Greinar
endur í vatni
Straumendur. Laxá við Mývatn 26. apríl 2012.

Má bjóða þér vatn?

Röð hádegisfyrirlestra árið 2012

4.11.2012

Umhverfisráðuneytið, Umhverfisstofnun, Veðurstofa Íslands, Landgræðsla ríkisins og Íslenska vatnafræðinefndin efna til hádegisfyrirlestra undir yfirskriftinni "Má bjóða þér vatn?" en aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Ræddar eru staðreyndir um vatnsauðlindina og sjónum beint að því hversu margbreytilegu hlutverki vatnið gegnir fyrir mann og náttúru.

Vatn í tónlist og myndlist - Þjóðminjasafninu 7. nóvember

Vatn í listum er viðfangsefni hádegisfyrirlestrar í Þjóðminjasafninu, miðvikudaginn 7. nóvember kl. 12:10. Þar mun Halldór Björn Runólfsson, safnstjóri Listasafns Íslands, fjalla um vatn í myndlist og Karólína Eiríksdóttir tónskáld fjalla um vatn í tónlist.

Vatn hefur ekki eingöngu hagnýtt gildi fyrir manninn heldur hefur það verið listamönnum innblástur í gegnum tíðina. Þannig er vatn algengt viðfangsefni myndlistarmanna og heilu tónverkin hafa verið samin um vatn.

Á fyrirlestrinum verða sýndar myndir af listaverkum þar sem vatn kemur við sögu og tóndæmi leikin.

Fyrirlesturinn hefst kl. 12:10 og áætlað að hann standi til kl. 13:00.

Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir.

Erindið er hið síðasta í röð hádegisfyrirlestra sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Umhverfisstofnun, Veðurstofa Íslands, Landgræðsla ríkisins og Íslenska vatnafræðinefndin halda í tilefni af evrópsku ári vatnsins.

Vatnavá - hættumat, eftirlit, viðvaranir - Þjóðminjasafninu 3. október

Matthews J. Roberts og Emmanuel P. Pagneux frá Veðurstofu Íslands fjalla um Vatnavá á Íslandi: hættumat, eftirlit og viðvaranir, miðvikudaginn 3. október. Fyrirlesturinn er sá fjórði í röð hádegisfyrirlestra um vatn sem umhverfisráðuneytið, Landgræðsla ríkisins, Umhverfisstofnun, Veðurstofa Íslands og Vatnafræðinefndin standa fyrir í tilefni af evrópsku ári vatnsins.

Að þessu sinni verða erindin flutt á ensku. Þau hefjast kl. 12:10 á Þjóðminjasafni Íslands og þeim lýkur kl. 13:00. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.

Vatnsnotkun Íslendinga í brennidepli - Þjóðminjasafninu 5. september

Sóa Íslendingar vatni? Þetta er yfirskrift fyrirlesturs sem Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, heldur í Þjóðminjasafninu miðvikudaginn 5. september. Fyrirlesturinn er sá þriðji í röð hádegisfyrirlestra um vatn sem umhverfisráðuneytið, Landgræðsla ríkisins, Umhverfisstofnun, Veðurstofa Íslands og Vatnafræðinefndin efna til í tilefni af evrópsku ári vatnsins.

Í fyrirlestrinum fjallar Kristín Linda um vatnsnotkun Íslendinga og félagsleg og menningarleg áhrif vatns á Íslandi. Íslendingar eru meðal vatnsauðugustu þjóða sem endurspeglast í umgengni þeirra um vatn. Þá hefur vatn ýmis áhrif á samfélag okkar og menningu; þannig njótum við þess að hafa einstaklega gott aðgengi að almenningssundlaugum, þvottar eru ekki tiltökumál hérlendis og rennandi neysluvatn úr krana þykja sjálfsögð gæði í daglegu lífi. Erum við að sóa vatni eða er þetta eðlileg notkun á óþrjótandi gæðum?

Fyrirlesturinn hefst kl. 12:10 og lýkur kl. 13:00. Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir.

Vatnsmiðlun og lífið - Þjóðminjasafninu 7. júní

Ólafur Arnalds, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, fjallar um samspil vatns og jarðvegs í hádegisfyrirlestri í Þjóðminjasafninu 7. júní kl. 12:10.

Mold er mikilvægur liður í hringrás vatnsins á jörðinni. Jarðvegsvernd er því sérlega þýðingarmikil en Íslendingar eru komnir skammt á þeirri braut að huga að mold í tengslum við vatnsvernd.

Fyrirlesturinn er annar fyrirlesturinn í röð ofangreindra hádegisfyrirlestra. Að þessu sinni er umfjöllunarefnið tileinkað alþjóðlegum degi jarðvegsverndar, sem er 17. júní næstkomandi.

Að loknu erindi gefst tími til umræðna en fyrirlestrinum lýkur fyrir kl. 13:00. Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir.

Fyrirlesarar 2. maí 2012 - Norræna húsinu

Fyrstu erindin voru flutt í Norræna húsinu miðvikudaginn 2. maí 2012 en fjallað var um vatnsauðlindina á Íslandi og aðgang að vatni á heimsvísu:

Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, flutti erindið Vatnsauðlindir Íslands. Hann fjallaði um stærð vatnsauðlindarinnar og eiginleika, nýtingu hennar til neyslu, iðnaðar og orkuframleiðslu, gildi hennar sem hluti mikilvægra vistkerfa og áhrif loftslagsbreytinga á vatnsauðlindina.

Bjarni Gíslason, upplýsingafulltrúi Hjálparstarfs kirkjunnar, flutti erindi undir yfirskriftinni Afríka - nóg vatn en samt ekki. Hann sagði m.a. frá nýjum fréttum af því að víða í Afríku er mikið grunnvatn en þó hafa 300 milljónir manna þar ekki aðgang að hreinu vatni. Sömuleiðis deilir hann sinni eigin upplifun af vatnsauðlindinni í Afríku eftir að hafa búið í Eþíópíu í 18 ár.

Ljósmyndasýning í strætóskýlum

Umhverfisráðuneytið, Umhverfisstofnun, Veðurstofa Íslands, Landgræðsla ríkisins og Íslenska vatnafræðinefndin stóðu, ásamt Félagi íslenskra samtímaljósmyndara, að ljósmyndasýningu í tilefni af evrópsku ári vatnsins: Í maí voru veggspjöld sett upp í strætóskýlum víðs vegar um höfuðborgarsvæðið og á þeim var að finna staðreyndir um vatnsauðlindina, sem beindu sjónum að því hversu margbreytilegu hlutverki vatnið gegnir fyrir mann og náttúru.

Væntanlegir fyrirlestrar

Ofangreind erindi eru þau fyrstu í röð hádegisfyrirlestra sem efnt er til í tilefni af evrópsku ári vatnsins. Í þeim verður fjallað um vatn frá ólíkum sjónarhornum og er gert ráð fyrir að þau verði með reglulegu millibili út árið. Verða erindin auglýst sérstaklega þegar þar að kemur.

Að loknum erindum gefst tími til spurninga og umræðna.

Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica