Gjóskustraumar

Gjóskustraumar (eldský)

Gjóskustraumar (e: pyroclastic density currents) eru heit flóð gosefna og kvikugasa sem flætt geta á miklum hraða niður hlíðar eldfjalla í sprengigosum. Í flestum tilfellum rís gosmökkur marga kílómetra yfir eldstöð af því að eðlisþyngd hans er lægri en andrúmsloftsins í umhverfinu. Að lokum breiðist hann út og myndar kúf og askan í mekkinum dreifist með vindi. Hins vegar, ef mökkurinn nær ekki að draga inn í sig nægilega mikið loft og hita, getur það gerst að eðlisþyngd hans verði meiri en andrúmsloftsins umhverfis. Þá fellur mökkurinn til jarðar fyrir áhrif þyngdaraflsins og gjóskustraumar myndast. Þeir geta einnig myndast þegar hraungúll hrynur og myndar heita skriðu sem fer niður hlíðar eldfjallsins.

Gjóskustraumar eru myndaðir úr gjósku (eldfjallaösku, gjalli, vikri, bergbrotum og jafnvel kvikuslettum) og heitum loftegundum. Gjóskan og lofttegundirnar blandast saman og verða að heildstæðum massa með eiginleika vökva sem runnið getur eftir yfirborði jarðar. Gjóskustraumar geta verið mjög heitir og farið mjög hratt yfir. Hitinn skýrist af því að gjóskan, bergbrotin og lofttegundirnar hafa ekki tapað nema litlum hluta varma síns til andrúmsloftsins þegar straumurinn verður til, en hitinn getur verið er á bilinu 100 til 800°C. Gjóskustrauma má flokka í tvennt eftir því hver þéttleiki þeirra er: gjóskuflóð og gusthlaup (enska: pyroclastic flow og pyroclastic surge). Ef mikið er af föstum gosefnum í mekkinum verður til gjóskuflóð en ef magn fastra gosefna er lítið miðað við lofttegundirnar verður til gusthlaup. Gjóskuflóð geta flætt á nokkur hundruð kílómetra hraða á klukkustund en gusthlaup fara mun hægar. Gjóskuflóð og gusthlaup eru stundum nefnd einu nafni eldský.

Gjóskuflóð

Kvika sem kemur upp í sprengigosum er oftast rík af kvikugösum (lofttegundum), sem hafa saman hita og hin fljótandi kvika. Að stórum hluta er gasið vatnsgufa. Mun meira er yfirleitt af kvikugösum í kísilríkri kviku en basískri og því er algengara að gjóskuflóð myndist í súrum og ísúrum eldgosum. Þó eru þekkt gjóskuflóð sem myndast hafa í basískum eldgosum. Til dæmis mynduðust basísk gjóskuflóð í upphafi Heklugossins 2000.

Gjóskuflóð verða einkum með tvennum hætti:

  • Gosmökkur fellur saman í sprengigosi. Þetta gerist ef hann nær ekki að draga inn í sig nægilegt loft til að verða eðlisléttari en andrúmsloftið. Þetta gerist einkum í mjög stórum gosum.
  • Hraungúll fellur saman og hrynur niður bratta brekku vegna þyngdaraflsins.

Gjóskuflóð eyðileggja allt sem verður á vegi þeirra og hitinn veldur því að fólk og dýr deyja. Þessi flóð geta runnið á ógurlegum hraða og eru mjög heit.

Gusthlaup

Gusthlaup eru algengari en gjóskuflóð og oftast minni. Ef þau eru heit eru þau ekki síður banvæn en gjóskuflóð. Það var gusthlaup sem olli dauða 29.000 íbúa borgarinnar St. Pierre á eyjunni Martinique í Karíbahafi árið 1902. Gusthlaup sem ná 1-2 km frá gosstöð verða í svo til öllum tætigosum, en þau verða þar sem vatn og kvika blandast saman. Slík gos eru algeng hér á landi s.s. í Grímsvötnum, Kötlu og gosum í sjó eins og þegar Surtsey myndaðist. Þessi gusthlaup eru mun kaldari en í öðrum sprengigosum vegna kælingaráhrifa utanaðkomandi vatns.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica