Vikulegt jarðskjálftayfirlit

Jarðskjálftavirkni á öllu landinu er lýst í vikuyfirliti sem birt er á vefnum. Náttúruvársérfræðingur á vakt skrifar vikuyfirlitið sem birt er á þriðjudögum. Þar er farið yfir virkni vikunnar á öllum jarðskjálftasvæðum og í eldstöðvarkerfum á landinu. Ef jarðskjálftahrinur eru í gangi, stærri skjálftar eða aðrir markverðir atburðir hafa orðið í vikunni er fjallað sérstaklega um það.

Vikuyfirlit

Skjálftavirkni 8.-14. maí, vika 19, 2023

Um 350 jarðskjálftar mældust á mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni sem leið. Það er heldur færra en í vikunni á undan og enn færri en vikuna þar á undan. Stærsti skjálfti vikunnar var aðeins 2,8 að stærð og varð hann þriðudaginn 9. maí við Kolbeinsey. Aðeins þrír aðrir skjálftar mældust yfir tveimur í vikunni, í Öskju og á Tjörnesbrotabeltinu. Skjálftavirkni við Grímsvötn hefur róast, en þar mældust aðeins 12 skjálftar í vikunni samanborið við 30 vikuna á undan. Tveir litlir skjálftar mældust í Heklu.

Nánar má skoða skjálftavirkni hér: Skjálfta Lísa

Reykjanesskagi 

Á Reykjanesskaga var dreifð virkni um allan skagann og var svipaður fjöldi skjálfta staðsettur og vikuna á undan eða um 130 atburðir. Óvenjulegir djúpir lágtíðniskjálfta mældust undir Fagradalsfjalli. Þeir eru á u.þ.b. 10 km dýpi og stærðin mjög lítil eða í kringum 0. Lítil þyrping skjálfta mældist milli Fagradalsfjalls og Keilis. Úti fyrir Reykjanestá eru enn virkni en mikið hefur dregið úr henni. Við Krýsuvík og Kleifarvatn var einnig nokkur virkni og í Brennisteinsfjöllum mældust einir sex skjálftar.

Suðurland 

Virknin á Suðurlandi var mjög svipuð þessa viku og vikuna á undan. Um 20 skjálftar voru staðsettir á Suðurlandsbrotabeltinu og um 10 á Hengilssvæðinu.

Tveir smáskjálftar mældist í Heklu.

Norðurland 

Á Tjörnesbrotabeltinu mældust 65 skjálftar, 37 á Grímseyjarbrotabeltinu, 18 á Húsavíkur-Flateyjar misgenginu og 5 í Eyjafjarðarál. Stærstu skjálftarnir voru 2,1 að stærð.

Svipuð virkni var við Kröflu og Þeistareyki og vikuna á undan, sex í Kröflu og fjórir á Þeistareykjum.

Miðhálendið 

Virkni í Vatnajökli hefur minnkað síðustu vikuna. Aðeins mældust um 50 skjálftar sem eru um helmingi færri en vikuna á undan. Virknin dreifist um vestanverðan jökulinn. Í Grímsvötnum hefur róast töluvert en aðeins 12 skjálftar voru staðsettir þar í þessari viku en þeir voru 30 í síðustu viku. Þónokkrir smáskjálftar mældust ofan við Síðujökul og sömu sögu er að segja ofan við Skeiðarárjökul.

Tæplega 30 skjálftar mældust í Öskju sem er sama og vikuna á undan. Sá stærsti var 2,0 að stærð. Herðubreið var mjög róleg, aðeins mældust þar 10 skjálftar.

Á Langjökulssvæðinu mældust tveir skjálftar við Geitlandsjökul og einn við Rauðfell.



Mýrdalsjökull og Torfajökulssvæðið 

Í Mýrdalsjökli mældust aðeins 12 skjálftar sem er mikil fækkun frá vikunni á undan þegar mældust 60 skjálftar. Skjálftarnir eru allir í Kötluöskjunni.

Skjálftalisti viku 18.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica