Vikulegt jarðskjálftayfirlit

Jarðskjálftavirkni á öllu landinu er lýst í vikuyfirliti sem birt er á vefnum. Náttúruvársérfræðingur á vakt skrifar vikuyfirlitið sem birt er á þriðjudögum. Þar er farið yfir virkni vikunnar á öllum jarðskjálftasvæðum og í eldstöðvarkerfum á landinu. Ef jarðskjálftahrinur eru í gangi, stærri skjálftar eða aðrir markverðir atburðir hafa orðið í vikunni er fjallað sérstaklega um það.

Vikuyfirlit

Skjálftavirkni 6.-12. mars, vika 10, 2023

Rúmlega 500 jarðskjálftar mældust með SIL mælakerfi Veðurstofu Íslands í liðinni viku, sem eru talsvert fleyri skjálftar en mældust í fyrri viku þegar um 390 skjálftar mældust. Stærsti skjálfti vikunnar mældist 3,8 austnorðaustan við Grímsey í jarðskjálftahrinu þar 10 og 11. mars er taldi rúmlega 100 jarðskjálfta. 4 jarðskjálftar yfir 3,0 að stærð mældust í Mýrdalsjökli en þar var fremur mikil virkni þessa vikuna og mældust þar rúmir 50 jarðskjálftar. Við Herðubreið og Herðubreiðartögl mældust um 70 jarðskjálftar. Við Húsmúla, í suðvestanverðum Henglinum mældust rúmir 4 tugir skjálfta. Suðvestur af Reykjanestá mældust einnig um 20 jarðskjálftar í þyrpingu þann 6. mars.

Nánar má skoða yfirfarna skjálfta í Skjálfta-Lísu vefsjánni

Suðurland

Rúmlega 85 jarðskjálftar mældust á Suðurlandi í vikunnu og af þeim hafa 75 skjálftar verið yfirfarnir. Flestir skjálftanna mældust á Hengilsvæðinu eða rúmir 50 skjálftar, flestir eða rúmir 40 þeirra mældust við Húsmúla í þyrpingum 10. og 11. mars. Stærsti skjálftin þar og á Suðurlandi mældist 2,8 að stærð þann 10. mars kl. 14:36. Nokkrir skjálftar voru staðsettir í námunda við Nesjavallaveg, en annars var fremur dreifð virkni um Suðurlandsbrotabeltið. Enginn skjálfti mældist í Heklu í vikunni.

Reykjanesskagi

Um 90 jarðskjálftar voru staðsettir á Reykjanesskaga og á landgrunninum suðvestur af Reykajanestá. Um 10 smáskjálftar af stærðum 1 og minni mældust austan við Sýrlingafell. Annar tugur við Trölladyngju, við Kleifarvatn og Seltún mældust tæpir tveir tugir. Þrír skjálftar mældust við Þrengslaveg og nokkrir dreifðust um Heiðina Há og Brennisteinsfjöll. Við Reykjanestá mældust um 20 jarðskjálftar. Úti fyrir landi mældust rúmlega 20 jarðskjálftar, flestir mældust í þyrpingu 6. mars um 30km veststuðvestur af landi, tveir skjálftar mældust 2,7 að stærð, annar í þyrpingunni 6. mars en sá síðari þann 10. mars um 70 km suðvestur frá Reykjanestá.

Norðurland

Rúmlega 160 jarðskjálftar mældust úti fyrir landi á Tjörnesbrotabeltinu í vikunni, þar af hafa um 130 þeirra verið handvirkt yfirfarnir. Flestir þeirra um 100 talsins mældust í jarðskjálftahrinu austnorðaustan við Grímsey. Þar mældist stærsti skjálfti vikunnar af stærð 3,8. 12 jarðskjálftar mældust á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu. Rúmur tugur skjálfta mældist í Öxárfirði, 2 úti á Eyjafjarðarál en aðrir dreifðust um Grímseyjarbeltið. 3 jarðskjálftar mældust á SPAR-misgenginu 6.mars stærstur af þeim mældist 3,0 að stærð.

Hálendið

Rúmega 130 jarðskjálftar mældust á hálendinu í vikunni, heldur færri en í vikunni á undan þegar um 190 skjálftar mældust. Við Herðubreið og Herðubreiðartögl mældust flestir skjálftanna um 70 talsins, þar mældist einnig skjálfti af stærð 3,3 þann 6. mars. Um 35 jarðskjálftar voru staðsettir í Öskju, þar af mældust 2 þeirra 2,3 að srærð í austurrimanum. Í Vatnajökli mældust 25 jarðskjálftar, 5 þeirra í Bárðarbungu, 1 vestan við Vestari Skaftárketilinn, 1 í Grímsvötnum, 2 smáskjálftar í Öræfajökli en 8 jarðskjálftar mældust norðan við Skeiðarárjökul skammt frá jarðskjálftamælistöðinni Vetti.

Mýrdals- og Eyjafjallajökull

Rúmlega 50 jarðskjálftar voru staðsettir í Mýrdalsjökli í vikunni, þar af mældust 4 jarðskjálftar yfir 3,0 að stærð. Mest virkni í Mýrdalsjökli var í norðausturhluta Kötluöskjunnar, 9. mars kl. 16:11 mælist skjálfti 3,3 að stærð þá kl. 16:26 mælist sá stærsti 3,4 að stærð, og annar skömmu síðar kl. 16:35 af stærð 3,0. En virknin var dreyfð víðar t.a.m. þann 11. mars kl. 07:02 mælist skjálfti 3,1 í vesturrima öskjunnar.

Einn jarðskjálfti af stærð 1,8 mældist í syðri hluta gýgs Eyjafjallajökuls.

Vesturland

Einn jarðskjálfti af stærð 1,8 mældist í Kvígindisdal um 6 km austnorðaustan við Grjótarvatn á Vesturlandi.

Skjálftalisti - Vika 10, 2023


Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica