Kortlagning flóðafara
Í kjölfar flóða í desember 2006 var Vatnamælingum falið af stjórnvöldum að kortleggja flóðamörk á helstu flóðasvæðunum. Jafnframt var þess óskað að lagt yrði mat á flóðahæð eldri flóða, en allmörg flóð eru þekkt frá síðustu öld. Talið var nauðsynlegt að byggja upp gagnabanka um slík flóð sem skilaði sér sem grunnur fyrir ákvarðanir og lagasmíð.
Á árinu 2007 kortlögðu sérfræðingar Vatnamælinga flóðför á vatnasviðum Ölfusár og Hvítár í Árnessýslu, Hvítár í Borgarfirði, Héraðsvatna í Skagafirði og Djúpadalsá í Eyjafirði, auk þess sem ummerkin við Skjálfandafljót voru athuguð. Flóðförin voru rakin, hælar voru settir niður á mikilvægum stöðum og hæð þeirra mæld inn með nákvæmum GPS-tækjum. Þessar upplýsingar voru settar inn á nákvæm myndkort með aðstoð landupplýsingakerfa, en einnig var notast við myndir sem teknar voru í flóðinu sem og upplýsingar frá landeigendum.