Hafís í Dýrafirði í lok janúar 2007.
Frá Hólum í Dýrafirði 27. janúar 2007.

„Hafís við strendur Íslands“

Tímarit með yfirliti um hafísupplýsingar

Trausti Jónsson 26.5.2016

Veðurstofan gaf út tímaritið Hafís við strendur Íslands frá 1971 til 2003 en það veitti reglubundið yfirlit um ástand hafíss ásamt ágripi á ensku.

Að útgáfunni stóðu þeir Eiríkur Sigurðsson og Þór Jakobsson veðurfræðingar á Hafísrannsóknadeild ásamt Hlyni Sigtryggssyni veðurstofustjóra.

Þeim til aðstoðar voru í gegnum tíðina Sigrún Sigurðardóttir landfræðingur, Jóhanna Linnet tækniteiknari, Ólafur Ingibergsson myndlistarmaður, Ingibjörg Jónsdóttir landfræðingur, Signý Ingadóttir, Bryndís Eva Jónsdóttir og eflaust fleiri.

Formáli að því eintaki sem kom út árið 1982 hljómar svo:

Skýrsla þessi hefur að geyma upplýsingar um hafís við strendur Íslands [...] Upplýsingarnar eru fólgnar í hafískortum Landhelgisgæslu Íslands og yfirliti um hvern mánuð. Við samningu mánaðaryfirlitanna, sem mörg hver hafa áður birst í Veðráttunni, hefur verið stuðst við ísflug Landhelgisgæslu og tilkynningar frá skipum og strandstöðvum. Ágrip á ensku [...].

Sjálfar hafístilkynningarnar [...] eru geymdar í gagnasafni Veðurstofu Íslands og aðgengilegar öllum, sem þurfa, við úrlausn sérverkefna.

Hafístákn eru skilgreind á kortunum. Þess ber að gæta, að hafískortin sýna einungis hafís á því svæði, sem kannað var hinn tiltekna dag.

Formáli að því eintaki sem kom út árið 1985 gaf yfirlit yfir söguna:

Vegna tíðra fyrirspurna er ástæða til að gera hér grein fyrir fyrri skýrslum um hafís við strendur landsins, en þær hafa birst með nokkuð ólíkum hætti.

Upplýsingar um hafís fyrr á tímum er fyrst og fremst að finna í bók Þorvaldar Thoroddsen „Árferði á Íslandi í þúsund ár“. Þar er kafli um hafís frá landnámi til ársins 1915.

Í „Veðráttunni“, mánaðaryfirliti Veðurstofu Íslands um veðurfar á Íslandi, hefur allt frá og með árinu 1925 birst stutt yfirlit um hafís við strendur landsins.

Jón Eyþórsson skrifaði skýrslur um tímabilið 1953 - 1966 og birti í tímaritinu Jökli en Hlynur Sigtryggsson gerði grein fyrir árinu 1967 og Flosi Hrafn Sigurðsson árinu 1968.

Eiríkur Sigurðsson samdi yfirlitsskýrslur um hafís við strendur Íslands á tímabilinu október 1968 til september 1971 (3 bindi). Það voru fyrstu skýrslurnar sem Veðurstofan gaf út með heitinu „Hafís við strendur Íslands“. Skýrsla um hafís á þriggja ára tímabilinu október 1971 til september 1974 mun koma út síðar [kom út 2003], en yfirlit um hafís frá hausti 1974 til hausts 1980 kom út í tveimur heftum árið 1982 (Þór Jakobsson).

Síðasta tímabilið, sem ritröðin fjallaði um, var lýsing á hafís frá október 1993 til september 1996.

Elstu hafískortin

Um kort sem sýna hafísútbreiðslu 1887 - 1968 er fjallað í annarri fróðleiksgrein.

Um hafís á vef Veðurstofunnar

Hér á vef Veðurstofunnar má finna mánaðaryfirlit hafíss frá 1999 til 2011, eldri hafístilkynningar frá 1998 til 2011, eldri ískort Landhelgisgæslunnar frá 1998 til 2011 og skýrslur úr ískönnunarflugi Landhelgisgæslunnar frá 2007 til 2014.

Árið 2011 var skipt um vinnulag á vefnum og hafístilkynningar eru nú settar jafnóðum á vefinn af sólarhringsvakt Eftirlits- og spásviðs.

Til baka


Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica