Arctic Hydra

Arctic HYDRA

Veðurfar og vatnafar á Norðurskautssvæðinu gegnir veigamiklu hlutverki í loftslagi Jarðar og brýnt er að fylgjast náið með hinum öru breytingum, sem þar eiga sér stað í hlýnandi loftslagi. Á undanförnum áratugum hefur hlýnun mælst meiri á Norðurskautssvæðinu en annars staðar á Jörðinni og talið er að frekari hlýnun á þessari öld geti raskað viðkvæmu jafnvægi loftslags, ferskvatns, hafstrauma og freðhvolfs á þessum slóðum.

Arctic-HYDRA áætlunin er samstarfsnet vísindamanna og rannsóknastofnana, sem miðar að rannsóknum á hringrás vatns á Norðurslóðum með öflugri gagnasöfnun og líkangerð. Stefnt er að beitingu nýrrar tækni við úrvinnslu mæligagna og þróun veður- og vatnafræðilegra líkana svo unnt verði að setja fram heildræna, samþætta lýsingu á þessari hringrás.

Vísindaleg markmið Arctic HYDRA áætlunarinnar eru þessi helst:

  • að greina breytileika vatnshringrásarinnar á Norðurskautssvæðinu
  • að rannsaka samband loftslagsþróunar og afrennslis frá meginlöndunum til Norður-Íshafsins
  • að kanna gögn um áhrif úrkomu- og afrennslisbreytinga á lagskiptingu og hafstrauma í Norður-Íshafinu
  • að rekja samband milli einstakra þátta vatnshringrásarinnar og núverandi breytinga á landi, höfum, ís og í andrúmslofti, auk könnunar á ytri áhrifum á þessa þætti
  • að greina í rauntíma breytingar sem nú eiga sér stað í vatnshringrás Norðurskautssvæðisins og setja þær í sögulegt samhengi


Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica