Vikulegt jarðskjálftayfirlit

Jarðskjálftavirkni á öllu landinu er lýst í vikuyfirliti sem birt er á vefnum. Náttúruvársérfræðingur á vakt skrifar vikuyfirlitið sem birt er á þriðjudögum. Þar er farið yfir virkni vikunnar á öllum jarðskjálftasvæðum og í eldstöðvarkerfum á landinu. Ef jarðskjálftahrinur eru í gangi, stærri skjálftar eða aðrir markverðir atburðir hafa orðið í vikunni er fjallað sérstaklega um það.

Vikuyfirlit

Skjálftavirkni 23.-29. janúar, vika 4, 2023

230 jarðskjálftar mældust með SIL mælakerfi Veðurstofu Íslands í liðinni viku, aðeins færri en í vikunni á undan þegar um 260 skjálftar mældust. Engin skjálfti mældist yfir 3 að stærð í vikunni en stærsti skjálftinn var 2,7 að stærð í Mýrdalsjökli. Svipuð eða minni virkni var á öllum svæðum í samanburði við vikuna á undan. Líkt og síðustu vikur hafa mælst um 3 tugir jarðskjálfta í Mýrdalsjökli. Sjö skjálftar mældust í Grímsvötnum sem er heldur fleiri en vikunni á undan, en enginn skjálfti mældist í Heklu.

Nánar má skoða yfirfarna skjálfta í Skjálfta-Lísu vefsjánni

Suðurland

Tæplega 30 smáskjálftar mældust á Suðurlandi sem er svipaður fjöldi og í vikunni á undan. Sex skjálftar mældust á Hengilsvæðinu í grennd við Grænadal, 7 við Litlu-Reyki í Árborg en aðrir skjálftar dreifðust um suðurlandsbrotabeltið. Enginn skjálfti mældist í Heklu.

Reykjanesskagi

Fjörtíu skjálftar mældust á Reykjanesskaga í vikunni, sem er örlítið færri en í síðustu viku. Skjálftarnir voru dreifðir um skagann og stærsti skjálftinn var 2,2 að stærð suðaustur af Driffelli. Þrettán skjálftar mældust á Reykjaneshrygg í vikunni, allir undir 2 að stærð.

Norðurland

Um 40 skjálftar mældust á Tjörnesbrotabeltinu sem er heldur fleiri en í vikunni á undan, sá stærsti 2,2 að stærð. Mesta virknin var á Grímseyjarbeltinu en einungis einn skjálfti mældist á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu og var hann þar sem misgengið mætir Eyjafjarðarál. Þrír smáskjálftar mældust við Bæjarfjall, 6 á Kröflusvæðinu og einn við Reykjahlíð.

Hálendið

Tæplega 40 skjálftar mældust undir Vatnajökli í vikunni sem er heldur fleiri en í vikunni á undan. Tólf skjálftar mældust í Bárðarbungu, stærsti var 2,5 að stærð. Þrír djúpir skjálftar mældust á svæðinu suðaustur af Bárðabungu þar sem oft mælast djúpir skjálftar. Sjö skjálftar mældust í Grímsvötnum, 1 smáskjálfti mældist norðan við Eystri-Skaftárketil og 2 smáskjálftar mældust á milli Grímsvatna og Bárðarbungu. Einn smáskjálfti mældist í Síðujökli, 2 í Skeiðarárjökli og 4 við Skaftafellsfjöll. Tveir smáskjálftar mældust í Öræfajökli og 2 við Kverkfjöll. Tæplega 40 skjálftar mældust norður af Vatnajökli, þar af 14 við Öskju og 23 við Herðubreið og Herðubreiðartögl.

Mýrdalsjökull

Um 30 skjálftar mældust í Mýrdalsjökli sem er svipað og í vikunni á undan, flestir vestan megin í Kötluöskjunni og var stærsti skjálftinn 2,7 að stærð og var hann jafnframt stærsti skjálfti vikunnar. Engir skjálftar mældust á Torfajökulssvæðinu eða í Eyjafjallajökli.

Skjálftalisti - Vika 4, 2023
Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica