Gasmengun

Gasmengun

Holhraun-gas
Gas stígur upp frá gígnum í Holuhrauni 21. janúar 2015. Ljósmynd: Oddur Sigurðsson.

Gaslosun er einn helsti drifkraftur kviku í eldgosum þar sem gas í kviku hækkar flot kvikunar og kemur henni upp á yfirborðið. Þegar kvika kemst til yfirborðs losnar gasið úr henni og myndar gasmengun. Eldfjallagös geta líka losnað úr læðingi þó að eldgos verði ekki, en þá eimast þau úr storknandi kviku á yfirborði eða í kvikuhólfi eldfjallsins. Gasmengun eldfjalla er mismunandi og fer að mestu eftir efnasamsetningu kvikunnar og getur því verið misjöfn eftir eldstöðvakerfum. Þessi mismunur gerir vöktun á gasmengun oft erfiða viðfangs.

Algengustu lofttegundirnar sem losna út frá kvikunni eru vatn (H2O), vetni (H2), koltvíoxíð (CO2), kolmónoxíð (CO), brennisteinsvetni (H2S) og brennisteinstvíoxíð (SO2); magn þessara lofttegunda getur náð tugum hundraðshluta af rúmtaki gassins (mól%). Aðrar algengar loftegundir eru brennisteinn (S2), metangas (CH4), klórsýra (HCl) og flúorsýra (HF), en þessar tegundir eru yfirleitt langt undir einum hundraðshluta af rúmtakinu.

Loftegundir
Aðalefni Snefilefni
H2O H2SO4
H2 HCl
H2S Hf
CO2 COS
CO SiF4
CH4 NH4
SO2 N2
S2 Ar

Á vef Umhverfistofnunar eru upplýsingar um loftgæði og gasmengun.

Gasvöktun Veðurstofunnar vaktar aðalgösin CO2, SO2 og H2S en þau finnast almennt í nógu háum styrk svo unnt sé að vakta þau á sjálfvirkan máta. Sérstaklega er fylgst með losun brennisteinstvíoxíðs (SO2) þar sem styrkur þess margfaldast þar sem kvika er grunnt undir jarðskorpunni. Reglubundnar mælingar eru einnig gerðar á þeim eldvirku svæðum þar sem sjálfvirk vöktun er ekki til staðar og eru þá sýni tekin og fleiri gastegundir greindar.

CO2 - Koltvíoxíð (Koltvísýringur)

Koltvíoxíð er lyktar- og litlaus gastegund sem er algeng í eldgosum og nemur um 0,04% af andrúmslofti jarðar. Eldfjöll losa að meðaltali u.þ.b. 180–440 milljón tonn af CO2 í andrúmsloftið á ári en það þynnist fljótt út með dreifingu um andrúmsloftið. Í nægilegu magni veldur koltvíoxíð því að lungu hætta að virka og getur því valdið súrefnisskorti. Kalt CO2-gas er eðlisþyngra en andrúmsloftið sjálft og hefur því tilhneigingu til þess að flæða í skurði, kjallara og aðra mögulega staði með lágu yfirborði og getur staðnæmst þar í miklu magni og skapað hættu fyrir menn og dýr.

Frekari upplýsingar um koltvíoxíð er að finna á vefsíðu the International Volcanic Health Hazard Network, IVHHN.

SO2 - Brennisteinstvíoxíð

Brennisteinstvíoxið er litlaust með sterka lykt og getur ert slímhúð í nefi, munni, hálsi og augum ásamt því að erta húð. Við háan styrk getur það reynst bannvænt lífverum. Mikil losun SO2 getur valdið súru regni og mengun undan vindi frá eldfjalli eða öðrum upprunastað gassins. Í stórum eldgosum kemst brennisteinstvíoxíðið upp í heiðhvolfið þar sem það getur breyst í súlfat-úða (e. Sulfate aerosol) sem hindrar innkomu sólarljóss til jarðar og hefur því kælandi áhrif á loftslag.

Frekari upplýsingar um brennisteinstvíoxíð er að finna á síðu IVHHN.
.

H2S - Brennisteinsvetni

Brennisteinsvetni er litlaust og eldfimt gas með mjög sterka lykt. Lyktinni af þessari loftegund hefur oft verið líkt við lykt af fúleggi og er hún algeng í nágrenni hverasvæða hér á landi. Brennisteinsvetni er ekki jafn skaðlegt við lágan styrk og brennisteinstvíoxíð en ef styrkurinn eykst getur það verið skaðlegt heilsu og jafnvel bannvænt. Helst ertir það augu, lungu og öndunarveg.

Frekari upplýsingar um brennisteinsvetni er að finna á síðu IVHHN.

Nánari upplýsingar:




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica