. aldar, nema að það er rofið á einkennilegan hátt á árunum 1915 til 1919.

Þrýstifallið frá því um 1970 til 1990 olli miklum umræðum og vildu margir tengja það hnattrænum veðurfarsbreytingum af manna völdum. Þrýstingur hefur hækkað aftur eftir það, en reyndar er hann enn nokkuð lágur í heildarsamhenginu.

Samband (ekki sýnt hér) reynist á milli meðalvindhraða og þrýstiflökts frá degi til dags, auk þess sem það er að jafnaði meira þegar þrýstingur er lágur en þegar háþrýstingur ríkir. Flöktið var óvenjumikið um 1990 (þegar þrýstingur var lágur).

Eins og sjá má er ekki augljóst samband á milli ársmeðalhita og þrýstiflökts. Veður er oftast rólegt í miklum háþrýstingi en honum getur fylgt bæði hlýtt og kalt veður. Í lágþrýstingi er algengara að hiti sé nærri meðallagi.

Samband er milli NAO-tölunnar og þrýstiflökts við Ísland.

línurit
Mynd 2. Þrýstiflökt frá degi til dags í Reykjavík/Stykkishólmi. Ársmeðaltöl.

 

 

 


Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica