Jarðskjálftayfirlit

Jarðskjálftavirkni á öllu landinu er lýst í yfirliti sem birt er mánaðarlega á vefnum (frá september 2024). Náttúruvársérfræðingur skrifar yfirlitið sem birt er í annari viku hvers mánaðar. Þar er farið yfir virkni vikunnar á öllum jarðskjálftasvæðum og í eldstöðvarkerfum á landinu. Ef jarðskjálftahrinur eru í gangi, stærri skjálftar eða aðrir markverðir atburðir hafa orðið í vikunni er fjallað sérstaklega um það.

Mánaðaryfirlit

Skjálftavirkni 8.-14. janúar 2024, vika 2

Í vikunni mældust á milli tvö og þrjú þúsund jarðskjálftar, þegar þetta er ritað hafa um 700 þeirra verið yfirfarnir. Mesta virknin greindist við kvikuganginn nærri Grindavík en kvikuhlaup hófst með kröftugri jarðskj þar aðfararnótt sunnudags 14. janúar og eldgos um 5 klukkustundum síðar. Stærsti skjálfti vikunnar varð við Grímsvötn að morgni 11. janúar. Skjálftinn var um M4,2 að stærð og er sá stærsti við Vötnin sem skráður hefur verið á stafræna skjálftanetið (frá 1991). Skjálftanum fylgdi ekki mikil eftirskjálftavirkni. Dagana á undan hafði hægt vaxandi hlaupórói mælst á jarðskjálftanemanum á Grímsfjalli og daginn fyrir skjálftann mældist vaxandi hlaupvatn í Gígjukvísl og því ljóst að Grímsvatnahlaup væri hafið.

Nánar má skoða skjálftavirkni hér: Skjálfta Lísa

Reykjanesskagi og Reykjaneshryggur

Á Reykjanesskaga mældist jarðskjáfltavirkni frá Bláfjöllum og vestur á Reykjanes. Mesta skjálftavirknin varð við umbrotasvæðið við Svartsengi og Grindavík. Landris hafði mælst við Svartsengi síðan frá síðasta gosi fyrir jól. Innskotavirkni hófst þar á ný aðfararnótt sunnudagsins 14. janúar með kröftugri jarðskjálftahrinu. Virkin hófst við Sundhnúksgíga rétt fyri klukkan 03:00 og teygði sig suður í átt að Grindavík og undir bæinn eftir því sem leið á morguninn. Stærsti skjálftinn í hrinunni var af stærð M3,6 við Hagafell rúmlega klukkustund eftir að hrinan hófst. Klukkan 07:57 hófst svo hraungos á 900-1000 m langri sprungu yfir kvikuganginum, sunnan Hagafells. Ný en minni gossprunga opnaðist svo rétt norðan bæjarmarkanna upp úr hádegi.

Jarðskjálftavirkni mældist einnig í vestanverðu Fagradalsfjalli en skjálftavirkni á þessu svæði jókst síðasta haust. Dreifð virkni mældist einnig á svæðinu frá Trölladyngju og vestur fyrir Kleifarvatn.

Þrír jarðskjálftar hafa verið yfirfarnir á Reykjaneshrygg, á milli Eldeyjar og Reykjaness, allir um M1,6 að stærð.

Suðurlandsbrotabeltið og Hengill

Dreifð smáskjálftavirkni mældist frá Heklu og vestur eftir Suðurlandsbrotabeltinu, tæplega 20 smáskjálftar. Um tugur skjálfta um og undir stærð M2,3 mældist á Hengilssvæði, þar af sjö við Reykjadal, rétt sunnan Ölkelduháls, þann 10, janúar

Vesturgosbeltið og Mið-Íslandsgosbeltið

Þrír skjálftar mældust við Langjökul, tveir þeirra hafa verið yfirfarnir, einn við Stóru-Jarlhettu og hinn við Þórisjökul. Einn skjálfti af stærð M1,9 mældist í vestanverðum Hofsjökli.

Austurgosbeltið

Mýrdalsjökull og Torfajökulssvæðið

Við Torfajökul mældust fimm skjálftar, þeira hafa allir verið yfirfarnir. Í Mýrdalsjökli hafa tíu skjálftar verið yfirfarnir, stærð þeirra er á um og undir stærð M1,8. Meirihluti þeirra varð í sunnanverðri Kötluöskjunni.

Vatnajökull

Um sextíu skjálftar mældust í Vatnajökli. Í Bárðarbungu mældust tæplega 20 skjálftar, stærstur þeirra M3,4 við sunnanverðan öskjurimann. Á Lokahrygg (við Hamarinn) greindust tveir skjálftar og nokkrir í Kverkfjöllum, um og undir stærð M2,6. Mesta virknin undi jöklinum varð í Grímsvötnum, þar mældust ríflega þrjátíu skjálftar, sá stærsti M4,2 að morgni 11. janúar. Einn forskjálfti mældist (M1,3) og örfáir eftirskjálftar (upp að M1,4). Dagana á undan hafði hægt vaxandi hlaupórói mælst á jarðskjálftanemanum á Grímsfjalli og daginn fyrir skjálftann mældist vaxandi hlaupvatn í Gígjukvísl og því ljóst að Grímsvatnahlaup væri hafið.

Norðurgosbeltið

Askja og Herðubreið

Nokkuð dreifð virkni mældist við Herðubreið og Öskju í vikunni, tæplega 40 skjálftar í allt um og undir stærð M1. Tíu þessara skjálfta urðu við Öskju, en aðeins tveir þeirra hafa verið yfirfarnir.

Krafa og Þeistareykir

Aðeins einn skjálfti mældist nærri Þeistareykjum í vikunni, rétt yfir M0 að stærð. Sex skjálftar mældust við Kröflu, stærsti M2,5.

Tjörnesbrotabeltið

Nokkur skjálftavirkni mældist eftir Grímseyjarbeltinu en mest var hún um 10 km norðnorðaustan Grímseyjar. Stærsti skjálftinn þar var M3,2 að stærð og varð síðdegis 11. janúar. Mun færri skjálftar mældust á Húsavíkurmisgenginu en rétt utan Húsavíkur greindust tíu skjálftar allir litlir (um og undir stærð M1,6).

Skjálftalisti_viku_02



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica