Vikulegt jarðskjálftayfirlit

Jarðskjálftavirkni á öllu landinu er lýst í vikuyfirliti sem birt er á vefnum. Náttúruvársérfræðingur á vakt skrifar vikuyfirlitið sem birt er á þriðjudögum. Þar er farið yfir virkni vikunnar á öllum jarðskjálftasvæðum og í eldstöðvarkerfum á landinu. Ef jarðskjálftahrinur eru í gangi, stærri skjálftar eða aðrir markverðir atburðir hafa orðið í vikunni er fjallað sérstaklega um það.

Vikuyfirlit

Jarðskjálftayfirlit viku 30, 22. - 28. júlí 2024

Reykjanesskagi og Reykjaneshryggur

Á Reykjanesskaga mældust um 350 skjálftar þessa vikuna. Mest var virknin í og við kvikuganginn við Sundhnúksgígaröðina sem hefur aukist frá því í vikunni á undan, en talsverð virkni var einnig í Fagradalsfjalli og umhverfis Trölladyngju. Stærsti skjálftinn á svæðinu þessa vikuna mældist 2,5 að stærð 27. júlí í Mávahlíðum við Kleifarvatn. Á Reykjaneshryggi voru um 10 skjálftar mældir, allir undir 2 að stærð.

Suðurlandsbrotabeltið og Hengilssvæðið

Á Suðurlandsbrotabeltinu mældust um 60 skjálftar á víð og dreif um svæðið. Tæplega 40 skjálftar mældust á Hengilsvæðinu, sá stærsti mældist 2 að stærð 25. júlí við Stóru-Kattartjörn.

Vesturgosbeltið og Mið-Íslandsgosbeltið

Tvær skjálftar mældust í Langjökli í vikunni sem leið, báðir undir 2 að stærð. Tvær Skjálftar mældust við Grjótárvatn á Snæfellsnesi, báðir um 1.8 að stærð.

Mýrdalsjökull og Torfajökulssvæði

í Mýrdalsjökli var aukin virkni þessa vikuna sem var tengd jökulhlaupi í Skálm sem varð á laugardaginn. Um 60 skjálftar mældust, allir undir þremur að stærð og flestir staðsettir norðarlega í öskjunni. Á Torfajökulsvæðinu var nokkuð rólegt, um 5 skjálftar mældust þar en sá stærsti var 2.9 að stærð 23. júlí vestan Hraftinnuskers.

Vatnajökull

Í Vatnajökli var nokkuð rólegt þessa vikuna, um 20 skjálftar mældust og skjálftavirknin var mest í kringum Hamarinn.

Norðurgosbeltið

Askja og Herðubreið

Við Öskju mældust um 20 skjálftar í vikunni sem leið, flestir á austurbarmi öskjunnar. 4 skjálftar mældust í og við Herðubreið og Herðubreiðartögl.

Krafla og Þeistareykir

Rólegt var á svæðinu í vikunni, tveir skjálftar mældust við Kröflu og 5 við Bæjarfjall, allir um eða undir 1 að stærð.

Tjörnesbrotabeltið

Virkni var nokkuð dreifð um beltið síðastliðna viku en tæplega 60 skjálftar mældust á svæðinu í heild sinni. Rúmlega 20 skjálftar mældust í hrinu á Eyjafjarðardjúpi, sá stærsti þeirra var 2.25 að stærð 28. júlí. Í Axarfirði mældust um 20 skjálftar, allir undir 2 að stærð. Nokkrir skjálftar mældust einnig við Grímsey, enginn þeirra náði 2 að stærð.

Skjálftalisti viku 30



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica