Vikulegt jarðskjálftayfirlit

Jarðskjálftavirkni á öllu landinu er lýst í vikuyfirliti sem birt er á vefnum. Náttúruvársérfræðingur á vakt skrifar vikuyfirlitið sem birt er á þriðjudögum. Þar er farið yfir virkni vikunnar á öllum jarðskjálftasvæðum og í eldstöðvarkerfum á landinu. Ef jarðskjálftahrinur eru í gangi, stærri skjálftar eða aðrir markverðir atburðir hafa orðið í vikunni er fjallað sérstaklega um það.

Vikuyfirlit

Jarðskjálftayfirlit viku 9, 16. febrúar - 3. mars 2024

Tæplega 1650 skjálftar mældust á landinu í níundu viku ársins. Tæplega 870 skjálftar hafa verið yfirfarnir. Þessi mikla auknin frá því í síðustu viku stafar af kvikuhlaupi þann 3.mars frá Svartsengi yfir í kvikuganginn undir Sundhnjúksgígaröðinni. Að þessu sinni endaði kvikuhlaupið ekki í eldgosi líkt og gerðist í janúar og febrúar. Áframhaldandi landris mælist eftir kvikuinnskotið. Kvikuflæði undir Svartsengi heldur því áfram og líkanreikningar sýna að um hálf milljón rúmmetra af kviku safnast á sólarhring. Í heildina hafa um 9,5 milljón rúmmetrar af kviku safnast fyrir í kvikuhólfinu undir Svartsengi síðan í eldgosinu 8. febrúar. Þrýstingur í kvikuhólfinu heldur því áfram að byggjast upp og auknar líkur eru á nýju kvikuhlaupi yfir í Sundhnúksgígaröðina og jafnvel eldgosi á næstu dögum.

Nokkur virkni var bæði í Bárðarbungu og Grímsvötnum í vikunni og einnig hefur smáskjálftahrina verið í gangi við Húsmúla í Henglinum síðan 15. febrúar, en hrinuvirkni á því svæði er allvanaleg og þekkt er að niðurdæling á því svæði geti valdið skjálftum.

Nánar er fjallað um jarðhræringarnar nærri Grindavík í frétt á forsíðu sem er uppfærð reglulega.

Nánar má skoða skjálftavirkni hér: Skjálfta Lísa


Reykjanesskagi og Reykjaneshryggur

Tæplega 1190 skjálftar mældust á Reykjanesskaga í vikunni sem leið. Mest var virknin í kvikuganginum eða eða um 620 skjálftar, flestir undir tveimur að stærð. Hrina hófst þann 3.mars vegna kvikuhlaups frá Svartsengi yfir í kvikuganginn. Kvikuhlaupið endaði ekki í eldgosi líkt og gerðist í janúar og febrúar. Stærsti skjálftinn í þeirri hrinu var 2.6 að stærð. Við Fagradalsfjall mældust um 160 skjálftar sá stærsti var 1.5 að stærð. Nokkur skjálftavirkni hefur verið á svæðinu milli Keilis og austur fyrir Kleifarvatn, stærsti skjálftinn þar mældist 3.4 að stærð 26. febrúar um 2 km austur af Kleifarvatni. Af þeim 1190 skjálftum sem mældust hafa 640 þeirra verið yfirfarnir.
Um þrír skjálftar mældust úti á hrygg, stærstur þeirra mældist 1.8 þann 27. febrúar og var staðsettur vestur af Eldey.

Suðurlandsbrotabeltið og Hengilssvæðið

Á Hengilssvæðinu mældust ríflega 220 skjálftar. Af þeim voru um 60 staðsettir í og við Húsmúla, þar sem hefur staðið yfir lítil skjálftahrina frá 15. Febrúar. Um 5 km norðvestur af Húsmúla mældust rúmlega 140 skjálftar. Stærsti skjálftinn var 2.6 að stærð. Skjálftavirkni á Suðurlandsbrotabeltinu var með eðlilegu móti, 30 skjálftar, allir litlir og mjög dreifðir.

Vesturgosbeltið og Mið-Íslandsgosbeltið

Einn skjálfti mældist norður af Þórisjökli þann 1.mars og mældist hann 2 að stærð.

Austurgosbeltið

Mýrdalsjökull og Torfajökulssvæði
Í Mýrdalsjökli var virkni svipuð og undanfarnar vikur, 22 skjálftar, stærsti 2.8 að stærð. Þrír skjálftar mældust á Torfajökulssvæðinu en þeir eru óyfirfarnir.

Vatnajökull
Í Vatnajökli mældust 40 skjálftar og var virknin mest í kringum Grímsvötn og Bárðarbungu. Í Bárðarbungu mældust tæplega 20 skjálftar, sá stærsti 1.5 að stærð 28. febrúar. Um 10 skjálftar voru í Grímsvötnum, stærsti skjálftinn mældist 2,7 að stærð. Restin af virkninni var dreifð um norðvestur hluta Vatnajökuls.

Norðurgosbeltið

Askja og Herðubreið

Við Öskju mældust 17 skjálftar, allir undir 1.5 að stærð. Við Herðubreið mældust 36 skjálftar.

Krafla og Þeistareykir

Fjórir smáskjálftar mældust við Kröflu og tveir smáskjálftar við Bæjarfjall.



Tjörnesbrotabeltið

Alls mældust um 33 skjálftar á Grímseyjarbrotabeltinu og Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu. Þar af 19 á Grímseyjarbrotabeltinu og 13 á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu.



Skjálftalisti viku 9




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica