Íslensk eldfjöll
drangajökull, kort
Drangajökull, útlínur með örnefnum. Breytt gervitungamynd: Oddur Sigurðsson.

Kortlagning Drangajökuls

Drangajökull er fimmti stærsti jökull landsins en hefur þó lítt verið kannaður. Hann er að ýmsu leyti frábrugðinn öðrum jöklum. Saga hans er þó allvel þekkt þar sem hann olli nokkrum búsifjum á harðindatímabilinu sem kennt er við litlu ísöld.

Snælína er mun lægra yfir sjó á Drangajökli en annars staðar á landinu. Þrír helstu skriðjöklar jökulsins, Kaldalónsjökull, Leirufjarðarjökull og Reykjarfjarðarjökull, eru framhlaupsjöklar. Þeir ljúka framhlaupi sínu á um það bil fimm árum en flestir aðrir slíkir jöklar hérlendis ryðjast fram á örfáum mánuðum. Þar sem fjöll eru ekki há á Vestfjörðum sýnir tilvera jökulsins að þar er loftslag kaldara og úrkomusamara en annars staðar á landinu svo um munar. Það segir og mikla sögu að ekki skuli vera jökull sunnan við Ísafjarðardjúp þótt þar sé land nokkru hærra en á Drangajökli.

Yfirborð jökulsins var kortlagt í apríl 2005 í samstarfi Vatnamælinga Orkustofnunar (nú Veðurstofu Íslands), Orkubús Vestfjarða og Jarðfræðistofnunar Bandaríkjanna (USGS), og má sjá útkomuna í formi líkans á myndinni hér fyrir neðan (væntanleg). Jökullinn spannar litlu minna hæðarbil en Hofsjökull og Langjökull en er mun lægri. Líkanið af yfirborði jökulsins hefur verið notað í samstarfi við Geimferðastofnun Bandaríkjanna (NASA) og USGS til að kanna nákvæmni landhæðarmælinga með leysigeisla frá gervihnettinum ICESat.

Jafnframt kortlagningu var afkoma jökulsins mæld í fyrsta sinn árið 2005 og hefur þeim mælingum síðan verið haldið áfram vor og haust í samstarfi við Orkubú Vestfjarða. Vetrarúrkoma á efstu bungum (800-900 m y.s.) er álíka og í 1.800 m y.s. á Hofsjökli. Drangajökull virðist ekki fara jafn halloka fyrir heimshlýnun undanfarinna ára eins og aðrir jöklar landsins.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica