hafís á loftmynd
Hafís 16. mars 2005.

Myndun hafíss

Þór Jakobsson 20.12.2006

Sjávarvatn frýs með nokkrum öðrum hætti en ferskt vatn. Þegar ferskt vatn kólnar eykst þéttleiki þess þar til hitinn hefur lækkað í 4 stig á Celsius. Kólni það meira minnkar hins vegar þéttleikinn nokkuð. Þess vegna er vatn við frostmark dálítið léttara en vatn sem er fjögurra stiga heitt.

Ímyndum okkur djúpt stöðuvatn sem er vel yfir fjögurra stiga heitt. Kólnun við yfirborð veldur því að yfirborðsvatnið sekkur og í stað þess stígur upp örlítið hlýrra vatn að neðan. Það kólnar líka og sekkur og sagan endurtekur sig. Hringrásin helst þar til stöðuvatnið hefur kólnað niður í 4 stig.

Kólni síðan yfirborðsvatnið enn frekar verður það léttara en heitara vatnið fyrir neðan og getur því ekki sokkið. Það kólnar hratt að frostmarki og ís byrjar að myndast.

Rennandi vatn blandast svo hratt og vel með hjálp hvirfla og iðukasta að vatnið allt verður að kólna niður í frostmark áður en það tekur að frjósa. Þess vegna leggur alla jafna seinna þar sem vatnið streymir en á lygnum stöðum.

Áhrif seltunnar í sjónum

Seltan í sjónum veldur því að frostmarkið er lægra en í fersku vatni. Seltan hefur líka þau áhrif að þéttleikinn eykst stöðugt þar til vatnið hefur kólnað niður í frostmarkið, þ.e.a.s. sé seltan meiri en 25 hundraðshlutar, eins og raunar er í sjónum.

Yfirborðslag í hafinu, með sömu seltuna niður í gegn, verður þess vegna að kólna niður að frostmarki í heild sinni áður en ís nær að myndast í yfirborði.

Þykkt eða dýpi þessa yfirborðslags mótast af því hve djúpt er niður á seltumeiri og þar með þyngri sjó. Þar myndast eins konar gólf sem kólnandi sjórinn að ofan stöðvast á. Hann sekkur ekki dýpra og heldur áfram að blandast vatni í yfirborðslaginu öllu.

Aftur upp

Ískristallar

Til að ís myndist þarf einungis efsta sjávarlagið að kólna niður í frostmarkið. Iðustreymi upp og niður í þessu yfirborðslagi hrærir í því en lagið nær niður að skörpum þéttleikamörkum á um það bil 100 – 150 metra dýpi.

Hafísinn er myndaður úr hreinum ískristöllum sem umlykja fjölda örsmárra holrýma. Þau eru full af saltvatni og er því óráð að bræða tiltölulega nýmyndaðan hafís í því augnamiði að svala þorsta sínum.

Á sléttum sjó er fyrsti ísinn sem myndast á yfirborðinu örþunn skán stakra ískristalla sem eru upphaflega í laginu eins og agnarlitlir fljótandi diskar með þvermál minna en 2 – 3 mm.

Hver og einn diskur stækkar og víkkar smám saman. Hann verður brátt óstöðugur og kristallarnir taka á sig stjörnulaga mynd með löngum, brothættum örmum sem teygja sig út eftir yfirborði sjávarins.

Ísarmar þessir eða þræðir taka að brotna og úr verður hrærigrautur diska og armabrota. Við minnsta iðustreymi í sjávaryfirborði bresta brotin enn frekar og úr verða alla vega lagaðir kristallar sem mynda nú æ þéttara íslag sem kallast svifís. Svifísinn er ísnálar og litlar ísþynnur sem mara í kafi.

Ísinn eldist og þykknar

Í kyrru veðri frjósa ískristallar svifíssins saman og mynda þá samfellt skæni á hafinu. Þá dempast allra minnstu óróaöldur eða gárur á yfirborðinu. Skænið liggur eins og þunnt þelgrátt teppi yfir sjónum sem bylgjast hægt og mjúklega undir. Er það fögur sjón yfir að líta þeim sem lánast að vera vitni að.

Fyrst er ísinn hálfgegnsær en hann þykknar smám saman og verður nokkurra sentímetra þykkur, gránar og hvítnar. Svifís breytist þannig í krap.

Á næsta þróunarstigi rifnar og molnar skænið fyrir tilstilli vinda og öldugangs. Úr verða óregluleg brot í sífelldum árekstrum sín á milli sem um síðir höggva þannig til brotin og slípa kantana að þau verða meira eða minna hringlaga. Íslummur, einnig nefndar íspönnukökur, myndast. Íslummur eru litlar ísflögur, kringlóttar að mestu og íhvolfar, 20 – 30 sm í þvermál og um 30 sm á þykkt.

Aftur upp

Lagnaðarís myndast

Haldi áfram að frjósa verður ísinn smám saman samfelldur og kallast hann þá nýlegur lagnaðarís. Þykkt hans er á bilinu 5 til 15 sm.  Ferlið getur gengið hratt og leggur stundum stór hafsvæði í Grænlandshafi á skömmum tíma, svo sem á nokkrum sólarhringum. Þannig fer að leggja á haustin en um veturinn þykknar ísinn enn og kallast þá vetrarís eða einær ís. Þykktin er mjög breytileg, eða frá 15 sm upp í tvo metra. 

 Í fimbulkulda Norður-Íshafs endist ísinn þótt hlýni ögn á sumrin og verður hann margra ára, fjölær, og mjög þykkur um síðir, meira en tveggja metra. Straumar bera hann út um svonefnt Framsund milli Norðaustur-Grænlands og Spitsbergen (sem Norðmenn kalla Svalbarða) og blandast þessi fjölæri ís vetrarísnum í Grænlandssundi milli Austur-Grænlands og Íslands. 

Hafísinn er því misþykkur. Fer þykktin helst eftir aldri íssins en ólík vaxtarskilyrði og umhverfi á þróunarskeiði ráða einnig miklu um þykktina. 

Ísrek

Nýlegur ísflöturinn helst ekki lengi sléttur og felldur á reginhafi, straumar og vindar ýfa, ýta og bylta um í sífellu ísnum til og frá. Ísreki er lýst með ýmsum  hætti. 

Lýsa má með tilliti til íshulu og þéttleika. Þá er metið í tíunduhlutum hve mikið af hafinu er þakið ís og kallað jakastangl, gisið ísrek, þétt eða samfellt. Mest er þegar jakarnar eru samfrosta, hafþök af ís.

Útlit hafísbreiðu, stundum nefnt skipulag, er fjölbreytilegt. Ísjaðar nefnast ystu mörk ísbreiðu. Eru þau stundum nokkuð skörp án jaka á stangli meðfram jaðrinum en oft eru mörkin svo gisin að talað er um ísjaðarsvæði.

Sé hafísjaðarinn bugðóttur myndast mislangar tungur en milli þeirra eru vogar eða bugir. Stundum verður tunga viðskila við jaðarinn og siglir sinn sjó. Spildur myndast, ísbelti og spangir. Inni á sjálfri ísbreiðunni eru vakir, stórar eða litlar.

 Við árekstur ísfláka, sem skella saman fyrir tilstilli strauma og vinda, myndast hrannir, íshryggir og kilir. Þá er jakastærð misjöfn og volk og veðrun eykur á fjölbreytileika yfirborðsins.

Borgarís

Hinn tignarlegi borgarís við strendur Íslands er allt annarrar gerðar en hinn venjulegi lagnaðarís úr Grænlandssundi sem myndast hefur á sjó. Borgarís hefur brotnað úr skriðjöklum Austur-Grænlands sem náð hafa að skríða í sjó fram.  

Aftur upp

 

 



Til baka


Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica