Vikulegt jarðskjálftayfirlit

Jarðskjálftavirkni á öllu landinu er lýst í vikuyfirliti sem birt er á vefnum. Náttúruvársérfræðingur á vakt skrifar vikuyfirlitið sem birt er á þriðjudögum. Þar er farið yfir virkni vikunnar á öllum jarðskjálftasvæðum og í eldstöðvarkerfum á landinu. Ef jarðskjálftahrinur eru í gangi, stærri skjálftar eða aðrir markverðir atburðir hafa orðið í vikunni er fjallað sérstaklega um það.

Vikuyfirlit

Skjálftavirkni 9.-15. janúar, vika 2, 2023

Skjálftavirkni vikunnar

Rúmlega 240 skjálftar mældust á SIL mælakerfi Veðurstofunnar í liðinni viku og hafa allir verið yfirfarnir. Þetta eru aðeins færri skjálftar en í vikunni á undan, en þá mældust um 350 skjálftar. Mest virkni var við Reykjanestá, í Mýrdalsjökli og á Grímseyjarbrotabeltinu. Stærstu skjálftar vikunnar mældust 2,8 og 2,9 á Kolbeinseyjarhrygg en annars mældist skjálfti við Kleifarvatn sá stærsti á landi 2,8 að stærð þann 11. janúar. Virkni við Grjótárvatn hélt áfram í vikunni. Áhugaverður skjálfti mældist langt úti fyrir Langanesi og var 3,5 að stærð þann 10. janúar sl. Enginn skjálfti mældist í Heklu.

Nánar má skoða yfirfarna skjálfta í Skjálfta-Lísu vefsjánni

Suðurland

Dreifð virkni var á Suðurlandi þessa vikuna. Alls mældust tæplega 50 skjálftar, allt frá Hellisheiðarvirkjun að Vatnafjöllum, í austri. Á Hengilssvæðinu var virkni í Húsmúla, í Grændal og við Nesjavelli. Nokkur virkni var á ýmsum sprungum á Suðurlandsbrotabeltinu og tveir smáskjálftar mældust í og við Vatnafjöll. Enginn skjálfti mældist í Heklu.

Reykjanesskagi

Á Reykjanesskaganum mældist svipuð virkni miðað við vikuna á undan. Alls mældust um 80 skjálftar. Stærsti skjálftinn varð í Kleifarvatni, 2,8 að stærð 11. janúar kl. 03:16. Átta skjálftar mældust austan Kleifarvatns, í Brennisteinsfjöllum og Bláfjöllum. Að öðru leyti var virknin dreifð um skagann, mest þó á Kleifarvatnssvæðinu og við Fagradalsfjall.

Áfram mældist virkni á Reykjaneshrygg, mest næst landi. Skjálftarnir mældust allir litlir, undir 2,5 að stærð. Þá mældist lítil hrina við Reykjanestá 14. janúar, mældist stærsti skjálftinn 2,2 að stærð.

Norðurland

Á Tjörnesbrotabeltinu mældust rúmlega 30 skjálftar, heldur færri en í liðinni viku. Flestir eru á Grímseyjarbrotabeltinu, en nokkur virkni var einnig á Húsavíkur-Flateyjar misgenginu og í Eyjafjarðarál. Allir mældust skjálftarnir undir 2 að stærð. Aðeins mældust sex skjálftar á norðurhluta Norðurgosbeltisins, allir í Kröflu. Tveir skjálftar mældust langt úti á Kolbeinseyjarhrygg 14. janúar og mældust 2,8 og 2,9 að stærð. Áhugaverður skjálfti í Skagafirði, 2,1 að stærð þann 15. janúar rétt vestan við fjallið Glóðafeyki.

Hálendið

Tæplega 30 skjálftar mældust á hálendinu, helmingi færri en í síðustu viku. Skjálftarnir eru nokkuð dreifðir um vestanverðan Vatnajökul en fjórir skjálftar mældust í Bárðarbungu og einn á djúpa svæðinu austan hennar. Einn skjálfti mældist við Hamarinn og tveir í hlíðum Öræfajökuls. Einn skjálfti mældist í grennd við Grímsvötn. Einnig mældist einn skjálfti við Þumalinn. Í Öskju og við Herðurbreið mældust rúmlega 10 skjálftar, allir undir 2 að stærð. Einn skjálfti mældist við Holuhraun. Einn skjálfti mældist við Þórisjökul 14. janúar, en engin frekari virkni hefur mælst í kjölfarið.

Mýrdalsjökull

Svipuð virkni mældist í Mýrdalsjökli þessa vikuna, alls 29 skjálftar samanborið við 24 skjálfta vikuna á undan. Skjálftarnir eru staðsettir á dreifðu svæði innan Kötluöskjunnar og allir minni en 2,5. Þá mældust fimm á Torfajökulssvæðinu, sá stærsti 2,3 þann 13. janúar.

Vesturland

Áframhaldandi virkni við Grjótárvatn á Mýrum en þar mældust 6 skjálftar í vikunni. Allir undir tveimur að stærð.
Skjálftalisti - Viku 02, 2023


Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica