2008

Haf- og borgarístilkynningar 2008

Hér eru í tímaröð tilkynningar frá skipum um borgarísjaka ásamt upplýsingum um hafís frá Veðurstofu Íslands og úr ískönnunarflugi Landhelgisgæslunnar. Nýjustu tilkynningarnar eru efst.

Tilkynningar í tímaröð

23-12-2008 Frá Veðurstofu Íslands

Næstu daga munu sunnan- og suðvestanáttir verða ríkjandi og því ljóst að ísinn mun færast nær landi á næstunni þar sem spár benda sérstaklega til þess að suðvestanáttin verði hvöss á köflum. Lítið hefur borist af upplýsingum um hafís undanfarna daga, en þann 21. desember var ísinn skv. gervitunglagögnum um 75 sjómílur vestur af Barða. Nánari fréttir af hafís verða birtar um leið og gögn berast.

18-12-2008 kl. 00:40 Tilkynning um hafís frá skipi

Erum staddi á 65°53N og 29°17V og mikill hafís er á svæðinu.

10-12-2008 Upplýsingar um hafís frá Veðurstofunni

Á gervihnattamynd frá því í gær (9.des. kl. 12:29) má sjá að hafísröndin var næst landi um 25 sjómílur norður af Horni. Stakir jakar og rastir geta verið nær landi og sjófarendur því beðnir að fara að öllu með gát. Lægðir verða nærgöngular næstu daga og ekki er útlit fyrir að ísinn muni færast nær landi að svo stöddu.

 

03-12-2008 Upplýsingar um hafís frá Veðurstofunni

Á gervihnattamynd frá því í gærkvöldi (2.des. kl. 22:45) sést að hafísröndin er um 50 til 55 sml frá Barða.  Stakir jakar og rastir geta verið nær landi og sjófarendur því beðnir að fara að öllu með gát.  Norðaustanátt verður ríkjandi á Grænlandssundi fram á sunnudag, en útlitið eftir það er fremur óljóst.  Nýjustu spár benda þó til að að norðaustanáttin ráði áfram ríkjum á Grænlandssundi eftir helgi.

 

 

02-12-2008 Upplýsingar um hafís frá Veðurstofunni

Á gervihnattamynd frá því í gær 1. desember kl. 13:40 sést hafísinn ágætlega.  Hafísröndin er u.þ.b. 50 sml vestur til vestnorðvestur af Vestfjörðum.  Norðaustanátt verður ríkjandi á Grænlandssundi fram á sunnudag og hafísinn gæti því eitthvað fjarlægst landið.  Í byrjun næstu viku er búist við að vindur verði vestlægur á Grænlandssundi.

Sjófarendur eru beðnir um að fara að öllu með gát því stakir jakar og rastir geta verið nær landi en sést á gervihnattamyndinni.

 

01-12-2008 Upplýsingar um hafís frá Veðurstofunni

Gervihnattamyndin hér að neðan er samsett úr tveimur myndum frá því í gær 30.11.08 (rauði liturinn) og í dag 01.12.08 (sægrænn litur). Hafísinn er næst landi tæpar 50 sml frá Barða og hefur því lítið hreyfst úr stað frá því í síðustu viku.  Fram á sunnudag verður norðaustanátt ríkjandi á Grænlandssundi því má búast við að hafísinn fjarlægist eitthvað landið. 

Sjófarendur eru beðnir um að fara að öllu með gát því stakir jakar og rastir geta verið nær landi en sést á gervihnattamyndinni.

 

26-11-2008 Upplýsingar um hafís frá Veðurstofunni

Á gervihnattamynd frá því kl. 13:46 í dag þá sést að hafísröndin er á svipuðum slóðum og hún hefur verið undanfarna daga, þ.e. ísröndin er næst landi tæplega 50 sml frá Barða. Nokkuð erfitt er að greina hafísröndina að hluta til á myndinni vegna skýjahulu, en það er ólíklegt að þéttur hafís sé nær landi en rauða línan sýnir.   Þrátt fyrir þetta eru sjófarendur beðnir um að fara að öllu með gát því stakir jakar og rastir geta verið nær landi en sést á gervihnattamyndinni.

 

Fram á sunnudag verður norðan- og norðaustanátt á Grænlandssund og því ætti hafísröndin að þokast nær Grænlandi.  Frá sunnudegi og fram eftir næstu viku verða breytilegar áttir á Grænlandssundi.

 

24-11-2008 kl. 16:11 Skip

Komum að miklum hafís á 68°N og 24°23V. Silgdum í vestur með ísnum að stað 68°N 24°39V.  Frá þeim stað með ísröndinni að stað 67°33N 24°27V.  Frá þeim stað liggur ísinn í suðvestur.

 

24-11-2008 Upplýsingar um hafís frá Veðurstofunni

Á gervihnattamyndinni hér að neðan sem er frá því í gær, 23. nóvember þá sést að hafísinn var næst landi u.þ.b. 45 sml frá Barða. Fram á miðvikudag verður vestanátt á þessum slóðum og því má búast við að ísröndin færist nær landi.  Á miðvikudaginn snýst vindur í norðan- og norðaustanátt og verður sú vindátt ríkjandi fram yfir helgi.  Þá mun ísröndin fjarlægjast landið. 

Sjófarendur eru beðnir um að fara að öllu með gát, en stakir jakar og rastir geta verið út fyrir hafísröndina sem teiknuð er á gervihnattamyndina. 

 

 

23-11-2008 kl. 15:00 Skip

Komum að ísrönd á 66°31N og 26°20V. Ísröndin lá frá norðvestri til suðausturs.  Við silgdum meðfram ísröndinni í 120° að 66°23N og 25°57V.

 

22-11-2008 kl.09:00 Skip

Vorum í krapa (pönnukökuís) á 66°24N og 27°30V og röndin sást vel í radar 2 sml norðar. 

Kl. 09:00 vorum við í smá jökum (jakahröngli) á 66°12N og 27°30V ísrönd 1 sml fyrir austan okkur.

 

21-11-2008 Tilkynningar um hafís frá skipi

Urðum varir við ís á 66°18N og 25°30V snemma í morgun.

 

21-11-2008 Upplýsingar um hafís frá Veðurstofunni

Á gervihnattamyndum frá því í gær 20. nóvember sést að ísinn er um 55 sml frá Barða.  Í dag (21. nóvember) er austanátt á þessum slóðum og því hefur ísinn að öllum líkindum ekki færst nær.  Breytileg átt verður um helgina á Grænlandssundi, vestanátt á morgun og norðanátt á sunnudag.  Frá mánudegi til miðvikudags í næstu viku verður vestlæg átt ríkjandi og þá má búast við að hafísinn færist eitthvað nær landi. 

Eins og ávallt eru sjófarendur beðnir um að fara að öllu með gát. Einnig er rétt að hafa í huga að gervihnattamyndin hér að neðan gefur hugmynd um hafísröndina, en stakar jakir og rastir geta verið út fyrir hafísröndina sem teiknuð er inn á myndina.

 

 

19-11-2008 Upplýsingar um hafís frá Veðurstofunni

Á gervihnattamyndum frá 19. nóvember sést að hafís er um 50 sjómílur frá Straumnesi.

Fram yfir helgi verður vestlæg átt ríkjandi að mestu leiti á Grænlandssundi og því mun ísinn færast enn nær landi.  Reikna má með að stakir jakar og rastir komi inn á Vestfjarðamið á næstunni og jafnvel nokkuð þéttur ís.

Sjávarhitinn á þessum slóðum er um 4°-5°C og því má búast við að ís bráðni frekar hægt. 

Eins og ávallt eru sjófarendur beðnir um að fara að öllu með gát.  Einnig er rétt að hafa í huga að gervihnattamyndin hér að neðan gefur hugmynd um hafísröndina, en stakar jakir og rastir geta verið út fyrir hafísröndina sem teiknuð er inn á myndina. 

 

14-11-08 Upplýsingar um hafís frá Veðurstofu Íslands

Á myndinni hér að neðan má sjá upplýsingar um hafís frá norsku veðurstofunni frá því í dag 14. nóvember. Þar má sjá að hafísinn er nokkuð langt frá landi.  Frá og með aðfaranótt sunnudagsins (16. nóvember) snýst vindur á Grænlandssundi í suðvestanátt og veslægar áttir verða ríkjandi á þeim slóðum fram eftir næstu viku.  Hafísinn mun því að öllum líkindum færast meira inn á Grænlandssund og þokast nær landi.

 

 

03-11-08 Upplýsingar um hafís frá Veðurstofu Íslands

Á gervihnattamyndum frá því á laugardaginn (1. nóvember 2008) sést að staka jaka og rastir er að finna um 50 sjómílur vestnorðvestur frá Barða, en þéttari hafís er að sjá um 75 sjómílur norðvestur af Horni.  Vestlæg átt hefur verið ríkjandi síðan á laugardaginn og næsta sólarhringinn verður suðvestlæg átt ríkjandi á Grænlandssundi og því getur hafísinn færst enn nær landi.  Annað kvöld (þ.e. 4. nóvember) snýst vindur í austlæga átt, sem verður ríkjandi fram yfir helgi.  Við þessar breytingar má gera ráð fyrir að hafísinn hreyfist til vesturs og muni fjarlægjast landið.

Eins og fyrri daginn er rétt að hafa í huga að gervihnattamyndin hér að neðan gefur hugmynd um hafísröndina, en staka jaka og rastir getur verið að finna fyrir utan þá hafísrönd sem teiknuð er inn á myndina (græn lína). 

     

 

31-10-08 Upplýsingar um hafís frá Veðurstofu Íslands

Á gervihnattamyndum frá því í gær (30. október 2008 kl. 13:55), sést að hafís er að finna á Grænlandssundi í rúmlega 70 sjómílna fjarlægð frá Barða. Hvöss vestlæg átt mun ríkja næstu daga og hrekja ísjaðarinn nær landi. Eru sjófarendur því beðnir um að fara að öllu með gát. Rétt er að hafa í huga að gervihnattamyndin hér að neðan gefur hugmynd um hafísröndina en staka jaka og rastir getur verið að finna fyrir utan þá hafísrönd sem teiknuð er inn á myndina.

 

 

27-10-08 Upplýsingar um hafís frá Veðurstofu Íslands

Á gervihnattamyndum frá því í gær (26. október 2008) kl. 14:10, sést að hafísinn á Grænlandssund hefur færst heldur nær landinu. Hafísinn er nú næst landi um 160 km vestnorðvestur af Vestfjörðum.  Næstu daga verður vestlæg átt ríkjandi á Grænlandssundi fyrir utan skammvinna norðanátt á miðvikudaginn.  Frá og með fimmtudegi og fram yfir helgi er reiknað með að vestanáttin verði nokkuð hvöss.  Hafísinn mun því færast nær Íslandi. 

Eins og ávallt eru sjófarendur beðnir um að fara að öllu með gát.  Einnig er rétt a ðhafa í huga að gervihnattamyndin hér að neðan gefur hugmynd um hafísröndina en stakir jakar og rastir geta verið út fyrir hafísröndina sem teiknuð er inn á myndina.

 

 

 

22-10-08 Upplýsingar um hafís frá Veðurstofu Íslands

Á gervihnattamyndum frá því 21. október sést að hafís er kominn inn á norðanvert Grænlandssund, eða suður af Scorebysundi austur af Blosseville strönd Grænlands. Þetta er heldur meiri hafís á þessu svæði, en í meðalári í október. Undanfarna daga hefur hafísinn verið að færast suður á bóginn og má búast við að sú þróun haldi áfram. Fram að helgi er spáð norðlægum áttum á Grænlandssundi, en um helgina eru líkur á að vindátt verði vestlæg. Þá má gera ráð fyrir að ísinn færist eitthvað nær Íslandi. Rétt er að geta þess að hafísröndin var 21. október u.þ.b. 190 km norðnorðvestur af Vestfjörðum.

Eins og ávallt eru sjófarendur beðnir um að fara að öllu með gát. Einnig er rétt að hafa í huga að gervihnattamyndin hér að neðan gefur hugmynd um hafísröndina, en stakar jakar og rastir geta verið út fyrir hafísröndina sem teiknuð er inn á myndina.

09-10-08 kl. 15:40 Skip

Skip tilkynnti um hugsanlegan borgarís sem sást í radar. Staðsetning 67°24,5N og 25°41,0V.

26-08-08 kl. 12:00 Skip

Skip tilkynnti borgarís á 65°31,3' N og 27°46,6' V. Borgarísjakinn hreyfist til suðvesturs uþb. 1 hnút. Borgarísjakinn virtist vera á lokastigi og var hyrndur.

26-06-2008 Tilkynning frá Veðurstofu Íslands

MODIS myndin hér að ofan er tekin af gervihnettinum Terra sem er í eigu bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA. Myndin kann að virðast undarleg á að líta, en um er að ræða litasamsetningu þriggja ólíkra rása. Fær hver rás sitt litróf og úr verða oft litríkar myndir sem hægt er að nýta við greiningu á ýmsum fyrirbærum sem finnast í lofthjúpi jarðar, sem og á yfirborði. Þannig er allur ís rauðleitur í myndinni, Grænlandsjökull og Langjökull koma vel fram í myndinni með blóðrauðum lit. Yfir Suðurlandi sjást ský sem eru því sem næst appelsínugul. Þar er um að ræða háreist skúraský, með toppum í frostköldu umhverfi og þar af leiðandi einhverju magni af ískristöllum. Hafísinn sést einnig nokkuð vel og er að sjá að jaðar íssvæðisins sé næst landi um 56 sjómílur VNV af Straumnesi. Ísinn virðist nokkuð gisinn. Spár gera ráð fyrir ríkjandi norðaustanáttum næstu dagana og því ekki líklegt að hafísinn komi nær landi meðan að svo á stendur.

22-06-2008 Tilkynning frá Veðurstofu Íslands

Á gervihnattamyndinni hér að ofan má vel greina staðsetningu hafíss á Grænlandssundi. Um er að ræða svokallaða MODIS mynd (250 metra upplausn) úr gervitunglinu Aqua sem er í eigu bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA. Af myndinni má ráða að meginísröndin er næst landi í tæplega 70 sjómílna fjarlægð frá Straumnesi. Ekki er hægt að útiloka að ísdreifar og borgarísjaka sé að finna nær landi, en slík fyrirbæri koma ekki vel fram í slíkum gervihnattamyndum nema að stærð þeirra og umfang sé a.m.k. af svipaðri stærðargráðu og upplausn myndarinnar.

Vestan og norðvestanátt mun ríkja á Grænlandssundi fram á miðvikudag og því getur ísinn færst nær landi, en á fimmtudag og föstudag er útlit fyrir norðlægar áttir sem mun þá væntanlega hrekja ísinn til vesturs og frá landi. 

18-06-2008 Landhelgisgæslan

Miðvikudaginn 18. júní 2008 fór flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SYN í ískönnunarflug úti fyrir Vestfjörðum. Var ísröndin næst landi um 70 sjómílur NNV frá Straumsnesi og 77 sjómílur NV frá Barða. Mikið var um ísdreifar út frá ísröndinni. Sjá nánar skýrslu Landhelgisgæslunnar 18-06-2008 (pdf 0,09 Mb) og meðfylgjandi hafískort (pdf 0,3 Mb).

12-06-2008 Tilkynning frá Veðurstofu Íslands

Gisinn hafís er nú vestur af Vestfjörðum, næst landi u.þ.b. 75 sml vestnorðvestur af Barði. Vindátt hefur verið vestlæg á Grænlandssundi síðan á þriðjudag (9. júní) og verður svo fram á sunnudag. Hafísinn mun því færist eitthvað nær landi og eru sjófarendur beðnir um að fara að öllu með gát. Á sunnudaginn lítur út fyrir að vindur snúist í austan og norðaustanátt á Grænlandssundi og þá mun ísinn þokast vestur á bóginn.

Gervihnattamyndin hér að neðan gefur hugmynd um hafísröndina, en rétt er að hafa í huga að skýjað er á svæðinu og því geta stakir jakar og rastir verið nær landi en sést á myndinni.

03-06-2008 kl. 15:36 Skip

Staddir á 66°53.30N og 024°22.22V. Sjáum á radar mikla ísrönd í stefnu norðaustur og suðvestur. Erum í svarta þoku.

29-05-2008 Landhelgisgæslan

Fimmtudaginn 29. maí 2008 fór flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SYN í ískönnunarflug úti fyrir Vestfjörðum. Ísröndin út af Vestfjörðum lág um eftirtalda staði:

1. 66°36N - 025°14V

2. 67°14N - 023°02V

3. 67°42N - 023°03V

4. 67°52N - 022°12V

5. 68°08N - 021°35V

6. 68°N - 020°45V

7. 68°12N - 021°23V

8. 68°42N - 019°24V

Þéttleiki íss innan við röndina var víðast 4-7/10.

26-02-2008 Landhelgisgæslan

Þriðjudaginn 26. febrúar 2008 fór flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SYN í ískönnunarflug úti fyrir Vestfjörðum. Sjá skýrslu 26-02-2008 (pdf 0,02 Mb).

25-02-2008 kl. 16:18 Skip

Staddir á 66°49N og 029°V. Höfum verið í gisnum í síðan við komum inn í landhelgina og ís framundan í austur eins langt og við sjáum.

24-02-2008 kl. 21:30 Skip

Kom að ís á stað 66°23.87N 20°45.60V ,austasti staður, liggur þaðan í c.a. 205° að 66°21.73N 20°29V beygir þar í 225°, 66°21.06N 20°52.93V ,syðsti hluti, þaðan virðist brúnin liggja í 290°, talsvert af lausum jökum þar SV af. Ís á 66°21.40N 21°04V beygir í 250° suður að 66°19.80N og 21°14.0V, þaðan í 66°20.20N 21°16.80V, þaðan liggur brúnin í 350°, síðasti staður 66°21.9N 21°19.0V, þaðan virðist brúnin liggja í há norður. Stakir jakar sunnan við þetta frá fyrsta stað að 66°20.20N og 21°16.80V eftir það hreint utan við spöngina. Telur að ísinn hafi farið 15 sml síðan í morgun, segir þetta 13 sml á breidd.

24-02-2008 kl. 08:45 Skip

Komum inn í ís á 66°31N 21°19V þegar komið var að 66°35N 21°14 var ísinn orðinn það þéttur að hann er erfiður skipum. Komnir vestur úr ísnum á 66°34N 21°22V. Sést vel í radar.

21-02-2008 tilkynning frá Veðurstofu Íslands

Gisinn hafís er skammt norður og norðaustur af Horni, um 15 sml frá Kögri og Horni. Einnig er gisinn ís um 25 sml norðvestur af Straumnesi. Næstu daga er búist við hægri vestlægri átt á þessu svæði og má því gera ráð fyrir að ísinn þokist nær landi og geti verið varasamur fyrir sjófarendur. Á mánudag er búist við austanátt og þá er útlit fyrir að hafísinn færist fjær landi.

18-02-2008 Landhelgisgæslan

Mánudaginn 18. febrúar 2008 fór flugvél Landhelgisgæslunnar í ískönnunarflug úti fyrir Vestfjörðum og Norðurlandi. Sjá skýrslu 18-02-2008 (pdf 0,05 Mb).

04-02-2008 Landhelgisgæslan

Mánudaginn 4. febrúar 2008 fór flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SYN í ískönnunarflug úti fyrir vestfjörðum. Sjá skýrslu Landhelgisgæslunnar 04-02-2008 (pdf 0,02 Mb).

04-02-2008 kl. 13:00 Skip

Sjáum borgarísjaka á stað 57°58.9N og 38°35.7V, rekur í suðsuðaustur á 0,5 mílna hraða. Lengd jakans u.þ.b. 170 metrar.

Sjáum borgarísjaka á stað 57°58.5N og 38°39.0V, rekur í suðsuðaustur á 0,5 mílna hraða. Lendgd jakans u.þ.b. 50 metrar.

04-02-2008 kl. 10:00 Skip

Sáum borgarísjaka á stað 57°35.6N og 39°09.3V, rekur í suðvestur á 0,5 mílna hraða, lengd jakans u.þ.b. 200 metrar.

20-01-2008 kl. 16:07 Skip

Komum að ísrönd á 67°00N 25°10V og liggur um eftirfarandi punkta.

67°04N 25°08V

67°09N 25°08V

67°12N 25°08V og liggur þaðan í NA.

19-01-2008 kl. 22:22 Skip

Vorum í ís á 66°04N 29°03V.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica