Vöktunarkerfi vegna flóða og hlaupa

Vöktunarkerfi vegna flóða og hlaupa

Þróað hefur verið viðvörunarkerfi til að fylgjast með fyrirboðum um hlaup og mæla hlaup og flóð sem ýmist eiga upptök sín í eldstöðvum og jarðhitakerfum undir jökli, eða stafa af leysingum, miklum rigningum og jakastíflum. Kerfið á rætur að rekja til Skeiðarárhlaups 1996. Í upphafi var fylgst með Skeiðará, Skaftá, Jökulsá á Fjöllum, Kreppu og Skjálfandafljóti frá Vatnajökli. Eftir umbrot undir Mýrdalsjökli sumarið 1999 og hlaup í Jökulsá á Sólheimasandi var viðvörunarkerfi komið upp í ám sem koma frá Mýrdals- og Eyjafjallajökli. Í kjölfar flóða víða um land í desember 2006 var ráðist í uppsetningu sérstakra flóðamæla til að fylgjast með og vara við rigningum og leysingarflóðum, jafnframt því sem nokkrir eldri mælar fengu nýtt og aukið hlutverk.

Viðvörunarkerfið er samsett af mælistöðvum staðsettum við ár sunnan og norðan Mýrdalsjökuls og Vatnajökuls. Gögn frá þeim eru aðgengileg á vefnum. Í hverri mælistöð er rafrænt skráningartæki, þrýstiskynjari til að mæla vatnshæð og skynjari fyrir rafleiðni og vatnshita. Einnig er í stöðinni sólarrafhlaða sem sér henni fyrir orku og sími og mótald til gagnaflutnings. Viðvaranirnar byggja á því að ef leiðni eða vatnshæð fara yfir fyrirfram ákveðin mörk hringir mælirinn í sérstakan vaktsíma Veðurstofu Íslands. Starfsmaður á vakt kallar út sérfræðing til að meta ástandið og ákveða viðbrögð.

Hægt er að skoða upplýsingar frá mælistöðvunum með því að tengjast gagnaþjóni Veðurstofu Íslands og skoða vöktunarkerfi flóða. Athugið að gögnin berast frá sjálfvirku mælakerfi. Þau eru óyfirfarin og Veðurstofan tekur ekki ábyrgð á notkun þeirra.

Hlaup og flóð undan jökli

Í mælistöðvum þar sem hætta er á flóðum, þ.e. jarðhitasvæðum eða eldvirkum svæðum undir jökli, eru tæki til að mæla hita og rafleiðni vatns auk vatnshæðar. Þegar hlutfall jarðhitavatns í jökulvatni hækkar eykst rafleiðni þess vegna aukins styrks jóna í vatninu. Áður en eldgos hefjast eykst oft gasútstreymi og jarðhitavirkni í grennd við eldstöðvarnar. Menn vonast því til að fá viðvörun vegna eldgoss undir jökli með því að fylgjast með leiðni vatnsins sem rennur undan jöklinum. Á þennan hátt má einnig sjá undanfara venjulegra Skeiðarárhlaupa.

Hlaup og flóð vegna leysinga og jakastíflna

Mælar sem hafa það hlutverk að vara við flóðum af völdum leysinga og mikilla rigninga eru yfirleitt staðsettir ofarlega á vatnasviðum. Þeir gefa viðvörun þegar vatnshæð fer yfir skilgreind viðmiðunarmörk og í kjölfarið er fylgt ákveðinni viðbragðsáætlun og áætlun um upplýsingagjöf til almennings og stjórnvalda.

Á flóðasléttunum eru mælar sem skrá vatnsborð á hverjum tíma. Með landlíkani má áætla stærð flóða út frá vatnshæð og auðvelda kortlagningu flóða á láglendi, jafnframt því að fylgst er með hvenær ár flæða yfir bakka sína og vatn fer að flæmast um. Flóðamælar hafa verið settir upp á Suðurlandi, í Borgarfirði, Eyjafirði og Skjálfandafljóti auk þess sem eldri mælar í Skagafirði og við Lagarfljót gegna sama hlutverki.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica