Hitabreytingar á Íslandi samanborið við nágrannalöndin

línurit
Mynd 1. Hitafar í Stykkishólmi og á Vestur-Grænlandi 1800-2000. 11-ára keðjumeðaltöl.

Trausti Jónsson 26.1.2007

Blái ferillinn á mynd 1 sýnir 11-ára keðjumeðaltöl hita í Stykkishólmi og er því afbrigði af mynd 1 í greininni Hitafar á Íslandi eftir 1800.

Við sjáum hlýskeið 19. og 20. aldar, kuldaskeið þeirrar síðarnefndu og byrjun á einhverju sem gæti verið hlýskeið 21. aldar (eða eitthvað annað).

Á Vestur-Grænlandi koma sömu einkenni fram, áratugasveiflurnar eru þó stærri. Sérstaklega er áberandi að kuldakast 20. aldarinnar hélt þar áfram lengur en hér á landi.

Hnattræn hlýnun virðist vera að koma fram hér á landi, en náttúrulegar sveiflur eru þó það miklar að það er alveg á mörkunum að marktækt sé að fullyrða að undirliggjandi hækkun eigi sér stað síðustu 150 árin eða svo.

Hlýnun síðasta áratuginn á Grænlandi er ótrúleg, 11 ára meðaltölin hafa hækkað um meir en 2°C.

Hér á landi er hlýnun yfir aðeins lengra tímabil rúm 1°C.

Á Grænlandi eru náttúrulegu sveiflurnar það stórar að þær geta yfirgnæft umtalsverða hnattræna hlýnun enn frekar en hér á landi.

Hlýindaskeiðið var ekki jafn eindregið í Vardö í Norður-Noregi og hér á landi (mynd 2), byrjaði hægar og lauk líka hægar. Hlýnunin síðustu ár er eindregin.

línurit
Mynd 2. Hitasveiflur í Stykkishólmi og í Vardö í Norður-Noregi. Upplýsingar um hita í Vardö má m.a. finna á síðu norræna NARP verkefnisins auk nýrri upplýsinga frá Öyvind Nordli hjá met.no.
Aftur upp
línurit
Mynd 3. Hitasveiflur í Stykkishólmi og í Mið-Englandi (samsett röð). Mið-Englandshiti á síðu Hadley rannsóknamiðstöðvarinnar.

Á Englandi sést 20. aldar hlýskeiðið vel, en það sker sig lítið út frá eldri sveiflum. Þar má einnig tala um kuldaskeið eftir 1960, en eftir 1980 fór mjög að hlýna. Hlýnunin síðan er mjög svipuð og hér á landi. Tökum þó eftir því að vegna hins litla náttúrulega breytileika á Englandi er 1°C hlýnun mun marktækari en á Íslandi og Grænlandi.

Sá er munur á nýja hlýskeiðinu og þeim eldri að það tekur til miklu stærra svæðis, meginhluta jarðar.

 


Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica