Skriðuföll

Skriðuföll

mynd/photo

Berghlaup í Öskju 21. júlí 2014. Ljósmynd: Sveinn Brynjólfsson.

Skriðuföll (e. Landslides) er safnheiti sem notað er um efnisflutnings- og landmótunarferli sem verða í misbröttum og misháum hlíðum. Efnisflutningarnir eiga sér stað af ýmsum ástæðum t.d. vegna vatnsrennslis við miklar rigningar og leysingar en frostvirkni og frostveðrunum geta einnig átt sinn þátt, auk eldvirkni og jarðskjálfta. Skriðuföll af völdum eldgosa geta verið breytileg að stærð, allt frá 0,1 km3 upp í meira en 100 km3.

Mögulegar orsakir skriðufalla í tengslum við eldfjallavá:

  • Kvikuinnskot í eldfjallið
  • Sprengigos
  • Jarðskjálfti eða jarðskjálftahrina undir eða í nágrenni eldstöðvarinnar
  • Mikil uppsöfnuð úrkoma eða úrkomuákefð sem mettar jarðveg eða öskurík jarðlög
  • Mikil jarðhitavirkni eða aukin tímabundin virkni

Skriðuföll geta líka átt sér stað í megineldstöðvum þar sem eldsumbrot koma ekki beint við sögu. Sem dæmi má taka berghlaupið í Öskju árið 2014 en hlaupið er afleiðing af myndun öskjunnar sem hófst í kjölfar eldsumbrotana árið 1875. Skriða þessi er talin vera eitt stærsta berghlaup á sögulegum tíma á Íslandi sem tengja má við megineldstöð.

Lesa má meira um þetta berghlaup á:

http://www.vedur.is/ofanflod/frodleikur/greinar/nr/2927

http://www.vedur.is/um-vi/frettir/nr/2928

Eðjuflóð (e. Lahar)

Eðjuflóð er sérstök tegund skriðufalla sem innihalda vatn, gjósku og bergbrot og eiga sér stað í nánasta nágrenni við megineldstöðvar. Eðjuflóð myndast gjarnan í gjóskuríkum eldgosum eða skömmu eftir goslok og geta hæglega orðið langvarandi vandamál. Orðið Lahar er komið af indónesískum uppruna og lýsir orðið blöndu af heitu eða köldu vatni þar sem ægir saman bergbrotum, gjósku, jarðvegi og mold sem æðir niður hlíðar eldfjallanna. Stærð, hraði og magn efnis í eðjuflóðum getur breyst snögglega á leiðinni niður á láglendi. Eðjuflóðin geta byrjað sem lítil saklaus flóð en geta sótt í sig mikinn massa á leiðinni niður fjallshlíðarnar, þar sem vatnsmettuð gjóska er gjarnan auðrjúfanleg. Ef massinn er nógu mikill getur skriðþunginn og hraðinn orðið nægilega mikill til að eðjuflóðin geti hrifsað með sér brýr, byggingar eða önnur mannvirki og þar með valdið stórfelldu tjóni.

Eitt frægasta dæmi um hamfarir af völdum eðjuflóða varð í kjölfar eldgossins í Pinutubo árið 1991, sjá https://pubs.usgs.gov/fs/1997/fs114-97/

Annað dæmi er eðjuflóðið í Nevado del Ruiz í Kólumbíu árið 1985 sem olli gríðarlega miklu tjóni.

http://volcano.oregonstate.edu/nevado-del-ruiz

Þekktasta eðjuflóðið á Íslandi var í tengslum við eldgosið í Eyjafjallajökli árið 2010. 




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica